Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:49:42 (6284)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er enginn ágreiningur milli okkar hv. þm. um það að almenningur í landinu er eigandi Landsbankans og það þjónar hagsmunum almennings að varðveita eignir og stöðu bankans. Það eina sem ég gerði hér í umræðunni og virðist hafa verið eitthvert feimnismál hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni vini mínum og félaga hér í stjórnarandstöðu var að ég notaði orðið ,,skattur`` og það er nú algengt orð yfir þær greiðslur sem fara frá almenningi í gegnum ríkissjóð til einhverra annarra. Það er óþarfi fyrir hv. þm. að gera mér það upp að ég telji orðið ,,skattur`` vera skammaryrði eða neikvætt, það er mikill misskilningur. Það er af og frá að ég telji svo vera. En ég tel hins vegar enga nauðsyn á því að vera að leyna almenning í landinu hvað hér er verið að gera. Það er auðvitað hægt að búa til alls konar fín orð í ríkisfjármálunum um víkjandi lán og dittinn og dattinn og láta þetta renna í gegnum tryggingarsjóð með sjálfskuldarábyrgð og svona fínum orðum. En þegar búið er að taka umbúðirnar utan af og kemur að því að borga þessi lán, þá verður það ekki gert öðruvísi ef þau falla á almenning en með einhvers konar sköttum.