Hjúskaparlög

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 14:44:57 (6327)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Á þau atriði sem hér voru gerð að umtalsefni er einmitt bent sérstaklega í nál. meiri hlutans varðandi þinglýsingu og ákvæðin í 60. gr. og áfram í þeim kafla. Ég tel rétt að lesa hér upp 64. gr. svo það fari nú ekki milli mála hvað hér er um að ræða en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Nú er óskað þinglýsingar á löggerningum er greinir í 60. gr. og skal skjalið þá geyma yfirlýsingu um hvort sá er skjal stafar frá sé í hjúskap og hvort eign sé bústaður fjölskyldu hans eða notuð við atvinnurekstur hjóna eða sé ætluð til þess.
    Dóms- og kirkjumálaráðuneyti getur sett nánari reglur um könnun þeirra efna er í 1. mgr. greinir.``
    Í 133. gr. segir:
    ,,Dóms- og kirkjumálaráðuneytið setur reglugerð og önnur fyrirmæli um einstök atriði er varða framkvæmd laganna.``
    Ég ber fullt traust til þess að hæstv. dómsmrh. muni taka þessi mál til rækilegrar skoðunar samkvæmt því sem frv. gerir ráð fyrir, þannig að hér verði ekki um neinn misskilning að ræða. Það má vera að það sé rétt hjá hv. þm. að það þyrfti að fræða almenning meira um þeirra réttarstöðu í hjúskap og það er þá spurning hvort dóms- og kirkjumrn. geti ekki komið inn í það dæmi.