Rannsóknir á innfluttum matvælum

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 10:47:33 (6427)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. mín er til hæstv. landbrh. á þskj. 623 og er svohljóðandi:
    ,,Hvernig er rannsóknum á innfluttum matvælum, einkum grænmeti, háttað?``
    Við Íslendingum stöndum frammi fyrir síauknum innflutningi á matvælum þrátt fyrir að við séum fyrst og fremst matvælaframleiðendur. Of lítill áhugi virðist vera á að sporna gegn innflutningi, þvert á móti er stöðugt þrýst á meiri innflutning. Við höfum hér flest skilyrði fyrir hendi til að framleiða bestu hugsanlegu matvæli. En framleiðsla grænmetistegunda ýmiss konar er dýrari hér á landi en almennt gerist sökum þess hversu norðarlega við búum. Í staðinn höfum við mikið af ónýttri orku sem getur gert okkur samkeppnisfær á við innflutning ef rétt er að málum staðið og jafnvel getur gert okkur meira en samkeppnishæf. Við eigum æ meiri möguleika á útflutningi vegna sívaxandi mengunar iðnríkja heims.
    Við eigum alla möguleika að bjóða hér hreina vöru. Því væru það hrapalleg mistök ef við hugsum ekki alvarlega um það að vernda þá merkilegu uppbyggingu sem orðið hefur í garðyrkju en það getum við gert m.a. með því að gera meiri kröfur til innflutnings en við gerum nú.
    Virðulegi forseti. Fsp. mín er komin til vegna þess að ég tel að innflutningur sé ekki undir þeirri ströngu gæslu sem við hljótum að gera kröfu til. Við vitum að notkun eiturefna er lítil í garðyrkju hér á landi, m.a. vegna þess að strangar kröfur eru gerðar til hollustu grænmetis hér. Notkun vafasamra eiturefna er í mörgum tilfellum ódýr lausn og leyfileg í sumum löndum Evrópu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvaða tækni við notum við sýnatöku á innfluttum matjurtum. Mig langar að spyrja hæstv. landbrh. hvort hann telji að við séum nægilega tæknivædd á þessu sviði.
    Annað atriði sem ég vil minnast á er hvernig rannsóknum á unnum vörum úr jurtaríkinu, svo sem sultutaui, ávaxtamauki, pakkasúpum, kornflögum o.s.frv. er háttað. Það er ekki vafi á að það er nauðsynlegt að fylgjast með þessum vörum betur en nú er gert.
    Mig langar einnig að spyrja hæstv. landbrh.: Hvaða eftirlit er með innflutningi á matvörum, t.d. pitsum og kínarúllum, sem innihalda bæði kjöt og fisk?
    Virðulegi forseti. Fsp. mín er komin til vegna þess að ég tel að við gerum ekki nægilegar kröfur til gæða innfluttra matvæla.