Norræna ráðherranefndin 1992--1993

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:54:50 (6315)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. ( ÓRG: Það er komin ný venja að . . .  áður en þingmaður er kominn í ræðustólinn.) Dregur hv. þm. í efa að mér hafi verið gefið orðið? ( ÓRG: Það var fjöldi manna . . .  ) ( Forseti: Forseti var búinn að kynna hæstv. ráðherra.) (Gripið fram í.)
    Virðulegi forseti. Hér kemur til umræðu skýrsla um störf norrænu ráðherranefndarinnar 1992--1993 og henni vil ég fylgja úr hlaði með örfáum orðum en skýrslan er á þskj. 701.
    Skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn gefur árlega út viðamiklar skýrslur um störf ráðherranefndarinnar. Aðalskýrslan er svonefnd C1 skýrsla. Hún er yfirgripsmikil og er í ár tæpar 200 prentaðar síður. Þá er svonefnd C2 skýrsla sem fjallar um áform næsta starfsárs og í þriðja lagi eru norrænu fjárlögin 1993 sem sýna á hvern veg ráðherranefndin ætlar að kosta þau áform sem C2 skýrslan lýsir.
    Nú er það svo að danska, norska og sænska eru hin opinberu mál sem viðurkennd eru í norrænu samstarfi. Íslendingar og Finnar og þjóðir sjálfsstjórnarlandanna verða að láta þýða þessar skýrslur á eigin tungu ef þeir vilja veita almenningi viðunandi aðgang að upplýsingum um gang mála. Þannig eru sérstakir finnskir túlkar og þýðendur starfandi á skrifstofu ráðherranefndarinnar sem þýða jafnóðum veigamestu skjöl og skýrslur á finnsku.
    Samstarfsráðherrar Íslands hafa á undanförnum árum lagt fram þýdda og endursagða kafla úr skýrslum ráðherranefndarinnar sem telja má kjarna eða ágrip af starfseminni, bæði almennt og að því er einstakar greinar varðar, að viðbættu því efni sem berst frá íslenskum embættismönnum og forsvarsmönnum verkefna sem tengjast Íslandi sérstaklega. Þannig vona ég að fáist allsæmilegt yfirlit yfir samstarfið í heild eins og það kemur fram í skýrslum skrifstofu ráðherranefndarinnar og samstarfið eins og það snertir Ísland sérstaklega.
    Sl. ár var sögulegt ár í norrænni samvinnu, einkum að því leyti að mörkuð var ný og framsækin stefna í samstarfi landanna. Hinn 17. ágúst á sl. ári var hin svonefnda ,,Iloniemi-skýrsla``, þ.e. skýrsla til forsrh. Norðurlanda afhent ráðherrunum á fundi þeirra á Borgundarhólmi. Skýrslan á rætur að rekja til ákvörðunar forsætisráðherranna frá því 12. nóv. 1991 þar sem ákveðið var að stofna til endurmats á norrænni samvinnu, m.a. í ljósi aukinnar efnahagslegrar og pólitískrar samvinnu Evrópuríkja og þátttöku Norðurlanda í henni. Sérstakur 10 manna starfshópur tilnefndur af forsætisráðherrunum í þessu skyni tók til starfa í desember 1991 og skilaði skýrslu til ráðherranna á fundi á Borgundarhólmi 17.--18. ágúst. Forsætisráðherrarnir féllust í meginatriðum á tillögur starfshópsins sem voru til umræðu á Alþingi hinn 29. okt. sl. og á þingi Norðurlandaráðs í Árósum 9.--11. nóv.
    Í umræðunum á Alþingi dró Davíð Oddsson forsrh. þau meginatriði tillagnanna sem til breytinga horfa saman með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:
    ,,Starfshópurinn skilaði skýrslu til forsætisráðherra á fundi þeirra á Borgundarhólmi 17.--18. ágúst. Tillögur starfshópsins fela m.a. í sér að forsætisráðherrarnir takast á herðar almenna pólitíska ábyrgð á mótun norrænnar samvinnu. Með því er stefnt að því að stuðla að nánari pólitískri leiðsögn, bæði hvað snertir samvinnu Norðurlandanna og þátttöku þjóðanna í evrópskri og alþjóðlegri samvinnu. Einnig er lagt til að innan norrænnar samvinnu verði hlutverk formennskulandsins eflt í því skyni að leggja aukna áherslu á pólitíska ábyrgð. Sú þjóð sem fer með formennsku í norrænni samvinnu hverju sinni ber almenna ábyrgð á samvinnunni í heild og framgangi hennar. Formennskan mun gilda á öllum sviðum, þ.e. jafnt á fundum forsætisráðherra og annarra ráðherra svo og á fundum embættismanna og sérfræðinga. Einnig mun formennska hvað snertir samstarf þjóðþinganna fela í sér ábyrgð á undirbúningi funda og að gæta þess að samþykktum sé hrundið í framkvæmd. Á þennan hátt er stefnt að því styrkja sambandið og samskiptin milli ríkisstjórna og þingmanna í Norðurlandaráði en það hefur einmitt lengi verið ósk þingmanna að svo yrði gert.
    Jafnframt því að taka þátt í evrópskri samvinnu verður lögð áhersla á að endurnýja og stuðla að frekari samvinnu á þeim sviðum sem snerta Norðurlöndin sérstaklega. Hér er um að ræða sameiginleg hagsmunamál allra eða nær allra Norðurlanda og það mun endurspeglast í fjárhagsáætlun fyrir Norðurlandasamstarfið og hinar ýmsu samstarfsstofnanir. Einnig má nefna samstarf Vestur-Norðurlanda þar sem Íslendingar hafa forustu og við verðum að rækta.``
    Sá er nú talar dró saman niðurstöðu skýrslunnar með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:
    ,,Í fyrsta lagi að forsætisráðherrarnir verði oddvitar samstarfsins.
    Í öðru lagi að sama landið, þ.e. það land sem hefur forustu í norræna samstarfinu það árið, hafi með höndum formennsku í öllum ráðherra- og embættismannanefndum.
    Í þriðja lagi að náin norræn samvinna verði um þau mál sem eru á dagskrá Evrópska efnahagssvæðisins, Evrópubandalagsins og öðrum svæðisbundnum samstarfssviðum.
    Í fjórða lagi að samvinna á sviði utanríkis- og öryggismála verði aukin.
    Í fimmta lagi að rík áhersla verði lögð á náið samstarf við Norðurlandaráð, m.a. með því að ríkisstjórnir geri ráðinu víðtæka og rækilega grein fyrir framvindu og stöðu mála er snerta Evrópusamstarfið.
    Í sjötta lagi að framlag til menningarmála verði stóraukið með menningarmálasjóðnum sem ég nefndi áðan. Að vísu er þess skylt að geta að ekki liggur fyrir að það takist með niðurskurði að afla jafnmikils fjár og menn gerðu ráð fyrir á þessari stundu. Ég er ekki fullkomlega sannfærður um að það verði auðvelt mál.
    Í sjöunda lagi að haldið verði áfram að vinna að og efla þá málaflokka sem kalla má samnorræna í eðli sínu.
    Í áttunda lagi að stuðlað verði að enn frekari samvinnu þeirra aðila í frjálsri félagastarfsemi sem eru virkir í norrænni samvinnu og eru jafnstór og veigamikill þáttur samvinnunnar og raun ber vitni.
    Í níunda lagi að unnið verði að þeim breytingum á norræna stjórnkerfinu að það falli að þessum meginmarkmiðum skýrslunnar.``
    Í framhaldi af framlagningu skýrslunnar á Borgundarhólmi vann sérstakur fimm manna hópur, svonefndur ,,Støre-hópur``, að útfærslu tillagnanna en eitt af aðalatriðum tillagna þeirra er að í ljósi þátttöku landanna í Evrópsku efnahagssvæði sé það ósk forsætisráðherra landanna að formlegt samstarf Norðurlandanna beinist sérstaklega að þeim málaflokkum sem varða sameiginlega hagsmuni landanna. Málaflokkarnir sem samstarfið skal beinast að, svonefnd áhersluflokkun, er að mati hópsins sem hér segir:
    1. Menntamál.
    2. Rannsóknir og fræðslumál.
    3. Umhverfismál.
    4. Réttindamál þegnanna, svo sem félagsmál, heilbrigðismál, mál er varða matvæli, neytendamál, vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismál.
    5. Efnahagsmál, þar með fjármál, iðnaðar- og orkumál, samgöngumál, byggingarmál, byggðamál, landbúnaður og skógrækt.
    6. Sjávarútvegsmál.
    7. Lagaleg málefni, svo sem löggjafarmálefni, jafnréttismál og innflytjendamál.
    Sá fyrirvari er á þessari tillögugerð að því er beint til Norrænu samstarfsnefndarinnar sem leysir hina svonefndu staðgenglanefnd af hólmi, að gera endanlegar tillögur um flokkun áherslusviða að höfðu samráði við forstjóra skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar, ráðherra og embættismenn. Tillögur Norrænu samstarfsnefndarinnar voru afhentar forsætisráðherrunum á fundi þeirra í Ósló hinn 1. þ.m. Í tillögunum er komist að þeirri niðurstöðu að innan áherslusviðanna 7 skulu vera 12 formleg samstarfssvið sem njóti fjárveitinga úr sameiginlegum fjárlögum, það eru menningarmál, rannsókna- og fræðslumál, umhverfismál, sjávarútvegsmál, félags- og heilbrigðismál, vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismál, neytendamál, orku- og atvinnumál, byggðamál, landbúnaðarmál, lögfræðileg málefni og jafnréttismál.
    Ofangreindir forgangsflokkar hindra þó ekki að unnt verði að veita sameiginlega norræna fjármuni til annarra samstarfssviða. Um þessar breytingar á samstarfi Norðurlandanna sagði Davíð Oddsson forsrh. á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi, með leyfi forseta:
    ,,Breytingarnar á hinu formlega samstarfi hafa verið undirbúnar og liggja m.a. fyrir tillögur um breytingar á Helsinki-sáttmálanum, skipulagi ráðherraráðsins og embættismannanefnda. Enda þótt þessar tillögur gangi um sumt skemmra en áður var um talað og forsætisráðherrarnir höfðu hvatt til, þá er með þeim verið að skerpa áherslur í ljósi breyttra aðstæðna. Við erum hins vegar ekki að gera endanlegar breytingar, við erum að leita að aðferð til að aðlaga norrænt samstarf reglulega í ljósi reynslu og breyttra aðstæðna. Þess vegna styður ríkisstjórn Íslands þær tillögur um umbætur á formi norræns samstarfs sem nú liggja fyrir.``
    Í ljósi þess að ákveðið var að menningarmálum skyldi skipað í öndvegi í norrænu samstarfi í framtíðinni voru lagðar fram þrjár ráðherranefndartillögur menntamálaráðherra á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló og þessi áhersla birtist m.a. í því að á næsta fárlagaári verði ætlunin að verja 25% af heildarfjárveitingum til menningar- og menntamála og 50% á árinu 1995. Menningarmálin settu með ýmsum hætti afar sterkan svip á allt umhverfi síðsta Norðurlandaráðsþings. Í þessu sambandi langar mig að geta stuttlega um í tengslum við þá umræðu um norræna menningarmálasamstarfið sem nú á sér stað að í desember sl. vakti ég máls á því á fundi norrænu samstarfsráðherranna að tekin yrði til skoðunar á ný hugmyndin um norrænt sjónvarpssamstarf um gervihnött. Því var mjög vel tekið og athugun á því máli hefur nú hafist. Á fundi Norðurlandaráðs í Ósló tók Carl Bildt, forsætisráðherra Svía, sem talaði þar fyrir hönd norrænu forsætisráðherranna mjög sterklega undir hugmyndina um norrænt sjónvarpssamstarf og að ákvörðun þyrfti að taka í því máli af eða ná nú á þessu starfsári Norðurlandaráðs. Raunar mun ráð fyrir því gert að á fundi forsætisráðherra 1. júlí í Norður-Noregi verði unnt að taka ákvörðun í málinu. Ég gæti um þetta efni talað hér alllangt mál en geri það ekki að þessu sinni, kannski síðar í þessari umræðu ef tilefni gefst til.
    Í tillögu nefndarálitsins um endurmat á norrænni samvinnu fjallar XII. kafli skýrslunnar um breytingar á Helsingfors-samningnum til þess að renna lögformlegum stoðum undir helstu breytingar á samstarfinu, svo sem hvað varðar forustunhlutverk forsætisráðherranna, samstarf á vettvangi evrópskra og annarra alþjóðlegra mála, hlutverk þess lands sem er með formennskuna hverju sinni og síðast en ekki síst vald Norðurlandaráðs til þess að hafa áhrif til breytinga á fjárlagatillögur ráðherranefndarinnar. Í lok þingsins hér á dögunum var ákveðið að undirrita breytingar á nokkrum greinum Helsingfors-samningsins og fór sú sú undirritun fram í Helsingfors í gær. Þar undirrituðu forsætisráðherrar Finna og sendiherrar Norðurlandanna fyrir hönd viðkomandi ríkisstjórna. ýmsar breytingar taka einvörðungu til orðalags, en ég mun ekki hér að þessu sinni rekja sérstaklega í smáatriðum þær breytingar sem gerðar voru á Helsinki-sáttmálanum. Þær verða kynntar hér á Alþingi síðar, ég mun gera það raunar ef tilefni gefst til síðar í þessari umræðu.
    Virðulegi forseti. Brýnustu verkefni næstu mánaða í norrænni samvinnu eru róttæk breyting á gerð norrænu fjárlaganna og hvernig hrinda megi í framkvæmd þeim ótalmörgu stjórnunarverkefnum sem leiða

af samþykktum ríkisstjórna Norðurlandanna sl. missiri. Í þessari stuttu ræðu hef ég aðeins drepið á fátt eitt af því sem tíðindum sætir í hinu norræna samstarfi. Ég vísa um aðra þætti til skýrslunnar á þskj. 701. Þó ber að taka fram að þar er auðvitað ekki öllum þáttum samstarfsins gerð skil, enda þótt víða sé við komið og skýrslan sýnu ítarlegri og efnismeiri en áður hefur verið.
    Það mætti t.d. segja margt hér um þátt hins norræna samstarfs sem felst í samstarfi hinna frjálsu félagasamtaka, vinabæjatengslunum að ógleymdu þróttmiklu starfi norrænu félaganna sem vinna gagnmerkt starf. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að samstarfs- og samrunaþróunin í Evrópu sé hættuleg norrænu samstarfi. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Auðvitað er það svo að flest orkar tvímælis þá gert er og eins eru þær breytingar sem nú er verið að gera í hinu norræna samstarfi. En norræn samvinna verður að taka mið af ytri aðstæðum. Hún verður að aðlagast þeim breytingum sem verða á veröldinni í kringum okkur. Fjölþjóðleg samvinna sem ekki breytist og ekki tekur mið af breyttum heimi er ekki mjög lífvænleg samvinna. Þess vegna er það óþarfi að örvænta um framtíð hinnar norrænu samvinnu eins og mér virðist sum hafa nokkra tilhneigingu til. Norræn samvinna mun örugglega halda áfram að eflast og dafna, en hún verður ekki eins og hún var, hún breytist með breyttum aðstæðum og við því er ekkert að segja.
    Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.