Móttaka flóttafólks frá Júgóslavíu

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 13:51:42 (6360)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég beini fsp. minni til hæstv. forsrh. Ekkert lát virðist vera á átökum í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu og þjóðir heims standa ráðþrota gagnvart þeim hörmungum sem fólk líður á átakasvæðunum. Auðvitað væri æskilegast að reyna að koma á friði og hjálpa til við uppbyggingu til að búa fólki betra líf þegar hildarleiknum lýkur á heimaslóð. Hins vegar streyma hundruð þúsunda flóttafólks streyma frá svæðum fyrrverandi Júgóslavíu. Það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá. Í vetur var tala flóttamanna frá þessum svæðum farin að nema hundruðum þúsunda í Þýskalandi. Sviss, Austurríki, Svíþjóð og Ungverjalandi höfðu tekið við 100 þúsund flóttamönnum hvert en ýmis önnur lönd höfðu tekið við mun færri eða engum flóttamönnum. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hafa íslensk stjórnvöld markað sér stefnu hvað varðar móttöku flóttafólks frá ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu? Ef svo er, er þá gert ráð fyrir að taka á móti flóttafólki frá átakasvæðunum á næstunni eða síðar á árinu?