Lokuð deild fyrir síbrotaunglinga

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 15:33:21 (6408)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Fyrir skömmu síðan var greint frá því í fréttum fjölmiðla að ríkisstjórnin hefði að tillögu hæstv. félmrh. ákveðið að veita 20 millj. kr. til þess að setja á stofn lokaða deild fyrir síbrotaunglinga yngri en 16 ára. Fyrirhugað er að taka þessa deild í notkun í maí á þessu ári. Jafnframt var sagt frá því að hæstv. félmrh. hefði óskað eftir því að lögum um sjálfræðisaldur yrði breytt þannig að ungmenni verði ekki sjálfráða fyrr en 18 ára í stað 16 ára eins og verið hefur. Haft var eftir hæstv. ráðherra að hún vildi láta kanna hvort ekki væri rétt að hækka sjálfræðisaldurinn svo hægt væri að beita svokallaðri lokaðri vistun í stað þess að dæma 16--18 ára unglinga til fangelsisvistar brjóti þeir af sér.
    Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir þessari umræðu utan dagskrár er ekki sú að ég sé á móti því að fjármagn sé veitt til þess að koma á fót lokaðri deild svo mögulegt verði að taka á málum nokkurra mjög ógæfusamra ósakhæfra unglinga. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða sem þarf að taka á og ég er viss um að allir hv. þm. eru mér sammála um það. Hins vegar var ég mjög hissa á því að málið skyldi ekki vera betur undirbúið áður en ákvörðun var tekin. Ég hef þá tilfinningu að sérstakur hörmulegur atburður, þar sem nokkur ungmenni unnu skemmdarverk á eigum manna, hafi orðið til þess að ákveðið var í skyndi án mikillar umhugsunar að koma á fót lokaðri meðferðardeild, nýrri stofnun. Linnulaus fréttaflutningur fjölmiðla af þessum atburði, myndbirtingar, vettvangsferðir og fullyrðingar þess efnis að þarna hafi verið á ferðinni hópur unglinga sem öll væru síbrotamenn, þótt síðar kæmi í ljós að það var ekki, hefur áreiðanlega ráðið miklu um flýti ráðherrans. Það voru sýndar myndir í sjónvarpi þar sem þessi ógæfusömu ungmenni voru leidd handjárnuð eða handjárnuð við grindverk, sett í lögreglubíla, þessu til staðfestingar, en þess ekki nægilega gætt að þau væru ókennileg. E.t.v. á þessi ákvörðun hæstv. ráðherra sér lengri aðdraganda og einhvern undirbúning en hafi svo verið þá hefur það hvergi komið fram.
    Við skulum ekki gleyma að það eru starfandi í landinu nokkrar stofnanir og heimili sem hafa fram til þessa sinnt því hlutverki að vista unglinga sem þurfa á aðstoð og umhyggju að halda, unglinga sem hafa komist í kast við lögin. Var kannað hvort ekki mætti bæta þessa aðstöðu þannig að hún fullnægði þeim kröfum sem gera þarf? Var það gert áður en ákvörðun var tekin um nýtt heimili eða nýja stofnun? Var haft samráð við þá aðila sem hafa fram til þessa sinnt málefnum síbrota- eða afbrotaunglinga, t.d. þá sem starfa að þessum málum á vegum Fangelsismálastofnunar og Unglingaheimilis ríkisins og óhjákvæmilega búa yfir töluverðri vitneskju og reynslu á þessu sviði?
    Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hversu mörg heimili eða stofnanir sinna þessum málum í dag og hversu sérhæfð þau eru. Röng ákvörðun um það hvað gera skuli við ungling á aldrinum 13--15 ára vegna afbrota getur haft slæmar afleiðingar. Það þarf að gaumgæfa vel hvert einstakt tilfelli og taka ákvörðun að vel athuguðu máli. Við hljótum í öllum tilvikum að miða að því að þessir unglingar bæti sig og snúi inn á heillavænlegri brautir. En til þess þarf að byggja á reynslu og sérþekkingu fjölmargra aðila og samvinnu þeirra á milli og ég vona svo sannarlega að það hafi verið gert og verði gert.
    Þá kem ég að hinu aðalatriðinu í máli hæstv. ráðherra sem ég nefndi í upphafi, þ.e. hækkun á sjálfræðisaldri til þess að geta beitt svokallaðri lokaðri vistun í stað fangelsis sem refsingu fyrir afbrot 16--18 ára unglinga. Í þeim viðtölum sem fjölmiðlar hafa átt við hæstv. ráðherra og ég hef heyrt hefur gætt nokkurs misskilnings. Þar hefur verið gefið í skyn að það dugi að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár svo hægt verði að beita lokaðri vistun á meðferðardeild, sem er refsiúrræði, í stað fangelsisvistar. Þetta kemur t.d. skýrt fram í viðtali sem Stöð 2 átti við hæstv. félmrh. 4. mars sl. og ég hef í fórum mínum. Þetta er ekki rétt. Samkvæmt gildandi lögum verður unglingur sakhæfur í dag þegar hann hefur náð 15 ára aldri og á þá rétt á eðlilegri málsmeðferð í dómskerfinu brjóti hann af sér. Hann verður hins vegar ekki sjálfráða fyrr en 16 ára og þótt þeirri viðmiðun verði breytt er ekki sjálfgefið að aldursmörk sakhæfis breytist.
    Vistun unglings í fangelsi er vissulega neyðarúrræði. Það á ekki og er ekki gert að beita frelsissviptingu sem refsingu ef önnur úrræði eru möguleg. Ég er þeirrar skoðunar að einu gildi hvort um er að ræða lokaða deild, sem hugsanlega gæti borið nafnið heimili og heyrt undir félmrn., eða stofnun sem heitir Kópavogsfangelsi og heyrir undir dómsmrn. Munurinn er e.t.v. sá að afbrotamaður sem er 15 ára eða eldri og telst sakhæfur er ekki vistaður á lokuðu heimili án undangenginnar málsmeðferðar í dómskerfinu. Hins vegar má svipta þá frelsi sem ekki eru sakhæfir án þess að um mál þeirra sé fjallað í dómskerfinu.
    Í báðum tilvikum er um frelsissviptingu að ræða og mjög miklu skiptir að þeir sem starfa á lokuðum deildum, hvort sem er á vegum barnaverndarmála eða fangelsisstofnana, sinni sínu hlutverki af kostgæfni. Ég tel eðlilegt ef niðurstaðan er sú að nauðsynlegt sé að reka lokaða meðferðardeild fyrir unglinga að 15 ára aldri sem brotið hafa af sér að slík deild heyri undir félmrn. Jafnsjálfsagt er að brjóti unglingur sem telst sakhæfur af sér og hljóti hann dóm um vistun á lokaðri stofnun eða heimili (Forseti hringir.) --- ég er rétt að ljúka máli mínu, virðulegi forseti --- heyrir slíkt mál að sjálfsögðu undir dómsmrn. Ég sé enga ástæðu til þess að hækka aldursmörk sakhæfi. Það tel ég vera skerðingu á réttindum þeirra 8.000--9.000 unglinga sem á þessum aldri eru og fæstir þeirra brjóta af sér.
    Ég vil einnig minna á frv. til laga um samfélagsþjónustu, sem hér er til meðferðar, þar sem refsiúrræði eru ekki innilokun heldur vinna í þágu samfélagsins. Í þeim löndum þar sem reynsla er komin á þetta refsiúrræði er því gjarnan beitt þegar um afbrot unglinga er að ræða. Hækkun á sjálfræðisaldri má að sjálfsögðu ræða en, virðulegi forseti, ekki eingöngu út frá refsiúrræðum. Þá umræðu þarf að byggja á öðrum og víðtækari grunni.