Lokuð deild fyrir síbrotaunglinga

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 15:58:42 (6415)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil að það komi fram að mér finnst mjög miður að það skuli yfirleitt haga þannig til í málum eins og þessu að gripið sé til aðgerða og að fjölmiðlafár skuli þurfa til svo að umræða eigi sér stað á þinginu. En ef svo er þá verður það bara þannig að vera, þá er kannski andvaraleysi stjórnmálamanna um að kenna.
    Það er mín skoðun að það hafi verið þörf á lokaðri deild fyrir unglinga, deild þar sem þeir fá mjög skýr skilaboð um það að ekki standi til að gefast upp á þeim og þessi skilaboð þurfa að vera mjög skýr. Það er hins vegar bara önnur hliðin á þeim peningi sem hér er til umræðu. Hin hliðin er sjálfræðisaldurinn og til að slíkt úrræði nýtist held ég að þurfi að hækka sjálfræðisaldur. Þá kemur umræða um sjálfræðisaldurinn auðvitað ekki bara inn á þessa unglinga, heldur tengist hún unglingum almennt, ábyrgð samfélagsins gagnvart unglingum og þar á meðal unglingum í vímuefnaneyslu. Ég held að ákaflega fátt tapist við að hækka sjálfræðisaldurinn. Það þýðir ekki það að börn og unglingar séu gerð ábyrgðarlaus þó að sjálfræðisaldurinn sé hækkaður upp í 18 ár. Auðvitað bera þau ábyrgð á gerðum sínum eftir sem áður en ábyrgðin er sameiginlega þeirra, foreldranna og samfélagsins alls.
    Ég vil benda á þær mótsagnir sem eru í íslensku samfélagi í dag. Við erum með börn sjálfráða 16 ára og barnabætur eru þar af leiðandi aðeins greiddar upp að 16 ára aldri. Þau verða hins vegar ekki fjárráða fyrr en þau eru 18 ára og framfærsluskyldu foreldra lýkur ekki fyrr en um 18 ára aldur. Mér finnst stundum að ástæðan fyrir því að við höldum í 16 ára sjálfræðisaldur hér þegar hann er miðaður við 18 ára aldur í löndunum í kringum okkur og í barnasáttmálanum sé einfaldlega að samfélagið sé að firra sig ábyrgð á þessu fólki sem er ekki annað en börn enn þá þó að náð hafi 16 ára aldri og að hreinlega sé verið að spara. Það kostar sjálfsagt talsverða fjármuni ef sjálfræðisaldur væri hækkaður upp í 18 ár og barnabætur, barnabótaauki og annað slíkt greitt með þeim til 18 ára aldurs.