Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:27:54 (6276)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Satt að segja veit maður ekki hvort maður á frekar að hafa samúð með ráðherranum eða halda umræðunni áfram því að þetta er satt að segja orðin svo aumkunarverð framganga að hún nær varla máli. Hæstv. ráðherra er spurður að því hvort hann ætli að leggja frumvörpin um hlutafélagsbankana, Búnaðarbankann og Landsbankann, fyrir þetta þing eða ekki. Ráðherrann treystir sér ekki til að svara því. Þar með verður fullkomin óvissa áfram, m.a. í viðskiptum Búnaðarbankans við umheiminn hvert rekstrarformið verður á þessu ári. Ráðherrann er spurður að því hvort hann ætli að selja Búnaðarbankann eða Landsbankann á þessu ári að einhverju leyti. Hann treystir sér ekki til að svara því. Þar með er hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson að opna á það að eftir að hér á að samþykkja lög þar sem með þessum lögum á hver fjölskylda að greiða 50--60 þús. kr. styrk til Landsbankans þá ætlar hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson enn að stefna að því að selja einhverjum gæðingum þennan banka síðar á árinu. Sér hæstv. ráðherra ekki nauðsynina á því að segja það alveg skýrt við skattgreiðendur í landinu þar sem hann ætlar í dag að samþykkja að hver einasti Íslendingur, börn og gamalmenni, sjúklingar og ellilífeyrisþegar, greiði 17 þús. kr. inn í Landsbankann, að ekki sé ætlunin að selja bankann á þessu ári einhverjum gæðingum? Nei, takk. Sú óvissa skal áfram vera.
    Hæstv. ráðherra lagði ekki í að mótmæla orðum Jóhannesar Nordals. Það er alveg skýrt hvað Jóhannes Nordal segir í viðtalinu og það er reyndar líka alveg skýrt hvað forsrh. segir í viðtalinu að nú sé ekki tíminn til að einkavæða bankana og menn verði að bíða þangað til markaðurinn er hagstæðari. En ríkisstjórnin segir í dag: Markaðurinn verður svo óhagstæður á næstu missirum að það verður að leiðrétta reikninga Landsbankans til þess að hann geti mætt hugsanlegum áföllum á næstunni. Ég skora því á ráðherrann enn á ný að veita skýr svör á þinginu við þessum einföldu spurningum vegna þess að bæði þingið og þjóðin eiga kröfu á því að þeim spurningum sé svarað.