Seðlabanki Íslands

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 14:52:43 (6371)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Mér er ekki alveg ókunnugt um efni þessa frv. Hæstv. viðskrh. lýsti fyrir mér þegar við vorum saman í ríkisstjórn þeirri skoðun sinni að breyta þyrfti ýmsum ákvæðum í lögum um Seðlabanka Íslands og ég hygg að ég hafi tekið undir það með honum. Ég er því enn sammála að að sjálfsögðu þarf að endurskoða starfsemi Seðlabankans með tilliti til þess gerbreytta umhverfis sem við störfum í nú sem er, eins og hefur verið nefnt í umræðum á undan, langtum opnara umhverfi og get ég vel fallist á þá lýsingu.
    Ég hef hins vegar nokkrar efasemdir um sum ákvæði þessa frv. og finnst eiginlega að það sýni sig að hæstv. utanrrh. hefur haft nokkuð til síns máls þegar hann sagði á erlendum vettvangi, þar sem hann talar nú helst, að við Íslendingar værum yfirleitt tíu árum á eftir, hygg ég að hann hafi sagt. Ég nefnilega held að ýmislegt bendi til þess að við séum það.
    Sömuleiðis sýnist mér að þetta frv. sé að mörgu leyti tekið eftir lögum um ýmsa seðlabanka hjá stærri ríkjum Evrópu og í kringum okkur og jafnvel ýmislegt sem minnir dálítið á þann fræga banka, Bundesbank í Þýskalandi, sem ég hef efasemdir um að henti þessu örsmáa, litla íslenska þjóðfélagi sem býr við allt aðrar aðstæður á allt öðrum efnahagsgrunni. Ég ætla aðeins að taka hér nokkur atriði.
    Hér er markmiði seðlabanka breytt. Nú er settur allur þungi á að varðveita verðgildi íslenska gjaldmiðilsins og stuðla að stöðugu verðlagi. Ég held að þetta sé tekið nokkurn veginn orðrétt upp úr reglum um Bundesbank, svo ég nefni hann aftur, en ég held að hér eigi æðimikið annað við. Ég er að vísu sammála því að það þarf að leggja mikla áherslu á stöðugleika í gengismálum og stuðla að stöðugu verðlagi. En við byggjum á mjög takmörkuðum auðlindum og miklu þrengri efnahagsgrundvelli en tíðkast annars staðar. Mig langar til að vita t.d. ef botninn dettur úr sjávarútveginum af einhverjum ástæðum, ef afli bregst gersamlega eða markaðurinn hrynur, telur hæstv. viðskrh. að Seðlabankanum sé kleift að varðveita umfram allt annað verðgildi gjaldmiðilsins? Ég held ekki, satt að segja. Ég held að það sé ófær leið og enginn hefur tekið oftar þátt í því en hæstv. viðskrh. í sínu fyrra starfi að leita leiða til að tryggja gjaldmiðilinn og oft hefur það nú endað með því að það hefur ekki reynst hægt, því miður. Ég held að það megi ekki einangra Seðlabankann meira frá íslensku atvinnulífi en hann er nú. Ég er þeirrar skoðunar að hann verði líka að hafa stöðu hins íslenska efnahagslífs eins og það er og verður ekki breytt, a.m.k. í náinni framtíð, sem markmið í sínu starfi.
    í 35. gr. er fjallað um samskipti Seðlabankans við ríkisstjórn og þar er nú ákveðið að Seðlabankinn skuli vera enn sjálfstæðari en hann er nú. Í gildandi lögum er það svo að honum er skylt að framkvæma stefnu ríkisstjórnarinnar en getur gert grein fyrir annarri skoðun sinni opinberlega en hér er honum veitt ég vil kalla algert sjálfstæði. Hann skal aðeins vera ríkisstjórn til ráðuneytis og honum er skylt að hafa samráð við ríkisstjórnina um mótun og framkvæmd stefnu í peningamálum. Hann skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum svo fremi sem hann telji það ekki ganga gegn markmiðum sínum skv. 3. gr. Þetta er líka hermt eftir t.d. Bundesbank í Þýskalandi sem nýtur þessa mikla sjálfstæðis og mjög hefur verið í fréttum núna síðustu vikurnar þar sem hann hefur staðið blýfastur á sinni vaxtastefnu á grundvelli þess meginmarkmiðs að halda verðbólgunni niðri.
    Það eru nú ekki allir þessarar skoðunar. Ég bendi t.d. á fróðlega grein sem kom í Morgunblaðinu 25. okt. sl. í kjölfar erfiðleikanna sem urðu í Finnlandi. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Heimildarmenn segja að Esko Aho, forsætisráðherra efist æ meira um stefnu bankans og telji að hentugra sé að stjórnmálamennirnir móti afstöðuna til gengis og vaxtamála í ríkari mæli.``
    Og það sem enn ákveðnara er til orða tekið er haft eftir Ulf Sundqvist, sem var þá a.m.k. formaður jafnaðarmanna í Finnlandi og er kannski enn þó að þar séu breytingar fram undan. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Atburðir síðustu vikna hafa sannfært mig um að svokallað sjálfstæði seðlabankans er ekki markmið sem keppa beri að. Það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn. Gengi og vextir verða að taka mið

af því sem er að gerast í samfélaginu.``
    Þetta finnst mér athyglisvert og var eiginlega það sem vakti upp það sem ég sagði í upphafi og hafði eftir utanrrh. um að við erum venjulega tíu árum á eftir.
    Ég hef mínar efasemdir um þetta algera sjálfstæði Seðlabankans og ég held að tengsl hans við efnahagslífið í gegnum ríkisstjórn þurfi að vera ákveðin og vera til staðar.
    Svo eru nokkur önnur atriði. Ég get út af fyrir sig tekið undir að það er að mörgu leyti æskilegra að hafa bara einn bankastjóra. Hér er settur upp eins konar ,,súper-bankastjóri`` og svo minni háttar bankastjórar með. Þetta minnir mig enn þá dálítið á Bundesbank en þar var frægur bankastjóri lengi sem hét Pöhl og var talinn nánast ráðamestur allra manna í Vestur-Þýskalandi. Manni finnst að hér sé verið að skapa eitthvað svipað hásæti.
    Það er svo annað atriði sem ég vildi gjarnan nefna hér. Í 36. gr. er gert ráð fyrir því að ráðherra skipi formann og varaformann. ,,Taki nýr ráðherra við störfum getur hann skipað nýjan formann og varaformann.`` Þetta er mjög athyglisvert og ég hygg að hæstv. ráðherra hafi skýrt þetta svo að með þessu vildi hann skapa tengsl við ríkisstjórn. En víða er það nú svo að ný ríkisstjórn skipar nýjan bankastjóra. Hún getur sett þann bankastjóra sem var af og skipað nýjan og þetta er einmitt gert til þess að skapa örugg tengsl við ríkisstjórn. Ég tel --- um leið og ég tek undir að það mætti gjarnan vera einn bankastjóri --- að það ætti að vera heimild fyrir nýja ríkisstjórn að skipa nýjan bankastjóra. Það mundi leysa mikið af því sem ég er hér að segja. Það mundi skapa tengsl á milli ríkisstjórnar og þessa mikilvæga banka í efnahagsmálum þjóðarinnar, ekki bara heimsins eins og hér virðist vera stefnt að heldur þjóðarinnar.
    Um leið og ég tek undir að sjálfsagt sé að endurskoða seðlabankalögin og laga þau að mjög breyttum aðstæðum má hins vegar ekki gleyma því að við erum lítið eyland með allt annan efnahagsgrundvöll en Vestur-Þýskaland og við gerumst aldrei það stórveldi í bankamálum sem þar er um að ræða og við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Mér finnst þetta frv. eins og því miður svo margt í þessum Evrópukratisma, sem svo er gjarnan nefndur, einkennast af einhverri stórmennsku og einkennast af því að setja eigi okkur á sess með stórveldunum. Við hljótum vissulega að taka mikið tillit til þess sem þar er gert og vitanlega ræður það miklu hér en mikilvægast í okkar þjóðfélagi er að búa vel að íslenskum atvinnuvegum.
    Ég sakna þess líka í markmiðum að ekki er t.d. minnst á hluti eins og vexti. Að vísu á Seðlabankinn að hafa áhrif á örugga starfsemi á fjármagnsmarkaði o.s.frv. en vextirnir eru ekki taldir sérstaklega og líklega falla þeir undir þetta meginmarkmið. Eins og kom fram í starfsemi Bundesbank, þá lítur hann eingöngu á vextina sem tæki. Seðlabanki Íslands hefur nú sem betur fer farið að skipta sér nokkuð meira af fjármagnsmörkuðum, hann hefði þurft að gera það fyrir löngu, og er nú farinn að hafa þau áhrif að vextir hafa lækkað nokkuð. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að þarna verði ríkisstjórnin sjálf að koma til, taka af skarið og lækka vexti af ríkiskuldabréfum, ákveða þá eigi hærri en, við skulum segja, 5--6% eða eitthvað þess háttar. Ég leyfi mér að fullyrða og held að það fari ekkert á milli mála að í þessu þjóðfélagi, sem er afar skuldsett, eru þeir vextir sem við greiðum stærsta meinið í íslensku efnahagslífi í dag og þeir verða að lækka. Og Seðlabanki á að hafa hagsmuni íslensks atvinnulífs í huga og á að beita sér miklu ákveðnar en gert hefur verið fyrir lækkun vaxta.
    Annað dæmi, sem ég hef reyndar áður rakið hér, um það hvað Seðlabankinn er gersamlega sneyddur að því er virðist allri hugsun um íslenskt atvinnulíf er ákvörðun um svokallaðar BIS-reglur. BIS-reglurnar, eins og ég hef lýst, eru sniðnar eftir reglum í Evrópu, eflaust því sem Bundesbank, sem ég hef oft nefnt, telur réttar, við allt aðrar efnahagsaðstæður. Það er ekki gerð hin minnsta tilraun til þess að laga þessar BIS-reglur að aðstæðum hér. Svo ég nefni það enn einu sinni, er t.d. talin 100% áhætta í lánum í okkar meginatvinnuveg, sjávarútveginn. Jafnvel lán í ný fiskiskip með nægan kvóta er 100% áhætta. Ég leyni því ekki að ég tel svona ákvarðanir af hálfu Seðlabanka afar slæma vísbendingu um að hann er gersneyddur allri tilfinningu fyrir íslensku atvinnulífi.
    Ég tel því um leið og skoða þarf lög um Seðlabanka og laga að breyttum alþjóðlegum peningamarkaði, þá verði að hafa mjög sterkt í huga sérstöðu hins íslenska efnahagslífs og vona að í meðferð þess máls á þinginu verði það einnig vandlega skoðað.