Bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 17:12:35 (6381)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get í fyrsta lagi ekki fallist á að leysa kjaradeilur með lagasetningu og tel að hér hafi ótímabær afskipti og klaufaskapur ráðið ferð. Auðvelt hefði verið að leysa þetta mál á annan veg. Þá er fráleitt að lögin taki þess utan til starfsmanna sem í engri vinnudeilu hafa átt. Þegar þess utan er litið til þess að kjaradeilan snýst ekki um bætt kjör þeirra sem í verkfalli eru heldur það að aðrir lægra settir ná hærri tekjum með meiri vinnu því fáránlegra er þetta mál. Og ég vil benda hv. þm. á að þessi staða kemur upp oft á ári hér á hinu háa Alþingi að starfsmenn þingsins ná miklu hærri launum heldur en hv. þingmenn.
    Ég get ekki tekið þátt í því að leysa nágrannakryt með lagasetningu og ég segi því að sjálfsögðu nei.