Tilkynning um utandagskrárumræðu

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 13:32:01 (6402)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Áður en gengið er til dagskrár vill forseti upplýsa að hér mun fara fram utandagskrárumræða kl. 3.30. Hún fer fram að beiðni hv. 4. þm. Suðurl., Margrétar Frímannsdóttur, og er efni umræðunnar lokuð deild sem vistunarúrræði fyrir síbrotaunglinga og hugmyndir félmrh. um hækkun á sjálfræðisaldri.
    Þá vill forseti jafnframt minna á að samkvæmt dagskrá vikunnar er gert ráð fyrir ef á þarf að halda fundi milli kl. 6 og 7 í dag.
    Forseti vill geta þess sérstaklega vegna þeirra tæknivandkvæða sem urðu hér í gær við atkvæðagreiðslur að þau stöfuðu af svokallaðri ,,statik`` í salnum sem var óvenjumikil í gær, m.a. vegna hins þurra lofts sem fylgir kuldanum þessa daga. Þess vegna skapaðist mikil spenna og rafmagnað loft með neistaflugi hér á ráðherrabekkjum, einkum hægra megin við forseta, svo að þrjú atkvæðagreiðslutæki slógu út. Þetta er nú sagt í eiginlegri merkingu þeirra orða varðandi neistaflugið. ( Gripið fram í: Hjá hvaða ráðherra var mest neistaflug?) Það er óupplýst hvaðan sú spenna kom upphaflega en þurra loftinu mun það kenna. En forseti vildi láta þessa getið að það var ekki sjálft tölvukerfið heldur þessi ástæða sem . . .   Forseti sér ekki ástæðu til að slá í bjölluna þegar svona skemmtilegur tónn ríkir hér í salnum, þó kannski hefði verið ástæða til --- en það verður sem sagt reynt að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir svona framvegis.