Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 17:49:03 (6387)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það kom mér eilítið á óvart að framhald umræðu um seðlabankamálið yrði á dagskrá í dag. Mér hafði einhvern veginn fundist að það hefði verið eðlileg ,,taktík`` hjá ríkisstjórninni að sleppa bankamálaumræðu þessa vikuna eftir allt írafárið í þeirri síðustu. En vissulega skorast ég ekki undan að taka þátt í þessari umræðu.
    Af hálfu nokkurra þingmanna stjórnarandstöðunnar var farið fram á að það yrði farið yfir þetta mál í nefndinni áður en 1. umr. yrði haldið áfram og það hefur verið gert. Út af fyrir sig hefur það skýrt þessi mál að verulegu leyti í okkar huga.
    Nú er það svo að í nefndinni er búið að fara yfir mjög stóran hluta af peningamarkaðnum á þessum vetri. Og úr því sem komið er þá tel ég á margan hátt eðlilegt að við endum á Seðlabankanum. Ég leyfi mér að vitna í ummæli seðlabankastjóra, Jóhannesar Nordals, í efh.- og viðskn. um daginn þar sem hann sagði aðspurður að það væri hægt að framkvæma það sem þyrfti að gera nú í peningamálum án þess að breyta lögum en ramminn sé að vísu ekki eins skýr og allir hefðu kannski kosið. Ég sé því ekkert sem rekur sérstaklega á eftir þessari vinnu núna.
    Það er svo annað mál að líklega hefur verið farið algerlega aftan að hlutunum varðandi þær breytingar sem hafa verið gerðar á peningamarkaðnum á síðustu 5--8 árum. Í upphafi skyldi endirinn skoða, stendur einhvers staðar en það held ég að menn hafi ekki gert. Vextir voru gefnir frjálsir án þess að huga að því hvaða stjórntæki þyrftu að vera til staðar og til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að hafa þar eðlilegan hemil á.
    Nú er ég ekki að segja að við Íslendingar hefðum getað farið einhverja aðra leið en okkar helstu viðskiptaþjóðir en það skiptir afskaplega miklu máli hvernig haldið er á við svo stórtækar breytingar eins og hér hafa orðið á rúmum áratug frá neikvæðum vöxtum, sem var að mínu mati óeðlilegt ef ekki sjúkt ástand, yfir í það að við höfum haft hér einhverja hæstu raunvexti sem þekkjast í heiminum. Það hefur víða hrikt í á meðan þessar breytingar hafa gengið yfir.
    Það er svolítið fróðlegt að skoða yfirlýsingar ráðherra núv. hæstv. ríkisstjórnar um ástæður fyrir

háum vöxtum. Þær hafa breyst frá tíma til tíma. Í upphafi voru yfirlýsingar hæstv. forsrh. um ríkissjóðshallann. Ef tækist að laga hann þá kæmi nánast allt annað af sjálfu sér og vextirnir mundu einnig lækka. Á síðasta vetri sagði hæstv. viðskrh. margoft í ræðustól á hinu háa Alþingi að um væri að kenna að hér ríkti fákeppnismarkaður og þetta mundi allt saman meira og minna lagast þegar við værum búnir að opna fjármagnsmarkað okkar fyrir erlendum aðilum. Nú í vetur kom svo hæstv. fjmrh. og sagði að orsök þessa alls sé að ekki komist bönd á vextina á meðan ríkissjóður hafi ótakmarkaðan aðgang að lánsfé í Seðlabankanum. Nú er auðvitað eitthvað til í þessu öllu. En þetta sýnir kannski öðru fremur að óðagotið hefur verið of mikið og það er smám saman að renna upp fyrir hæstv. ríkisstjórn að þau stjórntæki sem þurfti voru annaðhvort ekki til eða ekki til þeirra gripið.
    Í þessu frv. eru ýmis nýmæli. Eitt það helsta er væntanlega að það er lagt til að sjálfstæði Seðlabankans verði aukið verulega frá því sem er í dag. Hann fái möguleika til að hafa áhrif á þróun peningamála og vaxta með markaðsaðgerðum, þ.e. kaupa og selja verðbréf og aðra pappíra á markaði eða gefa þá út á eigin markaði. Það er einnig lagt til að Seðlabanka sé heimilt að skipuleggja hér á landi gjaldeyrismarkað. Nú vil ég taka það fram að þær heimildir eru til í lögum nú þegar. Að því var unnið á síðasta vetri þannig að þær heimildir eru til staðar.
    Ég ætla ekki að telja upp þau nýmæli sem hér eru. Þau hafa öll verið talin upp áður. Ég ætla þó að nefna eitt atriði varðandi eigið fé bankans. Það hlýtur að vera afar nauðsynlegt ef hann á að geta virkað sem aðili á markaðnum sem grípur inn í að eigið fé verði sem fyrst byggt upp í þau 6% af vergri landsframleiðslu sem lagt er til í frv.
    Ég ætla að fara örfáum orðum um sjálfstæði seðlabanka og ítreka það sem ég sagði áðan að í frv. er gert ráð fyrir auknu sjálfstæði hans. Það er vitnað til þess sem gerist annars staðar. Það er alveg rétt að í löggjöf ýmissa landa er seðlabanka skapað ákveðið sjálfstæði. Hann á að geta veitt stjórnvöldum á hverjum tíma aðhald. En eftir að ég fór að skoða það sem ég hef fengið í hendurnar um löggjöf annarra landa í þessu kemur í ljós að þetta þýðir alls ekki að seðlabankinn eigi að vera einhver einangraður fílabeinsturn fyrir peningamarkaðinn. Það er mjög víða í lögum annarra landa hægt að finna þess dæmi að reynt sé að tryggja að innan seðlabanka sé víðtæk þekking á grunnatvinnuvegum viðkomandi landa. Ég ætla að nefna hér nokkur dæmi, með leyfi forseta.
    Í Austurríki skulu bankaráðsmenn vera leiðandi menn í atvinnulífinu, fulltrúar banka, iðnaðar, viðskiptalífs, landbúnaðar og launþega. Í Bandaríkjunum skal þess gætt við val á bankaráðsmönnum að sjónarmið fjármála, landbúnaðar, iðnaðar og viðskiptagreina séu til staðar í bankaráðinu. Í Danmörku skulu 15 fulltrúar vera úr viðskiptalífinu. Í Hollandi skulu 12 bankaráðsmenn af 17 skipaðir sem hér segir: Tveir fulltrúar viðskiptalífsins, tveir fulltrúar iðnaðar, tveir fulltrúar landbúnaðar, þrír fulltrúar launþegahreyfingarinnar og þrír fulltrúar fjármálalífsins. Í Japan skuli sex af sjö fulltrúum skipaðir sem hér segir: Einn úr fjármálaráðuneyti, einn úr efnahagsáætlanaráðuneyti, tveir menn með mikla reynslu á fjármálasviði, annar frá litlum svæðisbanka og hinn frá stórum viðskiptabanka, einn maður með mikla þekkingu og reynslu í iðnaði og viðskiptum og loks einn maður með mikla þekkingu og reynslu í landbúnaði.
    Á þessari upptalningu sést að í sjálfstæði seðlabanka í þessum löndum felst að þar eigi að vera til staðar grundvallarþekking og í raun bein tenging við veigamestu atvinnugreinar landanna. Það tel ég að hljóti að vera mikilvægt þegar menn eru að tala um sjálfstæði seðlabanka að þannig sé staðið að málum.
    Kem ég þá að því að seðlabanki sem sjálfstæð stofnun verður að byggja á einhverjum markmiðum. Að mínu mati hlýtur það markmið að vera að skapa atvinnuvegunum starfsskilyrði og sjá til þess að við höfum peningakerfi sem getur bæði stutt við atvinnulífið og ávaxtað arðinn af því og beint því inn á sem heillavænlegastar brautir.
    Einstaka aðilar og meira að segja einstaka lönd virðast hafa dregið þetta saman nánast í eitt atriði að það verði ekki betra gert fyrir atvinnulífið og þróun þess en að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu og stöðugu verðlagi og það eigi þar með að vera eina verkefni seðlabanka. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni. Ég held að stöðugleiki í efnahagsmálum megi ekki vera settur svo á oddinn að hann leggi atvinnulífið meira og minna í rúst. Þeir sem geta hugsað sér að ganga þannig fram hugsa væntanlega þannig að það megi þó byggja upp á nýtt á þeim rústum. En ég held að menn hafi ekki yfirsýn yfir allar þær afleiðingar sem slíkum ósköpum gæti fylgt. Að að mínu mati getur þess vegna yfirstjórn peningamála ekki sett sér eins einfalt markmið og þetta ef menn vilja draga hlutverk seðlabanka saman í þetta eina atriði.
    Þá kem ég í beinu framhaldi af þessu að stjórnkerfi Seðlabankans. Ég var mjög hallur undir þá skoðun að það væri best að Seðlabankanum væri stýrt af einum bankastjóra, faglegum manni úr peningakerfinu. Eftir að hafa lesið þá skýrslu sem við fengum um skipan seðlabanka í öðrum löndum runnu á mig tvær grímur gagnvart þessu sjónarmiði. Ef seðlabanki á að vera nánast faglegt hjálpartæki ríkisstjórnar til að hafa stjórn á peningamálum þá er ég þeirrar skoðunar að sú túlkun sé góð og gild að einungis sé einn faglegur bankastjóri. Ef við erum hins vegar að tala um sjálfstæðan seðlabanka sem á að veita ríkisstjórn á hverjum tíma og framkvæmdarvaldinu aðhald og á að vera einhvers konar vörður atvinnulífsins gagnvart ríkisvaldinu á hverjum tíma, eins og mér finnst skína í gegn að verulegu leyti í lögum um seðlabanka ýmissa annarra landa, þá sýnist mér að það væri nær að hafa fjölskipaða bankastjórn og reyndar nokkuð fjölmennt bankaráð sem hefði víðtæka reynslu og þekkingu á sem flestum sviðum atvinnulífsins.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um skipan bankastjóra og bankaráðs hér og mun ekki blanda

þessari umræðu við þá umræðu sem í þjóðfélaginu er í dag um skipan seðlabankastjóra í kjölfar þess að tveir af þrem bankastjórum eru nú að víkja úr starfi.
    Ég vil þó nefna það í þessu sambandi að ég get á margan hátt tekið undir það að á síðustu árum hefði þurft öflugan sjálfstæðan seðlabanka til að hafa vit fyrir ríkisstjórninni í peningamálum. Núverandi Seðlabanki hefur reyndar gert tilraunir til að hafa áhrif með reglulegri skýrslugerð og úttekt á einstökum málum. Ég nefni í því sambandi skýrslu um húsbréfakerfið og minni hæstv. viðskrh. á viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þeirri skýrslu. Hæstv. forsrh. hefði sjálfsagt sagt að það hefði legið við að hæstv. félmrh. hefði farið af hjörunum í þeirri umræðu, samanber þau ummæli sem hann hafði í umræðu á Alþingi í um daginn. Ég vil ekki taka svo stórt upp í mig. En þeim varnaðarorðum Seðlabankans var vægast sagt illa tekið af ríkisstjórninni. Viðbrögðin voru mjög hörð þó svo að með því að skoða hvernig skuldastaða heimilanna hefur þróast á síðustu árum hljóti menn að sjá í dag að þau varnaðarorð Seðlabankans áttu við full rök að styðjast.
    Þá ætla ég að koma aðeins að gengismálunum. Ég ítreka það sem ég sagði áður að þær breytingar sem þarf til þess að hér sé hægt að byrja að þróa gjaldeyrismarkað eru komnar inn í núverandi gjaldeyrislög og var heilmikið til umræðu hér á síðasta vetri. Þar var mikið rætt um þá gengiskörfu sem við notum á hverjum tíma. Við fulltrúar í efh.- og viðskn. fengum í hendur skýrslur um tengingu krónunnar við ECU. Á þeim tíma var það æskilegt pólitískt markmið að mati hæstv. viðskrh. að tengja íslensku krónuna við ECU. Ef ég man rétt var það áætlun viðskrh. á þeim tíma að það gerðist á þessu ári. Ég er alveg sammála viðskrh. að þarna er um pólitíska aðgerð að ræða. Mín pólitík í þessu er sú að tengja krónuna ekki við ECU og segja með því að þrátt fyrir mikilvægi Evrópu fyrir okkar viðskipti þá ætlum við að halda öllum öðrum möguleikum opnum að fullu. Ekki binda okkur Evrópugjaldmiðlunum meira en í mesta lagi sem nemur því hlutfalli af okkar utanríkisviðskiptum sem þangað fara. Ef ég man rétt er sú gengiskarfa sem við búum við núna uppbyggð mjög nálægt því.
    En ég vil í framhaldi af þessu bera fram tvær spurningar til hæstv. viðskrh. Það er í fyrsta lagi: Hvað líður vinnu við að koma á fót gjaldeyrismarkaði? Í öðru lagi: Er ráðherra enn þeirrar skoðunar að tengja eigi krónuna við ECU og þá hvenær?
    Það sem mér finnst hins vegar mest um vert varðandi peningamarkaðinn núna er að klára vinnuna við ný lög um viðskiptabankana. Það frv. liggur nú fyrir í efh.- og viðskn. og það er mitt mat að við hljótum að klára þá vinnu áður en við snúum okkur nokkuð, úr því sem komið er, að lögunum um seðlabanka. Ég minni á að í meðförum frv. um ráðstafanir til styrkingar bankakerfisins í síðustu viku komum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar og þeir sem tóku þátt í sameiginlegu nál. í það ákvæðum þess efnis að unnið yrði að því að hraða þar vissum ákvæðum, svo sem eins og að tryggja að viðskiptabankarnir hafi rýmri heimildir til yfirtöku fyrirtækja. Reyndar eru þar líka rýmri heimildir fyrir viðskiptabankana til að taka beinan þátt í atvinnurekstri.
    Það er mín skoðun að þetta sé hvort tveggja af því góða. Það sé af því góða að beinna samband skapist milli þeirra sem sýsla með fjármagnið og atvinnulífsins í landinu þar sem hin eina raunverulega ávöxtun á okkar fjármagni getur farið fram. Ég hef haldið því fram hvað eftir annað úr ræðustól á hinu háa Alþingi, bæði á þessum vetri og þeim síðasta, að fátt annað sé meira aðkallandi nú til þess að við getum lækkað vextina en að það verði gripið til aðgerða sem geta hægt á hinni miklu afskriftaþörf sem er hjá bönkunum í dag. Það er ekki eðlilegt ástand að banki sem hefur meiri hluta af bankaviðskiptum við okkar undirstöðuatvinnuveg, sjávarútveginn, þurfi að afskrifa og hafi þurft á síðasta ári að afskrifa fjármagn sem er talið í hundruðum milljóna á mánuði. Það segir kannski meira en mörg orð um efnahagsstjórnunina í dag og hvernig búið er að grunnatvinnuvegunum og meðan svo er þá er tómt mál um að tala að hér byggist upp heilbrigður peningamarkaður.
    Virðulegi forseti. Ég mun að lokum ítreka í einu litlu dæmi hvernig peningamarkaðurinn hefur þróast á síðustu árum. Í september á síðasta ári var peningalegur innlendur sparnaður 447 milljarðar. Það hefur ítrekað komið fram í umræðu síðustu vikna, m.a. í tillögum okkar framsóknarmanna um efnahags- og atvinnumál, í orðum fyrrv. formanns Vinnuveitendasambandsins og núv. formanns samstarfsaðila í sjávarútvegi, í orðum formanns Alþýðusambandsins og fleiri aðila innan þess geira að vextirnir séu of háir. Menn tala um að þeir séu fjórðungi of háir, verði að lækka niður í það að vera að raunvöxtum 6% og svo framvegis.
    Það er ekki um það deilt að vextirnir eru of háir. Það eru hins vegar eilítið skiptar skoðanir um hversu mikið of háir og hvernig sé hægt að ná þeim niður. Ef við gefum okkur það að vextirnir séu 3% of háir, það fellur m.a. af yfirlýsingum formanns atvinnurekenda í sjávarútvegi og hann væntanlega mælir þetta af eiginfjárstöðu þeirrar greinar, þá er verið að greiða 13,4 milljarða á ári fyrir þessi 3%. Á þeim sex árum sem liðin eru frá því að hæstv. núv. viðskrh. kom til valda þá eru þetta 80,4 milljarðar.
    Nú geta menn sagt að hér sé ég eingöngu að leika mér með tölur og þetta sé eingöngu það sem markaðurinn krafðist á þessum tíma. En lítum nú á hina hliðina. Lítum á það hvernig eigið fé fyrirtækjanna í grunnatvinnuvegunum, hvernig skuldastaða sjávarútvegsins og hvernig skuldastaða heimilanna hefur þróast á þessum árum og þá sjáum við það svart á hvítu að fyrir þessu var engin innstæða. Þetta var krafa um ávöxtun sem var umfram ávöxtunargetu atvinnulífsins í landinu. Um það held ég að sé engum blöðum að fletta. Það hlýtur því að vera krafa að nú þegar verði gripið til róttækra aðgerða til þess að

lækka vextina.