Seðlabanki Íslands

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 14:51:15 (6370)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra að það er kannski nokkuð óvenjulegt að menn ræði hér í þingsal nöfn á einstaklingum sem hugsanlega gætu gegnt stöðu seðlabankastjóra Íslands, en ég kaus að gera það vegna þess að umræðan um þetta mál er búin að vera í öngstræti á undanförnum mánuðum. Og það var nauðsynlegt til þess að færa hana inn á nýjan vettvang að nefna hér í þingsalnum ýmsa einstaklinga sem hafa til að bera hæfileika, þekkingu og reynslu til að gegna þessu embætti. Ég tel að með því að nefna Birgi Ísl. Gunnarsson, sem gæti einn gegnt embætti seðlabankastjóra, með því að nefna þá hugmynd að menn sameinuðust um að fá Jónas Haralz aftur til landsins til þess að gegna þessari stöðu um nokkkurra ára skeið eða sækja unga hæfileikamenn á svipuðum aldri og dr. Jóhannes Nordal var á sínum tíma, eins og Ingimund Friðriksson og Má Guðmundsson, sé það liður í því að flytja umræðuna úr því öngstræti sem hún hefur verið í á undanförnum mánuðum inn á vettvang þar sem skynsamar umræður geta farið fram um það hvernig okkar þjóð nær sameiginlegum markmiðum sínum.