Dagskrá

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:45:48 (6308)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú alveg greinilegt að hæstv. umhvrh. og ráðherra norrænna mála hefur ekki mikinn áhuga á því að koma til móts við þingmenn og er með ósannar aðdróttanir sem rök í málinu. Ég hef ekki flutt neinar langar ræður í dag, hæstv. ráðherra. Ætli ég hafi ekki talað einu sinni í 7--8 mínútur og í 5 mínútur í seinna skiptið. Síðan fór ég upp í örfá skipti til andsvara. Meira var það ekki. Ef það heitir á máli hæstv. ráðherra að setja á löng ræðuhöld í allan dag, þá veit ég ekki hvar hæstv. ráðherra er staddur og er erfitt að eiga orðastað við mann sem hefur svona brenglað veruleikaskyn.
    Hæstv. forseti sagði áðan að það væri orðin venja að það væru fundir á föstudögum og þá byrjuðu þeir klukkan hálfellefu. Ég sagðist ekki kannast við þá venju. Það er hins vegar rétt hjá hæstv. forseta að það stendur að fundir á föstudögum samkvæmt starfsáætlun hefjist klukkan 10.30 en hér hafa auðvitað oft verið föstudagsfundir sem ekki eru samkvæmt starfsáætlun. Ber þá að skilja þetta þannig að forseti ætli sér bara þá að halda sig við starfsáætlunina eða er bara haldið sig við starfsáætlunina þegar það hentar? Það segir ekkert hér um almennan fundartíma á föstudögum og hæstv. forseta er það kunnugt að því hefur verið mótmælt á samráðsfundum formanna þingflokka að það væri verið að hlaupa fram og aftur með fundartíma þingsins. Það eru margvíslegar aðrar skyldur sem hvíla á þingmönnum heldur en þær að sitja hér í þingsal. Það eru fjölmargir hagsmunaaðilar og aðilar í kjördæmum sem óska eftir því að menn komi til fundar og það er nauðsynlegt að forsetadæmið sýni þá fyrirhyggju að gefa þingmönnum kost á því að skipuleggja tíma sinn með árangursríkum hætti.
    Hinu hefur svo forseti ekki svarað hvort forseti hyggst taka upp þann sið að verða ekki við óskum þingflokka um að umræðu sé frestað. Sú ósk hefur komið fram, hvort sem umhvrh. líkar betur eða verr, frá formanni þingflokks Alþb. að þessari umræðu verði frestað. Þó hefur hann til móts við vilja forseta lýst því yfir að við munum ekki gera athugasemd við það þó mælt verði fyrir máli en að síðan ætli forseti að fara að tína þá þingmenn inn í umræðuna sem vilja tala er auðvitað framgangsmáti sem nær ekki nokkurri átt. Ég bið forseta að hugleiða að það er fyrst og fremst sá góði samstarfsandi hér í þinginu undanfarna daga sem hefur gert forseta það kleift að koma því frv. sem ríkisstjórnin flutti í skyndingu í form laga. En það er hins vegar athyglisvert að um leið og búið er að því þá er samstarfsvilja forseta lokið. Af

því verður auðvitað ekki hægt að draga nema eina ályktun.