Lokuð deild fyrir síbrotaunglinga

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 15:50:48 (6412)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu eitt viðkvæmasta og dapurlegasta mál sem snertir þjóðfélag okkar. Málið snýst um það hvernig bregðast skuli við gagnvart unglingum sem sífellt brjóta af sér og missa tökin á tilverunni. Á að vista þá nauðuga á lokaðri deild tímabundið og í tilraunaskyni? Er til leið sem veitir einhverja von til þess að hægt sé að koma þessum bágstöddu börnum til hjálpar þannig að framtíð þeirra bjóði upp á eitthvað annað og betra en fangavist og aftur fangavist?
    Auðvitað liggur rótin að erfiðleikum og atferli unglinga í mörgum samverkandi þáttum. Oft koma þessir einstaklingar úr fjölskyldum sem eiga í erfiðleikum og eru í óreglu en þó er það alls ekki einhlítt. Því miður eru margir sem ná aldrei að finna sig innan skólans, skaðast bókstaflega af skólavist þar sem þeir voru alltaf að tapa og urðu alltaf undir og því miður er einelti staðreynd í íslenskum skólum. Það þarf sérstök úrræði fyrir slík börn, úrræði sem byggjast ekki fyrst og fremst á að þau standi skil á miklu námi, en hins vegar efli áhugasvið þeirra sem flestallir eiga einhver í bernsku sinni önnur en að eyðileggja.
    Ungt fólk er tápmikið fólk. Það þarf að hafa eitthvað fyrir stafni. Rannsóknir hafa sýnt að íþróttaiðkun hefur mjög góð uppeldisleg áhrif á börn og unglinga. Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var sagt frá áhugaverðri aðferð nágranna okkar, Grænlendinga, til þess að draga úr glæpatíðni meðal barna og unglinga. Þar sagði frá því að afvegaleidd börn fengu það verkefni að búa til 6,6 tonna fjall af ís sem síðan var boðinn bæjarbúum til átu um sl. helgi. Það tók börnin fjórar vikur að ljúka verkinu og fækkaði afbrotum um helming á þeim fjórum vikum.
    Að mati lögreglunnar í Reykjavík eru alls á milli 10 og 15 unglingar sem eru afar illa á vegi staddir. Afbrotaskrá þessara unglinga er löng og þeir hafa valdið meðborgurunum miklu tjóni. Kannski er eina leiðin sú að loka þá inni tímabundið og jafnframt þá að veita þeim félagslega aðstoð. Hættan við einangrun er hins vegar sú að þeir komi tvíefldir út að lokinni vistun með hefndarhug í garð þjóðfélagsins, á móti kerfinu. Því þarf að vanda vel til þess verks að loka unglinga inni á stofnun og beini ég þeim orðum mínum sérstaklega til hæstv. ráðherra.