Norrænt samstarf 1992 til 1993

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 16:10:54 (6319)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil nú í upphafi harma það að ekki skuli geta verið full sátt um umræður á þessum skýrslum og það skuli ekki vera mögulegt að hún fari fram án þess að slíta hana í sundur, en það er eins og oft áður í störfum þingsins að við þetta þurfum við oft og tíðum að búa og einnig er slæmt að ýmsir geta ekki verið viðstaddir þessa umræðu, t.d. hæstv. forsrh. sem nú hefur fengið aukna ábyrgð á Norðurlandasamstarfinu. Hins vegar eru hér viðstaddir tveir hæstv. ráðherrar sem fara mjög með þessi mál, bæði samstarfsráðherra og menntmrh. og geri ég ekki neinar athugasemdir við það en bendi aðeins á að það hefði að sjálfsögðu verið æskilegt að forsrh. gæti jafnframt verið viðstaddur.
    Hér liggur frammi skýrsla á þskj. 670 frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Ég ætla ekki að rekja þá skýrslu í neinum smáatriðum. Hún er útbúin og samþykkt af öllum fulltrúum í Íslandsdeild þar sem er gerð ítarleg grein fyrir störfum deildarinnar á sl. ári. Ég vil í þessu sambandi jafnframt þakka þá skýrslu sem hæstv. samstarfsráðherra, Eiður Guðnason, hefur lagt hér fram um störf Norrænu ráðherranefndarinnar. Sú skýrsla er ítarleg og það hefur verið lögð í hana mikil vinna og ég vil sérstaklega þakka það að þessi skýrsla skuli vera flutt hér með jafnítarlegum hætti þar sem er gerð grein fyrir samstarfinu að því er ráðherraráðið varðar og þar í ýmsu komið inn á starf Norðurlandaráðs.
    Þær helstu breytingar sem hefur verið rætt um í starfi ráðsins, og þá sérstaklega ráðherranefndarinnar ef ég byrja á því, hafa verið þær að fækka samstarfssviðunum úr 24 í 7. Ég gagnrýndi þessa fyrirætlan hér í umræðum á sl. hausti, en nú hefur verið horfið frá því og er gert ráð fyrir því eftir því sem

ég best veit að samstarfssviðin verði 12. Það er að mínu mati veruleg bót þótt ég hafi skilið að ekki hafi endanlega verið gengið frá því, en ég bendi á það að önnur mikilvæg svið sem ekki verða norrænar fjárveitingar til munu þá falla niður að því er varðar fjárveitingar á vegum norræna samstarfsins, en það eru svið sem eftir sem áður þarf að sinna og rækja af hálfu landanna. Þar má t.d. nefna samstarf fjármálaráðherra Norðurlandanna sem ekki er gert ráð fyrir að leggist niður þótt það muni verða með öðrum hætti, en þá verður að gera ráð fyrir því að fjárveitingar verði til þess og fyrir því séð af löndunum og ríkisstjórnum landanna. Þetta eru atriði sem ég tel að þurfi að taka sérstaklega fyrir til athugunar að því er varðar hagsmuni Íslands þannig að við leggjum á það áherslu að eftir sem áður verði um að ræða norrænt samstarf á þessum sviðum, sérstaklega að því er varðar þau atriði sem okkur eru mikilvægust.
    Í öðru lagi hefur verið mikil umfjöllun um áhrif Norðurlandaráðs á norrænu fjárlögin. Þessi umfjöllun er orðin alllöng og á það hefur verið lögð áhersla af hálfu ráðsins og um það hefur verið mikil samstaða og undir það hafa allir fulltrúar í Íslandsdeild tekið að aukin áhrif Norðurlandaráðs sé forsenda þess að áhrif þingmanna og lýðræðiskjörinna fulltrúa verði aukin. Ég tel að þessi mál hafi fengið tiltölulega farsæla lausn á síðasta Norðurlandaráðsþingi eða a.m.k. vonast ég eftir því að svo muni reynast þótt þar hafi ekki verið gengið jafnlangt og þingfulltrúar vildu. Það mun að sjálfsögðu á það reyna hvort ráðherraráðið muni koma til móts við þær óskir sem þar liggja fyrir með þeim hætti að Norðurlandaráð telji fullnægjandi, en ég vænti þess að svo verði og legg á það áherslu að íslenska ríkisstjórnin og fulltrúar hennar leggi á það áherslu að þar verði áhrif þingmanna verulega aukin. Þetta kallar á breytingar á starfsháttum innan ráðsins sem mikilvægt er að sinna nú á næstunni.
    Í þriðja lagi hefur aukið vægi menningarmálasamstarfsins og umhverfissamstarfsins sett svip sinn á umræðuna en ekki er að fullu ljóst hvaða áhrif það muni hafa m.a. á efnahags-, atvinnumála- og byggðamálasamstarf svo eitthvað sé nefnt. Þetta verður að sjálfsögðu að skoðast í ljósi þess að það er aukið atvinnuleysi á Norðurlöndunum og Norðurlandaráð hefur lagt á það áherslu að auka samstarf Norðurlandanna til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það er mikilvægt að Norðurlöndin beiti öllum þeim tækjum sem þau geta sameiginlega haft og hafa til þess að vinna gegn þessum mikla bölvaldi. Það mun að sjálfsögðu ekki vera gert nema fjármagn sé tryggt til þessara þátta og því hafa verið uppi efasemdir um það hvort rétt sé að auka jafnmikið og ætlunin hefur verið menningarmálasamstarfið og umhverfissamstarfið á kostnað hinna þáttanna. Það er hins vegar mikill áhugi fyrir því og samstaða innan Norðurlandaráðs að auka menningarmálasamstarfið og umhverfissamstarfið. En aðilar í ráðinu vilja sjá heildarmyndina áður en gengið er endanlega frá þessu máli. Með þessum orðum er ég á engan hátt að draga úr þýðingu menningarmálasamstarfs Norðurlandanna. Það hefur verið okkur Íslendingum afar mikilvægt og svo mun verða um langa framtíð og er síst ástæða til þess af okkar hálfu að draga úr þýðingu þess. Það er okkur mikilvægt að þetta samstarf sé sem sterkast og styrkir okkar sjálfstæði og fullveldi að eiga gott samstarf á sviði menningarmála við okkar nágranna. Það sama á við að sjálfsögðu á vettvangi umhverfismála, en nú fer mjög vaxandi alþjóðleg samvinna á því sviði og því mikilvægt fyrir okkur að verða samferða Norðurlöndunum á þeim sviðum.
    Í fjórða lagi hefur það einkennt umræðuna að gert er ráð fyrir því að forustuhlutverk forsætisráðherranna í samstarfinu verði aukið. En ég vil leggja á það áherslu að þótt ég fagni því að svo sé, þá má það ekki verða til þess að draga úr þátttöku annarra ráðherra. Ég tel mikilvægt að samstarfsráðherrarnir hafi áfram pólitíska ábyrgð í þessu samstarfi og sinni ýmsum daglegum verkum. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að forsætisráðherrarnir hafi tíma eða möguleika til þess að taka það allt saman að sér. Þetta á jafnframt við um formennsku í nefndum og í öðrum ráðherranefndum. Það er gert ráð fyrir því að ábyrgð formanns þess lands sem fer með formennsku á hverjum tíma verði mjög aukið.
    Þá hefur það einnig sett mark sitt á samstarfið að mikil aukning er í samstarfi og áhuga á samstarfi á sviði utanríkismála. Aðalumræða haustþingsins á sl. hausti voru m.a. utanríkismál og var það að mínu mati ánægjulegt að farið var inn á þessa braut. Nærvera flestra utanríkisráðherra Norðurlandanna setti svip sinn á þá umræðu en það er mikilvægt að það sé sem best samstarf milli ríkisstjórnanna og jafnframt innan ráðsins á sviði utanríkismála, ekki síst í ljós þeirrar þróunar sem nú er í Evrópu og jafnframt þeirrar þýðingar sem samstarf við okkar helstu nágranna bæði í suðri, vestri, austri og norðri hefur fyrir öll löndin.
    Eitt af því sem ætlunin var að gera en gat ekki orðið af var sá vilji sem lá fyrir um að sameina skrifstofur forsætisnefndarinnar og ráðherranefndarinnar. Ég ætla ekki að rekja ástæður þess að ekki gat af því orðið. Það er hins vegar staðreynd að það gerðist ekki en ég vil leggja áherslu á að ég tel miður að svo varð ekki og vænti þess að það mál verði ekki algerlega lagt á hilluna þótt það muni áreiðanlega frestast um nokkurt skeið.
    Að lokum vil ég nefna að það var gert ráð fyrir því á tímabili, a.m.k. skildu menn það svo að fyrir því væri ákveðinn vilji, að ráðherrarnir yrðu ekki lengur formlegir fulltrúar í Norðurlandaráði en sem betur fer var sá misskilningur leiðréttur. Nú er gert ráð fyrir því að þeir verði formlegir fulltrúar á þingum Norðurlandaráðs með þeim hætti sem verið hefur. Hitt er svo annað mál að ráðherrarnir hafa ekki þar atkvæðisrétt en það er afar þýðingarmikið að áfram verði umræða milli þingmanna og ráðherra um málefni Norðurlandaráðs og þess vegna er viðvera ráðherranna nauðsynleg í því starfi. Það kann vel að vera að eitthvað megi fækka þeim ráðherrum sem reglulega sækja fundina. Það verður að fara eftir aðstæðum á hverjum tíma en ég legg á það áherslu að þetta haldi áfram og fagna þeirri niðurstöðu.
    Að því er varðar Norðurlandaráð og starf þingmanna, þá hefur átt sér stað veruleg umræða að því er varðar endurskipulagningu á starfi ráðsins sjálfs. Sumt af þeim áherslum er komið til framkvæmda en annað ekki, enda mun það óhjákvæmilega taka verulegt mið af því sem gerist í ráðherranefndinni. Í fyrsta lagi hefur verið gert ráð fyrir því að starfsaðstaða flokkahópanna muni batna í ljós þess að vægi þeirra í starfinu og þýðing hefur farið mjög vaxandi. Þessi þróun hefur átt sér stað og heldur áfram þótt í sjálfu sér séu bæði kostir og gallar að því er þetta varðar. Þetta hefur leitt til þess að vægi landsdeildanna er ekki jafnmikið og áður var og virðist vera að það sé komið til að vera að flokkahóparnir hafi vaxandi áhrif. Ég vil aðeins leggja á það áherslu að fyrst svo er orðið, þá sé starfsaðstaða þeirra sem best og þeir hafi möguleika hver og einn til að sinna þeim skyldum sem á þá eru lagðar.
    Ég vil jafnframt leggja áherslu á að það er mikilvægt að tengsl Norðurlandaráðs við störf þjóðþinganna séu aukin og vil nefna það að með skýrslunni eru birt þau tilmæli sem hafa verið samþykkt á þingum Norðurlandaráðs annars vegar í Helsinki og jafnframt munu þau tilmæli sem voru samþykkt á síðasta Norðurlandaráðsþingi verða birt. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að þessum tilmælum sé fylgt eftir af hálfu þjóðþinganna og fylgst með því hvernig gengur að koma þeim í framkvæmd. Það er að sjálfsögðu verkefni þeirra fulltrúa sem starfa á vettvangi Norðurlandaráðs en jafnframt mikilvægt að þær nefndir sem fjalla um þessi mál í þjóðþingunum geri sér grein fyrir þessum tilmælum og taki tillit til þeirra í störfum sínum.
    Það hefur jafnframt verið ríkt í umræðunni að reyna að finna leiðir til þess að auka samstarf við aðrar alþjóðadeildir og annað alþjóðastarf. Ýmsir hafa lagt á það áherslu að þeir sem kjörnir eru til starfa á vettvangi Norðurlandaráðs sinni jafnframt störfum í alþjóðastarfi t.d. í Evrópumálum, en ég hygg að það sé mjög erfitt að koma því við því ekki er hægt að gera ráð fyrir því að sömu þingmenn sinni mörgum verkefnum á þessu sviði. Þetta eru vissulega tímafrek mál og ef sömu þingmennirnir eiga að sinna þeim öllum, þá mun verða mjög erfitt fyrir þá að sinna skyldum sínum heima fyrir. En auðvitað er það ekkert annað en staðreynd að þær vinnuskyldur sem leggjast á þingmenn í alþjóðastarfi dregur tíma frá öðrum störfum heima fyrir því að nóg eru verkefnin sem blasa alls staðar við fyrir þá fulltrúa sem hér starfa.
    Í þessu sambandi hafa komið upp þær hugmyndir að sumir fulltrúar í Norðurlandaráði séu kosnir án þess að þeir starfi í nefndum á vegum Norðurlandaráðs en ég tel að sú hugmynd eigi litlu fylgi að fagna í þessu sambandi. Ég tel því nauðsynlegt að við ræðum þessi mál á Alþingi og við aðra fulltrúa sem starfa að alþjóðamálum og að við reynum að auka samstarf og upplýsingar okkar í milli þannig að áherslur verði sem mest samræmdar eftir því sem hægt er.
    Ég vil, virðulegur forseti, nefna nokkur málefni sérstaklega sem eru nú á dagskrá og eru mikilvæg. Í fyrsta lagi vil ég nefna að þann 16. og 17. ágúst verður haldin í Reykjavík ráðstefna um málefni heimskautasvæðanna eða ,,arktisk`` ráðstefna. Þessi ráðstefna er mikilvæg og setur í sviðsljós það samstarf sem þarf að vera milli landanna á norðurslóð, þ.e. Kanada, Grænlands, Íslands, Færeyja, Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og Rússlands. Gert er ráð fyrir því að fulltrúar frá þessum löndum komi til ráðstefnunnar. Mér láðist að nefna Bandaríkin sem að sjálfsögðu skipta þar miklu máli. Jafnframt er vonast eftir því að fulltrúar frá Japan og frá Evrópuráðinu sæki þessa ráðstefnu ásamt áheyrnarfulltrúum frá fjölda alþjóðlegra samtaka.
    Eitt af því sem þessi ráðstefna mun fjalla um er nauðsyn þess að koma á formlegu samstarfi milli þessara landa um málefni landanna og þessara svæða á sviði atvinnumála, nýtingar náttúruauðlinda, umhverfismála, samgöngumála og jafnframt öryggismála, svo eitthvað sé nefnt. Ég geri mér miklar vonir um að þessi ráðstefna geti orðið byrjun á frekara samstarfi á þessu sviði og minni á í þessu samhengi að nýlega var stofnað fyrir frumkvæði Norðmanna svokallað Barentsráð en þar er gert ráð fyrir samstarfi í norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Rússlands um málefni þess svæðis. Það er okkur mjög mikilvægt að styrkja samstarfið við nágranna okkar, bæði í austri og vestri, um okkar hagsmunamál og það er mikilvægt að nýta þá krafta sem búa í Norðurlandasamstarfinu þessu máli til framdráttar.
    Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að samstarfið við nærliggjandi svæði við Eystrasalt, og þá ekki síst við St. Pétursborg, verði aukið. Á þessu svæði býr mjög margt fólk, eða um 8 milljónir manna, á tiltölulega litlu svæði og það er afar þýðingarmikið að auka samstarf við þessi héruð, ekki síst til að vinna að úrbótum á sviði umhverfismála. Þar má nefna hættuna á slysum vegna kjarnorku og margt annað sem löndin í nágrenninu hafa miklar áhyggjur af.
    Ég vil jafnframt nefna þriðju þingmannaráðstefnuna um samvinnu Eystrasaltsríkjanna sem verður haldin í Póllandi í júní með stuðningi Norðurlandaráðs. Sú samvinna hefur farið vaxandi og er það þriðja þingmannaráðstefnan sem haldin er. Íslendingar hafa tekið þátt í þessum ráðstefnum en því miður eigum við ekki aðild að svokölluðu Eystrasaltsráði en vilyrði og góður vilji hefur verið fyrir því að gera þar breytingu á. Þeir sem hafa staðið í vegi fyrir því hafa einkum verið Danir en nauðsynlegt er að taka þetta mál betur upp við hina nýju dönsku ríkisstjórn og ég vænti þess, miðað við þær undirtektir sem heyrst hafa, að því verði hrint í framkvæmd að við gerumst aðilar að þessu ráði með formlegum hætti.
    Þá vildi ég nefna að Norðurlandaráð hefur veitt námsstyrki til þingmanna frá Austur-Evrópu til þess að gera þeim kleift að kynna sér þjóðfélagsskipan og störf lýðræðislega kjörinna þjóðþinga á Norðurlöndunum. Þegar hafa komið hingað á vegum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs þingmenn frá Póllandi, Eistlandi,

Lettlandi og Rússlandi og hefur það verið ánægjulegt að upplýsa þessa þingmenn um skipan mála hér á landi og mun það starf halda áfram en mikill áhugi hefur verið fyrir því að heimsækja Ísland í þessu skyni.
    Ég vildi jafnframt nefna málefni Norrænu eldfjallastöðvarinnar sem ég tel mikilvægt að sinnt verði á næstunni. Uppi hafa verið hugmyndir um að hún sé ein þeirra stofnana sem eigi að leggja niður. Ég tel afar mikilvægt að Íslendingar geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir þær hugmyndir. Í því sambandi er nauðsynlegt að leyst verði húsnæðismál þessarar stofnunar en við höfum skuldbindingar sem gera ráð fyrir því að sjá þessari stofnun fyrir húsnæði en því miður hefur ekki verið nægilega vel að því staðið af okkar hálfu.
    Ég vildi jafnframt nefna að næsti fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs verður í Brussel á mánudaginn kemur en þar mun forsætisnefndin eiga viðræður við fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar, Henning Christophersen, og jafnframt eiga fund með fulltrúum Evrópuþingsins.
    Það er tímanna tákn að margra mati að næsti fundur forsætisnefndar skuli vera í Brussel. Það er nú ekki táknrænt heldur einfaldlega vegna þess að nefndin verður stödd á þeim stað á þeim degi og það er mikilvægt að eiga viðræður við aðila um hagsmuni Norðurlandanna. Ég tel mikilvægt að ræða það mál við fulltrúa Dana, Henning Christophersen, í framkvæmdastjórninni.
    Ég vildi þá aðeins koma að samstarfinu innan Íslandsdeildar. Það hefur verið mjög gott og ánægjulegt og ég vil þakka fyrir það samstarf og öllum þingmönnum sem þar eiga sæti fyrir gott starf. Ég tel að allir hafi sinnt því afar vel. Ég vil sérstaklega þakka fráfarandi formanni nefndarinnar fyrir góð störf og góða stjórn á störfum deildarinnar. Ég tel jafnframt að það samstarf sem við höfum átt við ráðherra í núverandi ríkisstjórn hafi verið gott. Þeir hafa tekið málaleitunum af okkar hálfu vel og hafa verið fundir með þeim ýmist að þeirra frumkvæði eða frumkvæði Íslandsdeildar. Jafnframt hefur samstarf við Norræna félagið verið aukið eða a.m.k. hafið. Við höfum átt fund með þeim og ég tel mjög nauðsynlegt að auka samstarf við þau félög og vænti þess að gott samstarf geti verið milli deildarinnar og Norræna félagsins áfram enda gagnkvæmur áhugi á því.
    Við höfum jafnframt rætt það að auka samráð og samstarf við íslenska stjórnarfulltrúa í norrænum stofnunum og munum á næstunni leita eftir því að eiga fundi með þeim, en Íslandsdeild mun m.a. eiga fund með fulltrúum frá Norrænu eldfjallastöðinni í næstu viku til að ræða málefni þeirrar stofnunar.
    Ég vil svo, virðulegur forseti, að lokum leggja áherslu á mikilvægi norræns samstarfs fyrir Ísland. Það hefur ávallt verið einn af hornsteinum í okkar utanríkisstefnu og ég tel að ef eitthvað er þá sé þýðing þessa samstarfs vaxandi. Þrátt fyrir aukið samstarf við aðrar þjóðir, m.a. Evrópuþjóðirnar, er norrænt samstarf okkur mjög mikilvægt. Það er ekki síst mikilvægt vegna þess að hinar Norðurlandaþjóðirnar hyggja á mjög aukið samstarf innan Evrópu og við hljótum að beita norrænu samstarfi okkur sem best til framdráttar í því nýja samstarfi. Það er ekki síst mikilvægt fyrir litla þjóð eins og okkur sem getur ekki sinnt öllum þáttum með sama hætti og stærri þjóðirnar og er því nauðsynlegt að við getum treyst þeim fyrir ýmsu sem við getum ekki sinnt vegna fámennis og þeirrar staðreyndar að okkar embættiskerfi er mun fámennara.
    Ég vildi svo aðeins að lokum leggja áherslu á það að formennska í ráðherranefndum og embættisnefndum mun leggja auknar skyldur á það land sem tekur við formennsku. Um þessar mundir er það Svíþjóð sem fer með formennsku í öllum þessum nefndum en á næsta ári mun Ísland taka við þessari forustu. Það er mikilvægt að nú þegar verði hafinn undirbúningur að því að við verðum í stakk búin til þess. Það hlýtur að krefjast þess að Íslendingar auki þátttöku sína og fjölgi því fólki sem að þessum málum starfar. Það eru ekki margir sem sinna þessum málum í dag, þótt ég vilji taka það skýrt fram að þeir fáu einstaklingar sem það gera geri það af mikilli kostgæfni og leysi málin vel miðað við þá staðreynd hvað fáir eru þar til starfa. Ég held að það verði ekki hjá því komist að auka þetta starf ef við eigum að vera í stakk búin til þess að sinna formennsku með nægilega góðum hætti. Það er jafnframt mikilvægt tækifæri fyrir Ísland til þess að hafa áhrif á þróun norræna samstarfsins. Þótt mikið muni gerast að því leytinu til á þessu ári er enginn vafi á því að hægt er að hafa mikil áhrif til þróunarsamstarfsins á næsta ári í okkar formennskutíð. Ég tel því mikilvægt að fram komi í þessari umræðu upplýsingar frá ríkisstjórn Íslands með hvaða hætti hún hyggst styrkja stöðu okkar í þessu sambandi.
    Virðulegur forseti. Ég vil endurtaka að ég vænti þess að um þessi mál geti síðar farið fram góð umræða. Það ber að harma að það skuli þurfa að slíta hana í sundur, en ég legg á það áherslu að framhald umræðunnar geti farið fram sem allra fyrst því það er mjög óheppilegt ef mjög langt líður á milli og umræðan er óþarflega mikið slitin í sundur.