Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 17:19:37 (6385)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð um liðið síðan mælt var fyrir þessu frv. um Seðlabanka Íslands, en eins og menn minnast, þá var umræðu frestað og málið tekið til athugunar í efh.- og viðskn. Var þar um nokkra nýlundu að ræða þar sem látið var reyna á þá grein þingskapanna sem veitir nefndum heimild til þess að kanna mál áður en þau eru tekin til meðferðar.
    Efh.- og viðskn. kallaði á formann þeirrar nefndar sem samdi þetta frv., Ágúst Einarsson, og fékk einnig seðlabankastjóra, Jóhannes Nordal, til að skýra þetta frv. og ég tel að þetta hafi verið gott fordæmi sem þarna átti sér stað og að málin hafi nokkuð skýrst við þá athugun á frv., en að mínum dómi breytir sú umfjöllun ekki því að auðvitað er ýmsum spurningum ósvarað og ýmis álitamál sem við munum eiga eftir að fjalla um í nefndinni.
    Við höfum fengið í hendur, þ.e. efh.- og viðskn., nokkra samantekt frá nefndinni sem endurskoðaði seðlabankalögin um það hvernig lögum um Seðlabanka er háttað í hinum ýmsu löndum og þegar farið er í gegnum það kemur í ljós að nefndin hefur víða leitað fanga í þetta frv. en auðvitað má um það deila hvort rétt leið hafi verið valin varðandi stefnu, hlutverk og stjórn bankans.
    Við höfum horft upp á það á undanförnum árum að umhverfi fjármála hér á landi hefur breyst töluvert mikið. Við höfum horft upp á opnun og breytingar á bankakerfinu og með þessu frv. er verið að stíga skref í þá átt að gera Seðlabankann sjálfstæðari og þar með öflugri þannig að hann geti betur gegnt sínu margþætta hlutverki og ég tek undir þá stefnu.
    Kvennalistinn átti fulltrúa í nefndinni sem samdi frv. og hún skrifaði undir álit nefndarinnar og þar með þetta frv. með tveimur fyrirvörum sem hún lagði til í sínu séráliti og ég mun koma að hér síðar. En það breytir auðvitað ekki því sem ég sagði áðan að hér eru ýmis álitamál sem varða bankann.
    Þetta er býsna stórt mál sem hér er á ferð þó að ég taki nú ekki undir það sem kom fram fyrr í dag að málið snúist fyrst og fremst um það hver verði seðlabankastjóri og manni fannst maður vera kominn hér í samningaviðræður um það hver ætti að taka við hlutverki yfirbankastjóra. Mér finnst nú heldur að við eigum að horfa á það sem lagt er til í þessu frv. um hlutverk bankans og hvernig málum skuli þar háttað, en það er nú einmitt tekið fram í þessu frv. að það ber að auglýsa stöðu bankastjóra og ég mótmæli því að menn séu að ráðstafa þeim stöðum fyrir fram hér úr ræðustól og finnst nú að þar komi fram býsna mikil forræðishyggja þegar menn leyfa sér að koma með uppástungur um menn. Ég minni á það að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eða ályktun þeirri sem hæstv. félmrh. hefur lagt fram um jafnréttismál er kveðið á um að það beri að koma konum að þar sem þær eru fáar fyrir í ríkisstofnunum og mér finnst svo sannarlega orðið tímabært að kona fái að setjast í stól seðlabankastjóra. Ég vona að við fáum að sjá það á næstunni því að nóg er af hæfum konum í okkar landi.
    Ég ætla ekki að fara hér mikið út í það að bera þetta frv. saman við það sem gengur og gerist í öðrum löndum en það kemur auðvitað fram í einstaka greinum hvaða stefna hefur verið valin og við munum væntanlega skoða það nánar í nefndinni.
    Eitt af því sem ég hef mikið velt fyrir mér og ræddi við þá fulltrúa sem komu á fund efh.- og viðskn. var varðandi skilgreiningu á bankanum, þ.e. markmiðum og hlutverki bankans. Í 3. gr. þessa frv. eru markmið bankans skilgreind en hlutverk hans er ekki skilgreint sérstaklega heldur valin sú leið að láta það koma fram í einstökum greinum. Ég hef vissar efasemdir varðandi þessa leið. Ég er enn á þeirri skoðun

þrátt fyrir þessa umfjöllun að það hefði og væri skýrara í frv. að skilgreina hlutverk bankans nokkuð rækilega. Ég reyndi að tína það hér saman hver þessi hlutverk væru og ég var komin með 8 atriði sem varða hlutverk bankans. Þá á ég við annað en markmiðið sem menn setja sér í þessu frv. Þessi hlutverk eru:
    1. Að varðveita gengi íslensku krónunnar og halda utan um gjaldeyrisvarasjóðinn.
    2. Að annast seðlaprentun.
    3. Eftirlit með peningastofnunum.
    4. Að vera viðskiptavaki.
    5. Bankinn hefur ákveðnu ráðgjafarhlutverki að gegna gagnvart stjórnvöldum.
    6. Hann á að annast bankaþjónustu fyrir ríkið og jafnvel ríkisstofnanir.
    7. Skýrslugerð og spár um þróun peningamála.
    8. Stefnumótun í peningamálum.
    Þetta eru 8 atriði sem varða hlutverk bankans og ég spyr að því hvort ekki væri réttara að skilgreina þetta hlutverk í einu lagi, hvort lögin yrðu ekki einfaldlega skýrari með því að hlutverkið væri skilgreint.
    Mér verður næst starsýnt á 17. gr. frv. þar sem er komið inn á bankaþjónustuna fyrir ríkisstjórn og ríkisstofnanir. Þar vakna spurningar um hvað við er átt, hvernig menn skilgreina slíka þjónustu. Og í 17. gr. frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Seðlabankanum er heimilt að veita ríkisstofnunum og sjóðum í eigu ríkisins bankaþjónustu, aðra en lánafyrirgreiðslu.``
    Hvað er átt við með þessu? Er þarna um það að ræða að menn hafi ekki stigið skrefið til fulls og að Seðlabankinn verði enn að sinna þjónustu sem aðrir bankar ættu fremur að sinna? Hvaða þjónustu er þarna átt við? Ég fékk ekki svar við þessu í nefndinni og ég set ákveðið spurningarmerki við þetta.
    Í 20. gr. frv. er komið inn á það að bankanum sé heimilt að stunda önnur banka- og verðbréfaviðskipti sem samrýmist hlutverki hans sem Seðlabanka og í því skyni er bankanum m.a. heimilt að eiga aðild að fyrirtækjum og stofnunum á sviði verðbréfa og greiðslumiðlunar. Hér er einnig spurning hvort verið sé að teygja sig heldur langt, hvort þetta sé hlutverk seðlabanka að vera aðili að slíkum fyrirtækjum. Kannski er það í rauninni enginn annar aðili sem er til þess fær, en það er vissulega spurning hvort þetta eigi að vera á verksviði Seðlabankans.
    Í 21. gr. er komið inn á gengisskráningu og þar er um að ræða framhald á því sem ákveðið var í lögum hér á síðasta ári um hvernig gengi krónunnar skyldi ákveðið og við reyndar féllumst á þá tillögu en það er umhugsunarefni hvort Alþingi eigi hvergi að koma nærri gengisákvörðun því að hér eru auðvitað ýmsir möguleikar á ferð. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hvernig þessu er háttað í öðrum löndum og hvort ríkisstjórnir koma þarna hvergi nærri öðruvísi en með tiltölulega opnum heimildum í lögum. Þarna er um það að ræða að verið er að draga ríkisvaldið meira og meira út úr ákvörðunum um peningamarkaðinn. Það er umhugsunarefni. Ég tek ekki beinlínis afstöðu til þess hvort við séum á réttri leið í þessu efni en þetta er umhugsunarefni eins og ég segi.
    Það er komið hér nokkuð inn á hlutverk Seðlabankans sem viðskiptavaka á markaðnum en það er víða kveðið á um það, m.a. í lögum um húsbréfakerfið. Þar er Seðlabankanum gert að vera viðskiptavaki en hann hefur reyndar falið það öðrum aðilum. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hvernig menn sjá fyrir sér hlutverk Seðlabankans sem viðskiptavaka. Það getur verið um það að ræða að kaupa og selja gjaldeyri, eins og gerist í mörgum löndum, til þess að styrkja gengi krónunnar. Það getur verið um að ræða ríkisskuldabéf og eitt og annað. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. viðskrh.: Hvernig sér hann hlutverk bankans fyrir sér í þessu efni?
    Varðandi 28. gr. frv., þar sem fjallað er um bankaeftirlit Seðlabankans, kemur upp sú spurning hvernig háttað er eftirliti með bankanum sjálfum. Yfir bankanum er bankastjórnin og bankaráðið og síðan fylgist Ríkisendurskoðun væntanlega með því sem gerist í ríkisbönkunum en það er spurning hvort það sé nægjanlegt eftirlit með bankanum. Þetta er mjög mikilvæg stofnun. Bankaeftirlitið er hluti af Seðlabankanum og því er fyrst og fremst ætlað að fylgjast með öðrum peningastofnunum. En ég velti því fyrir mér hvort það væri eðlilegt að hafa einhvers konar annað eftirlit með Seðlabankanum. Ég er ekki að tala um tilsjónarmenn eða slíkt og spyr hvernig þessu er háttað í öðrum ríkjum. Hvernig fylgjast stjórnvöld með starfsemi viðkomandi seðlabanka eða gera menn það bara ekki? Er seðlabönkum hreinlega treyst fyrir sínu mikla hlutverki eða er það fyrst og fremst hlutverk bankaráðsins að hafa það hlutverk með höndum?
    Þá kem ég að stjórnskipulagi bankans. Þar er kannski að finna stóru spurningarnar í frv. Það er nokkuð mikið kerfi að sjálfsögðu sem er yfir bankanum enda um mjög mikilvæga stofnun að ræða. Þar með er ég komin að öðrum þeim fyrirvara sem fulltrúi Kvennalistans í nefndinni gerði við frv. en hún lagði til að í bankaráði Seðlabankans yrðu sjö fulltrúar í stað fimm. Það er gert með þeirri röksemd að það sé einfaldlega lýðræðislegra eins og málum háttar á Alþingi Íslendinga að fleiri komi að stjórn bankans. Ég get tekið undir það. Ég tel sjö manna bankaráð alveg eins heppilega stærð og fimm manna og í rauninni vandfundið hvað mælir frekar með fimm en sjö.
    Ég fagna því að í þessu frv. er gert ráð fyrir því að þeir sem taka sæti í bankaráði Seðlabankans, eins og reyndar í öðrum bankaráðum, hafi víðtæka þekkingu á efnahagsmálum. Ég tel það mjög mikilvægt að það séu gerðar auknar kröfur til þeirra sem stjórna okkar peningastofnunum. Ég tel að öll þau

mistök sem við höfum horft upp á á undanförnum áratugum brýni okkur í því að vanda val þegar um stjórnendur peningastofnana er að ræða og ég tel hér verið á réttri braut að gera til þeirra miklar kröfur.
    Hins vegar er ég ekki sammála því sem kemur fram í 2. mgr. 37. gr. frv. þar sem vikið er að því að ráðherra skipi formann og varaformann bankaráðs úr hópi aðalmanna. Taki nýr ráðherra við störfum getur hann skipað nýjan formann og varaformann. Mér finnst þetta óeðlilegt. Ef um sjálfstæðan seðlabanka er að ræða, sem rekur sjálfstæða og óháða stefnu gagnvart stjórnvöldum, þó þar eigi að vera um ákveðið samráð að ræða, þá á stjórn bankans ekki að vera háð því hvaða ráðherra situr hverju sinni. Bankaráð á fyrst og fremst að fylgja lögum. Mér finnst þetta vera dæmi um hinn pólitíska arf sem við þurfum að losa okkur við, að vera að tengja skipan bankaráða ríkisstjónarskiptum með þessum hætti. Ég vildi gjarnan ræða þetta við hæstv. viðskrh. hvernig hann rökstyður þennan framgang mála og að það sé virkilega svo mikilvægt að skipta um formann og varaformann þótt ráðherraskipti eigi sér stað. Eins og ég sé þetta þá er náttúrlega sjálfstæði bankans miklu meira en áður og hann á að móta sjálfstæða stefnu í peningamálum og ráðleggja ríkisstjórninni. Ef þeir menn sem sitja í stjórn bankans og bankaráði uppfylla allar kröfur þá ætlast maður til að þar sé fyrst og fremst staðið faglega að málum, ekki pólitískt, ekki þannig að menn séu að sveifla sér til eftir duttlungum og stefnu viðkomandi ráðherra. Mér finnst þetta mjög svo umhugsunarvert.
    Varðandi verkefni bankaráðsins þá finnst mér --- það er kannski óþarfi að vera að fara ítarlega út í það við 1. umr. en mér finnst orðalag 38. gr. vera nokkuð óljóst. Bankaráðið á að vera til ráðuneytis um reglur bankans, til ráðuneytis um meginþætti í starfsemi bankans, staðfesta tillögur bankastjórnar um höfuðþætti í stjórnskipulagi bankans og staðfesta ráðningu aðstoðarbankastjóra, hafa umsjón með starfi sérstakrar endurskoðunardeildar, eiga aðild að kjarasamningum, mér finnst þetta allt svona frekar veikt orðað og hér þarf að skoða svolítið rækilega hlutföllin milli bankastjórnar og bankaráðs. Hvar eru völdin í raun og veru? Að mínum dómi er bankaráðið yfir bankastjórninni og á að fylgjast með að lögum, reglum og stefnum sé fylgt. Mér þykir þetta nokkuð óljóst orðalag. En þetta getum við að sjálfsögðu rætt í nefndinni.
    Ég ætla að vekja athygli á því, sem ég reyndar gerði á nefndarfundi, að í g-lið 38. gr. er vikið að ráðningu aðstoðarbankastjóra en það er ekki minnst á þá og hlutverk þeirra í sjálfum lögunum. Hins vegar er í greinargerð vikið að því að aðstoðarbankastjórar fari með stjórn veigamikilla málaflokka í bankanum, eins og segir á bls. 39 í frv., með leyfi forseta. Mér finnst það umhugsunarefni hvort ekki sé rétt að skilgreina í lögunum eða alla vega komi fram að það eigi að ráða aðstoðarbankastjóra. Bankaráði er gert að staðfesta ráðningu þeirra en það er hvergi gert ráð fyrir þeim í sjálfu stjórnskipulaginu eins og það er skilgreint í lögunum.
    Þá kem ég að bankastjórninni. Ég er frekar hlynnt því að hafa þrjá bankastóra. Ég sé í sjálfu sér ekkert athugavert við það. Ef verkaskipting er eðlileg á milli þeirra og þeir eru ráðnir með faglegum hætti þá er ég í sjálfu sér hlynnt því að þeir séu þrír. Það er hins vegar spurning með það kerfi sem hér er sett upp þar sem einn bankastjóri er yfir hinum og getur verið yfirbankastjóri í fjórtán ár, tvö kjörtímabil. Það er reiknað hér með sjö ára kjörtímabilum. Mér þætti æskilegra að menn einfaldlega skiptust á um að vera formaður stjórnar og að það sé ekki gert með þeim hætti að það sé toppstaða í þessari stofnun. En ég er í sjálfu sér hlynnt því að setja þeim ákveðinn tíma. En reyndar er það svo að maður getur verið bankastjóri lengst í 21 ár ef menn gegna bæði stöðu bankastjóra og síðan stöðu formanns bankastjórnar. Mér telst svo til að menn geti setið þarna í allt að 21 ár.
    Varðandi 45. gr. þá er aftur vikið að því sem ég nefndi hér áðan, þ.e. þátttöku í atvinnurekstri. Í 45. gr. segir:
    ,,Seðlabankanum er óheimilt að eiga innlend eða erlend hlutabréf eða önnur verðbréf sem fela í sér þátttöku í atvinnurekstri eða taka að öðru leyti þátt í atvinnurekstri nema það samrýmist hlutverki hans sem seðlabanka.``
    Ég spyr: Hvaða atvinnustarfsemi getur það verið annað en þátttaka á verðbréfamarkaði eða eitthvað slíkt? Getur verið um eitthvað annað að ræða? Ég tel eðlilegt að hafa skilyrði eins og þetta. Það er ekki hlutverk seðlabanka að standa í atvinnurekstri en hvaða atvinnurekstur er það sem getur samrýmst hlutverki seðlabanka? Það kom ekki fram á fundi nefndarinnar.
    Þá er í 46. gr. vikið að biðlaunum bankastjóra. Mér þykir nú vera vel gert við þá þegar þeir fá greidd biðlaun í 12 mánuði, jafnhá föstum launum er starfi þeirra fylgdu. Ef ég man rétt þá eru þetta mun betri kjör en aðrir ríkisstarfsmenn búa við.
    Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta frv. að sinni. Eins og ég hef nefnt eru hér allnokkur álitamál. Það má spyrja spurninga varðandi yfirdráttarheimild ríkisins hjá Seðlabankanum en það hefur nú þegar verið gerður samningur um það efni milli ríkisstjórnarinnar og bankans og ég teldi rétt að menn reyndu að ná þessum yfirdrætti niður í rólegheitunum og gera það stig af stigi. En það er spurning hvort ríkisvaldið þarf ekki að eiga Seðlabankann upp á að hlaupa. Það kemur m.a. fram í því plaggi sem við fengum frá nefndinni að t.d. í Englandi hefur ríkissjóður ótakmarkaðan aðgang að sjóðum enska seðlabankans svo framarlega sem lántökuheimildir eru til staðar. Í Frakklandi getur bankastjóri fyrir hönd bankaráðs og ráðherra efnahags- og fjármála gert samning um lánafyrirgreiðslu bankans við ríkissjóð og fleiri dæmi mætti nefna. Hér er verið að þrengja mjög að heimildum ríkisvaldsins til yfirdráttar í Seðlabankanum. Vissulega veitir ekki af að ríkisvaldið fái meira aðhald í peningamálum en það er spurning hvort hér sé verið að ganga of langt og of hratt.
    Að síðustu vil ég nefna að í frv. er kveðið á um að það beri að auglýsa stöður seðlabankastjóra. Það tel ég vissulega vera skref í rétta átt. Ég tel afar brýnt að við ráðningu seðlabankastjóra, eins og við ráðningu þeirra sem fara með stjórn annarra peningastofnana, ráði faglegt mat. Að það séu fyrst og fremst þeir sem hafa verulega reynslu af efnahagsmálum og þekkingu á efnahagsmálum sem veljast til þessara starfa og menn séu ekki að nota svona mikilvægar stöður í ríkiskerfinu til að koma fyrir einhverjum mönnum sem eru orðnir þreyttir á pólitík eða eru að leita sér að starfi. Það er afar mikilvægt að þarna ráði faglegt mat og að þessu ,,kvótakerfi`` sem ríkt hefur í bankakerfinu, þar sem gömlu stjórnmálaflokkarnir hafa skipt á milli sín stöðum, linni. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alla þróun efnahagslífs á Íslandi að það sé fyrst og fremst fagmennskan sem ráði ríkjum. Menn vegi og meti stöðuna hverju sinni en láti ekki pólitíska stundarhagsmuni ráða för. Það gildir ekki síst um þá mikilvægu ríkisstofnun sem Seðlabanki Íslands er og mun verða.