Evrópskt efnahagssvæði

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 13:42:34 (6404)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að það er út af fyrir sig ekki ástæða til að hafa langt mál um þetta frv. sem slíkt. Hér er um tæknilegar breytingar að ræða þó að efnisbreytingar felist einnig í því, t.d. um gildistöku EES-samningsins og sömuleiðis um sjóð þann sem settur er á fót til aðstoðar vanþróaðri löndum í hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Mikilvægara er raunar að undirbúa okkur undir þá ákvörðun sem meiri hlutinn hefur tekið að Íslendingar gerist aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Við erum mjög vanbúnir undir það og mætti reyndar hafa um það mjög langt mál. Einnig er áreiðanlega orðið afar tímabært að marka stefnu til lengri frambúðar. Hvað ætlum við Íslendingar að gera þegar hið Evrópska efnahagssvæði leysist upp? Vísa ég í því sambandi til þeirrar till. til þál. sem er 3. mál á dagskrá þessa fundar. Það er áreiðanlega orðið afar tímabært að Alþingi marki þá stefnu sem vissulega hefur komið fram í orðum m.a. hæstv. forsrh. að gengið verði til tvíhliða samninga við Evrópubandalagið. Ég held að afar þarft sé að marka þá stefnu sem fyrst til að eyða þeirri óvissu sem virðist ríkja í þjóðfélaginu og þeim vangaveltum sem heyrast jafnvel frá einstöku þingmönnum að rétt sé að sækja um aðild að Evrópubandalaginu.
    Ég tel það því langtum mikilvægara og stærra mál og hefði satt að segja kosið að við hefðum haft tækifæri til að ræða það hér á Alþingi fyrr þannig að það lægi fyrir hvaða framhald Alþingi vill að verði á þessum málum.

    En svo að ég snúi mér aðeins að því frv. sem hér liggur fyrir, þá vil ég í fyrsta lagi þakka það að hæstv. utanrrh. varð við beiðni minni hluta stjórnarandstöðunnar í utanrmn. að flytja þetta sem stjfrv. Við töldum það raunar sjálfsagt miðað við mikilleik málsins að öllu leyti og það sem á undan er gengið og ekki síst líka vegna þess að að sjálfsögðu hafa hæstv. utanrrh. og hans menn haft veg og vanda af því að gera þann samning sem hér liggur fyrir um viðbótarbókun.
    Ég met einnig að ekki varð úr þeirri, ég vil segja, fáránlegu hugmynd að flytja þetta sem þál. Hér er um að ræða breytingu á lögum sem Alþingi hefur samþykkt og breyting verður ekki ákveðin með þál. á Alþingi svo að það er sem betur fer meiri formfesta á þessu en horfði um tíma.
    Ég sagði áðan að það væru ýmsar tæknilegar breytingar vegna brotthvarfs Sviss sem ég ætla út af fyrir sig ekki að ræða. Þeir leiða nokkuð af sjálfu sér. Ég vek þó athygli á því að þeir menn sem höfðu staðið í þessum samningum höfðu kosið að fara nokkuð ítarlega í gegnum samninginn og ýmislegt sem honum fylgir og breyta þar grein fyrir grein í stað þess að setja inn eina almenna grein sem gilti fyrir allt saman og ég tel það vera betri vinnubrögð heldur en hin síðari. Hins vegar virðist enn ríkja töluverð óvissa í sambandi við þann sjóð sem settur er á fót. Að vísu er fallist á að sjóðurinn verði í tölum sá sami og var, þ.e. að heildarupphæð lána verði 1.500 millj. ECU og styrkir 500 millj. ECU. Hins vegar er talið líklegt að lækkun vaxta af því fjármagni sem lagt er í þennan sjóð verði minni en áður var gert ráð fyrir og þetta þýði að framlag Íslands hækki úr 68 millj. í allt að 85 millj. kr. á ári. Ég get viðurkennt það að ég sé eftir þessum fjármunum þó að þeir þyki kannski ekki stórir í svona máli og mér þykir að satt að segja að ekki veitti af að veita slíkum fjármunum í þróunaraðstoð hér á okkar eigin landi eins og nú er ástatt í efnahagsmálum. Það veitti ekki af að veita slíkum peningum í nýsköpum á íslensku atvinnulífi eða til að aðstoða íslenskt atvinnulíf í afar nauðsynlegri hagræðingu. Reyndar hlýtur sú spurning að vakna eins og stefnir nú og greinilega hefur komið fram í umræðum á Alþingi hvort við ættum ekki öllu frekar að verða fljótlega þiggjendur úr þessum sjóði heldur en gefendur, því miður. Ég sé ekki betur en með þeim vinnubrögðum eða vinnubragðaleysi sem ríkisstjórnin hefur nú í hávegum og byggist á stefnu hennar um afskiptaleysi, þá stefni hér í öllu meiri vandræði en víðast hvar í Evrópu. Ég hlýt því að segja það að ég sé eftir þessu fjármagni og tel að því væri í okkar þágu langtum betur varið hér innan lands.
    Síðan er það annað efnisatriðið sem er sú tímasetning sem nú er gefin upp fyrir gildistöku EES-samningsins. Hér er stefnt að því að það verði 1. júlí, en hins vegar er sá varnagli að þetta kunni að dragast og skuli það vera 1. þess mánaðar sem fylgir endanlegri samþykkt, enda hafi hún legið fyrir a.m.k. hálfum mánuði áður. Ég held satt að segja að það sé varla sá maður sem talar um þetta af fullri ábyrgð sem láti sér detta í hug að gildistakan verði 1. júlí. Bæði á samningurinn í heild sinni eftir að fara í gegnum fjöldann allan af þjóðþingum og það eru víða miklar blikur á lofti og sömuleiðis á að sjálfsögðu þessi viðbótarsamningur eftir að fá samþykki þjóðþinga. Mér sýnist allt benda til þess að samþykkt þessa samnings geti dregist til næstu áramóta og er kannski lítið um það út af fyrir sig að segja nema þá helst það að mér sýnist að hér sé helst bent á aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði sem eins konar bjarghring og jafnvel eina bjarghringinn fyrir íslenskt atvinnulíf. Og það er afar illt ef við ætlum að sitja hér með hendur í skauti og vísa atvinnulífinu á hið Evrópska efnahagssvæði. Ég vil að vísu taka það fram að ég held að sá bjarghringur muni reynast alveg sérstaklega haldlítill vegna þess hvernig staðan er í efnahagsmálum okkar Íslendinga og staða atvinnuveganna er. Ég óttast hins vegar að ef ríkisstjórnin ætlar sér að sitja aðgerðarlaus og eins og ég sagði vísa á hið Evrópska efnahagssvæði, þá er það tálvon ein. Og kannski því verri sem lengra dregst að þessu leyti. Ef hins vegar við tökum nú til hendi og styrkjum hið íslenska atvinnulíf, leggjum í markvissar aðgerðir, náum hér þjóðarsátt, ráðumst að ýmsum þeim meinum sem öllum eru að verða ljós að hér fara vaxandi, þá má vel vera að þessi lengri frestur sem við fáum verði okkur til góðs og hann gæti orðið til þess að við Íslendingar gerumst aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði á árinu 1994 betur undir það búnir heldur en við erum í dag. Ég veit ekki hvort rétt er að spyrja hæstv. utanrrh. um hugmyndir hans í þessum efnum. Það væri nær að spyrja hæstv. forsrh. sem ekki er hér staddur en væntanlega fáum við tækifæri til þess fljótlega.
    Aðeins til að draga þetta saman. Ég tek undir það með hæstv. utanrrh. að samningurinn eða þessi bókun er út af fyrir sig smáatriði eitt. En það er allt sem í kringum þetta er, kringum inngöngu okkar í Evrópska efnahagssvæðið er. Aðstaða okkar til að taka þar þátt er stóra málið og í öðru lagi framhaldið. Ég vona að tillaga um tvíhliða samning komi hér á dagskrá, ef ekki í dag þá örugglega á morgun og við getum þá rætt um málið mjög vandlega. Ég geri mér vonir um miðað við yfirlýsingar hæstv. ráðherra að hún fái byr í gegnum þingið og eyði þá töluverðu af þeirri óvissu sem við búum við í dag, en það eitt er samt ekki nóg. Við verðum að taka til hendi og styrkja atvinnuvegi okkar Íslendinga, draga úr atvinnuleysinu og vinna okkur sjálfir út úr þeim vanda sem við erum í í dag eins og við höfum gert svo oft áður.