Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 18:15:51 (6389)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna því hversu hratt hæstv. viðskrh. fer fram þessa dagana. Nú gerist það í sömu vikunni að hæstv. ráðherra viðurkennir að það geti ekki þjónað hagsmunum okkar eins og nú er statt málum að einkavæða og selja ríkisbankana. Það er því sambandi reyndar mjög athyglisvert að lesa viðtal við stjórnarformann Hambros bankans í Morgunblaðinu síðustu helgi og ég mundi ráðleggja hæstv. ríkisstjórn að lesa það viðtal alltaf þegar þeir fara af stað með einkavæðingaráform.
    Í öðru lagi hefur hæstv. viðskrh. snúið við blaðinu varðandi ECU-tengingu algjörlega frá því sem var hér uppi á síðasta vetri. Hann ber við óróa á gjaldeyrismarkaði í Evrópu, vissulega hefur hann verið mikill, og kannski álíka mikill og trú hæstv. ráðherra var á stöðugleika ECU og hins evrópska peningamarkaðar á síðasta vetri.