Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:51:07 (6285)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég læt mér ekki koma það til hugar að fyrrv. fjmrh. tali um orðið skatt sem skammaryrði og ég er á engan hátt að reyna að skattyrðast við hann og tek það sem gilt að hann telji það nauðsynlegt að skattleggja landsmenn annað slagið. En ég tel að svo sé ekki í þessu tilviki. Það er fyrst og fremst það sjónarmið sem ég vildi koma hér á framfæri. Ég tel þvert á móti að hér sé verið að grípa til aðgerða sem komi í veg fyrir það að tap verði mikið á þessari eign og tel það nauðsynlegt. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að lán þarf að borga, en ég vænti þess að Landsbanki Íslands muni geta greitt til baka þetta víkjandi lán. Ég geri mér þær vonir. Og ég vænti þess jafnframt að arður geti orðið það mikill af Landsbanka Íslands í framtíðinni að ríkissjóður þurfi ekki að tapa á þessari aðgerð og þar af leiðandi þurfi ekki til lengri framtíðar litið að koma til skattheimtu ríkissjóðs til að standa undir henni. Þetta er alþekkt og ýmsir fleiri sem staðið hafa að ríkisstjórnum hafa staðið að því að mynda sjóði og mynda ábyrgðir til þess að koma í veg fyrir að landsmenn og atvinnufyrirtæki landsmanna töpuðu miklum fjármunum.