Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 14:55:38 (6330)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. félmrh. er þetta frv. til komið vegna þess að gildi hafa tekið ný lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði og einnig ný lög um gjaldþrotaskipti sem gera það að verkum að það þarf að aðlaga þá nýju löggjöf sem er um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota þessum nýju lögum.
    Ég hef í sjálfu sér ekki margar athugasemdir við þetta frv. Það mun að sjálfsögðu verða skoðað í nefnd. Ég tel að hér sé um eðlilegar breytingar að ræða og aðlögun að þeirri stöðu sem nú er uppi og breyttri réttarfarslöggjöf í landinu.
    Hins vegar verður ekki hjá því komist þegar þetta frv. er rætt hér í hv. Alþingi að leiða hugann að stöðu þessa ágæta sjóðs sem er hér er verið að setja löggjöf um í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru í þjóðfélaginu. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hver staða þessa sjóðs er nú á þeim tíma sem hann hefur starfað og hvaða horfur eru á því að hann geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt nýjum lögum. Mér er kunnugt um það að sú nýja löggjöf styrkti stöðu hans, en er útlit fyrir að hann geti staðið við skuldbindingar sínar og hver er staða hans nú?
    Þessar spurningar leita á í þessu sambandi þegar löggjöf um sjóðinn er rædd, ekki síst fyrir það að nú ríða yfir í landinu mikil fjöldagjaldþrot sem aldrei fyrr og spurningin er: Getur sjóðurinn staðið við skuldbindingar undir núverandi löggjöf eða hvaða horfur eru á því?
    Þetta er í rauninni það sem mér var efst í huga varðandi þetta mál en þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir tel ég eðlilegar og mun að sjálfsögðu ræða það efnislega þegar það kemur til nefndar.