Lokuð deild fyrir síbrotaunglinga

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 15:56:08 (6414)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla um hækkun sjálfræðisaldurs en ég er mjög efins um það atriði. Vistun er dýrt úrræði en slík aðstaða þarf að vera fyrir hendi í landinu. Ég tel að það þurfi að gera fyrirbyggjandi starf miklu markvissara en það er. Vistun unglings á heimili eins og á Tindum kostar 500 þús. kr. á mánuði. Vistheimilið Tindar er dæmi um heimili þar sem hlutirnir hafa ekki heppnast eins og ætlað var. Ég tel að byrgja eigi brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Þetta er hægt að gera með því að einangra gikkina í hverri verstöð í tíma. Börn og unglingar þurfa aga, vinnu og ástúð. Oftast koma þessi börn frá heimilum sem eru í rúst vegna óreglu eða fjárhagserfiðleika. Það eru ekki bara börnin sem þurfa hjálp, foreldrarnir þurfa hana einnig.
    Varnarkerfi okkar er bæði veikt og seinvirkt. Ég tel að styrkja beri starf skólahjúkrunarfræðinga og að lækna- og félagsmálastofnanir skerist fyrr í leikinn en gert er. Enn fremur í stað þess að byggja í sífellu heimili að semja við góð sveitaheimili um vistun til lengri eða skemmri tíma. Góð sveitaheimili hafa upp á allt að bjóða til að aga og bæta börn og ungmenni. Fyrir slíka þjónustu þarf að vísu að greiða sanngjarnt kaup. Slíkt aga- og uppeldisstarf þarf að fara fram undir eftirliti færustu manna. Svo er hitt að efla hin frjálsu íþrótta- og ungmennafélög. Barn eða unglingur, sem stundar slíka iðju, er bólsettur gegn ávana- og fíkniefnum.
    ,,Enn aukast vandræðin, kerling,`` sagði Björn í Mörk og það er hlægilegt að sjá hér stjórnarliða koma upp og verja sig og segjast vilja gera alla hluti. Þeir leyfðu sér það í fjárlagagerðinni í vetur að skera framlög til Ungmennafélags Íslands og Íþróttasambands Íslands niður um hvorki meira né minna en 5 millj. á þessum viðkvæmu tímum. Þetta skulu þeir leiðrétta í næstu fjárlagagerð áður en þeir þvo hendur sínar í skálinni í ræðustól Alþingis því að engin vörn er jafnmikilvæg gegn þessum voða eins og að temja börnin í íþróttahúsunum í landinu.