Akstur utan vega

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 13:43:08 (6352)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Í fréttum hefur komið fram að þátttaka í þessum svokallaða jeppadegi var langtum meiri en aðstandendur þessa atburðar höfðu reiknað með. Þeir sem til þekkja vita að akstur utan vega þegar mjög mikil snjóalög eru eins og núna eru hefur ekki í för með sér náttúruspjöll eða tjón ef hreinlætis er gætt t.d. varðandi alla meðferð á eldsneyti, olíum og öðru rusli. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef um svokallaðan jeppadag og jeppaferð til Nesjavalla tel ég að ekki sé ástæða til að amast sérstaklega við því. Umhvrn. hefur átt ágætt samstarf við félagsskapinn sem kallaður er 4 x 4 og ég veit að þar eru í forsvari menn sem láta sér annt um að ganga vel um náttúru landsins.