Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:02:55 (6291)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég hlýt að segja það í upphafi að það mál sem hér er rætt er ekki hentugt umræðuefni í þingsal. Ég veit reyndar að endurskoðendur bankans og bankaeftirlits hafa komið að máli við hv. efh.- og viðskn. og skýrt þessar stærðir. En ég hlýt að endurtaka enn á ný að í máli bæði hv. 5. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Norðurl. e. vakir misskilningur. Að vísu sagði hv. 4. þm. Norðurl. e. að afskriftirnar nálguðust 10 milljarða. En hv. 5. þm. Vestf. fór vel fram úr þeirri tölu. Ég endurtek, við erum alls ekki að tala um slíkar fjárhæðir.
    Ég vil heldur ekki taka neina afstöðu til þess hér og nú hver bókhaldsniðurstaða í birtum reikningum Landsbankans verður fyrir árið 1992 einfaldlega af því að ríkisstjórnin blandar sér ekki í það mál eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan. Efnislega er niðurstaðan sú sama og kom fram í mjög glöggu yfirliti sem hv. 1. þm. Austurl. gerði hér áðan. Hann sagði efnislega: ,,Hvort farin er þessi leið eða hin, hvort farið er yfir höfuðstól eða í gegnum rekstrarreikning með þessar stærðir breytir ekki efninu. Hér er verið að samþykkja að leggja til aukið eigið fé í Landsbankann upp á þær fjárhæðir sem greinir í frv. og þar þurfum við ekki að leyfa neinar bókhaldsþrautir. Það er verkefni endurskoðendanna. Það er verkefni stjórnar bankans að koma þessu þannig fyrir að það þjóni hagsmunum hans og eigenda hans, almennings í landinu, með sem bestum hætti.