Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:53:08 (6286)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Í framhaldi af síðustu orðaskiptum er nauðsynlegt að ítreka að það er fjarri því að almenningur sé laus við klyfjarnar af þessu máli. Það er alveg ljóst að aðgerðir, sem grundvallast á því mati að það þurfi að afskrifa 10,3 milljarða af útlánum Landsbankans á árinu 1992 og 1993, þær hljóta að koma við almenning. Það er alveg ljóst, bæði með beinum og óbeinum hætti. Það er efnahagsstefnan sjálf sem það mat grundvallast á sem er vandamálið og sú stefna mun kosta almenning verulegar byrðar. Hún mun líka kosta viðskiptavini Landsbankans sérstakar byrðar því hann þarf að greiða hærri útgjöld vegna framlaga í formi víkjandi láns. Hann þarf að borga vexti og verðbætur af þeim víkjandi lánum upp á hundruð millj. kr. og þarf að afla sér tekna fyrir þeim útgjöldum með því að halda uppi vaxtastiginu á viðskiptavinum sínum sem eru almenningur og fyrirtækin. Hv. 1. þm. Austurl. verður að hafa það í huga að menn eru ekki svo gæfusamir í þessari aðgerð að almenningur sé laus við allar byrðar sem henni fylgja. Ef Landsbankinn á að borga þetta til baka verður hann að sækja það fé til að endurgreiða í gegnum sína viðskiptavini.
    Það sem mér finnst vanta og stendur upp úr sem þögnin eftir þessa umræðu er: Er efnahagsstefna núv. ríkisstjórnar sú að keyra atvinnureksturinn í landinu í gjaldþrot? Er það gjaldþrotastefnan sem á að vera hér fram undan eða eru engar aðrar aðgerðir í undirbúningi af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að bæta afkomu atvinnuveganna, sérstaklega sjávarútvegsins? Matið á afskriftaþörf Landsbankans, sem aðgerðirnar grundvallast á, byggist á því að ekkert verði gert, að hvert sjávarútvegsfyrirtæki á fætur öðru hringinn í kringum landið fari á hausinn. Svo koma hæstv. ráðherrar eins og fjmrh. og viðskrh. og segja: Þessi aðgerð er að styrkja atvinnulífið. Hvað styrkir það mikið atvinnulífið ef öll þessi fyrirtæki fara á hausinn? Hversu betur er atvinnulífið statt eftir þá aðgerð? Hvaða klyfjar eru þá lagðar á almenning? Ég held að mönnum ætti að vera það ljóst að það er verið að leggja klyfjar á almenning í þeim plássum þar sem fyrirtæki hafa farið á hausinn, vestur á fjörðum og víðar, því að þeim almenningi er ætlað að borga fyrir það

að eiga lífsgrundvöll með vitlausum lögum um stjórn fiskveiða svo dæmi sé nefnt.
    Ég held að menn ættu að huga að því og knýja svara hjá hæstv. ríkisstjórn um það hvert hennar efnahagsprógramm er varðandi sjávarútveginn. Það er það sem stendur upp úr að vantar svör við eftir þessa umræðu.