Móttaka flóttafólks frá Júgóslavíu

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 13:53:04 (6361)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er hefur Ísland að sínu leyti staðið að fjöldanum öllum af aðgerðum með öðrum til þess að stuðla að bættum aðbúnaði og stöðu fólks í þessum stríðshrjáðu löndum. Rætt var um það af okkar hálfu að taka á móti flóttafólki, einkum börnum. Mönnum var ráðið frá því af hálfu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna að gera slíkt. Ég hygg ekki að það sé nein ásókn í það að Ísland taki við flóttamönnum. Við getum aldrei gert það í stórum stíl. Ég hygg að sá farvegur sem við höfum beint hjálp okkar í og við höfum greint frá áður --- ég ætla ekki að telja það upp hér --- sé skynsamlegur kostur af okkar hálfu í þessu sambandi.