Dagskrá

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:41:56 (6305)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það eins og er að ég er alveg hættur að skilja forseta sameinaðs þings. ( Forseti: Forseti ekki forseti sameinaðs þings.) Nei, það er að vissu leyti rétt ( GHelg: Þetta er sameinað þing.) en kannski saknar maður þess að forsetadæmið sé ekki lengur þrískipt. En forseti vitnaði líka í venjur. Það hefur líka verið venja hér, forseti, þegar formaður þingflokks óskar eftir að máli sé frestað þá sé orðið við þeirri ósk. Það hefur líka verið venja í þinginu, forseti. Formaður þingflokks Alþb., Jóhann Ársælsson, sem gegnir því starfi í fjarveru hv. þm. Ragnars Arnalds, bar fram þá ósk. Ætlar hæstv. forseti að fara að taka upp nýja venju að verða bara stundum við óskum formanna þingflokka og stundum ekki? Það væri mjög fróðlegt að fá einhverja vitneskju um það. Ég vara alvarlega við því að fara að hunsa óskir formanna þingflokka með þeim hætti sem forseti virðist ætla að gera hér.
    Ég kannast heldur ekki við að það sé búið að festa í sessi þá venju að sé fundur á föstudögum þá byrji hann ávallt klukkan hálfellefu. Það hefur oft verið gert til að greiða fyrir málum en að það sé orðin föst venja að menn eigi að ganga út frá því að sé fundur á föstudögum þá sé hann klukkan hálfellefu, það kannast ég ekki við. Eigi að gera það að venju þá verður að gera það með þeim hætti að þingmenn skipuleggi ekki sinn tíma á þann veg að það rekist á. Um það er nauðsynlegt að formenn þingflokka og forseti ræði utan fundar en hitt er alveg nýtt ef forseti ætlar að fara að neita ósk frá þingflokki um frestun umræðu.