Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 18:14:40 (6388)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. beindi til mín tveimur alveg ákveðnum spurningum. Sú fyrri var hvað liði störfum að því að koma á gjaldeyrismarkaði á grundvelli nýrra ákvæða um gjaldeyrisviðskipti. Þar er frá því að segja að undirbúningur þessa verks er í eðlilegum farvegi, Seðlabankinn leggur drög að því að á fót verði settur millibankamarkaður í upphafi. Ég bind vonir við það að senn fari að sjást nákvæmlega hvernig þetta verður framkvæmt.
    Síðari beina spurningin sem hv. þm. beindi til mín var um ECU-tengingu krónunnar, hvort það væri enn á dagskrá, hvort og hvenær væri að því stefnt. Þar er svarið afar skýrt: Umrótið á gjaldeyrismörkuðum Evrópu gerir það að verkum að ECU-tengingin er ekki á dagskrá að svo stöddu.