Bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi

138. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 15:27:21 (6374)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessi deila í Herjólfsmálinu hefur nú staðið vikum saman. Hún hófst að frumkvæði tveggja stýrimanna vegna samanburðar á launakjörum meðal áhafnarinnar. Það leiddi síðan til verkfalls stýrimanna og þar með þess að skipið hefur ekki getað sinnt reglubundnum ferðum sínum.
    Það hefur vissulega verið mörgum undrunarefni í fréttum af þessari vinnudeilu hvernig stjórn Herjólfs hefur haldið á málum. Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að allan tímann hafi stjórn Herjólfs ætlað að láta leysa deiluna með lagasetningu. Það er nú einu sinni réttur launþega, sem bundinn er í vinnulöggjöfinni, sem hér er líka verið að ræða um, réttur til þess að fara í verkfall. Verkalýðshreyfingin hefur ekki ljáð máls á því að taka á því í þeirri lagasetningu að slík dæmi eigi ekki rétt á sér að fámennur hópur hafi það á valdi sínu að stöðva nauðsynlega starfsemi, jafnvel einn eða tveir menn. Auðvitað er það fráleitt að slíkt skuli geta gerst. En það hefur líka komið fyrir oft áður. Flugmenn hafa getað stöðvað allt áætlunarflug um landið og það hefur staðið lengur en einn dag og lengur en daga og lengur en vikur og oft leitt til mikils ófremdarástands. Mjólkurfræðingar hafa stöðvað framleiðslu og dreifingu mjólkur. Það veldur líka ófremdarástandi. Það var talað um neyðarástand þegar kennarar fóru í verkfall. Verkföll valda ævinlega óviðunandi ástandi en við getum ekki leyft okkur að leysa verkföll með því að setja með lagasetningu bann á verkföll. Því verður alltaf haldið fram að nú sé algert neyðarástand. Og með lagasetningu sem þessari er verið að skapa fordæmi sem ég tel ekki rétt.
    Það má einnig nefna að í 2. gr. frv. er komið inn á fleiri félög en stýrimannafélagið sem valdið hefur þessari deilu. Þar er einnig tekið með Vélstjórafélag Íslands, Brytafélag Íslands og Sjómannafélagið Jötunn sem ekki hafa staðið í deilu við stjórn Herjólfs. Nú á að setja gerðardóm á alla þessa starfsmenn.
    Það hefur líka komið á daginn að ríkissjóður hefur orðið að greiða stórar fjárupphæðir vegna þess að það hefur gripið inn í vinnudeilur með þessum hætti og íslenskir ráðamenn hafa fengið áminningu frá alþjóðlegum stofnunum vegna slíkra mála. Ég tel að með því að stöðva verkföll og vinnudeilur með lögum og setningu gerðardóms til að ákveða kaup og kjör sé Alþingi að fara inn á hættulega braut. Það á ekki að vera á valdi tveggja manna, sem eru í verkfalli, að knýja Alþingi til lagasetningar. Hins vegar hef ég fulla samúð með Vestmannaeyingum og í raun enga samúð með þeim tveim mönnum. sem standa í vinnudeilu, en ég tel þó að þessa deilu verði að leysa á annan hátt en hér er lagt til.