Rannsóknir á innfluttum matvælum

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 10:50:43 (6428)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Svar við þessari fsp. er tekið saman af Sigurgeiri Ólafssyni, sérfræðingi hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, í samráði við Hollustuvernd ríksins.
    Rannsóknarstofnun landbúnaðarins hefur eftirlit með innflutningi plantna og plöntuafurða með tilliti til plöntusjúkdóma og meindýra. Stofnunin metur það svo að hættan á að matjurtir beri með sér plöntusjúkdóma og plöntumeindýr sem hér gætu valdi tjóni sé minnst í ávöxtum, meiri í grænmeti og mest í kartöflum. Því er í eftirliti stofnunarinnar mest áhersla lögð á eftirlit með kartöflum. Samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, er eftirlit með innflutningi matvæla almennt, m.a. með tilliti til aðskotaefna í höndum Hollustuverndar ríkisins.
    Undanfarin rúm tvö ár hefur starfað vinnuhópur á vegum Hollustuverndar við að semja reglugerð um aðskotaefni í matvælum og öðrum neysluvörum. Þar eru ákvæði um markgildi fyrir hin ýmsu efni, m.a. hin fjölmörg þeirra varnarefna sem notuð eru við ræktun matjurta. Ákvörðun slíkra markgilda er forsenda þess að unnt sé að hafa eftirlit með aðskotaefnum í matjurtum. Er þessu verki nær lokið. Samkvæmt samningi milli Evrópubandalagsins og EFTA um upplýsingaskipti fellur slík reglugerð að öllum líkindum undir tæknilegar reglugerðir sem á að kynna EFTA og Evrópubandalagsríkjum áður en þær eru settar og skal þá fresta gildistöku um sex mánuði. Er því óvíst hvenær þessi reglugerð tekur gildi.
    Reglugerð um aðskotaefni verður sett með stoð í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, og lögum um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, nr. 24/1936. Unnið hefur verið að gerð nýrra matvælalaga en ekki er vitað hvenær þau sjá dagsins ljós. Hollustuvernd hóf reglulega sýnatöku og mælingar á varnarefnum í matjurtum um mitt ár 1991. Alls voru þá rannsökuð 108 sýni og af þeim voru 35 af innlendu grænmeti. Skimað var fyrir 32 varnarefnum. Árið 1992 voru tekin 216 sýni, þar af var 61 af innlendum matjurtum. Árið

1991 fundust engar leifar varnarefna í íslensku grænmeti og einnig reyndist erlent grænmeti í góðu lagi. Eitthvað var um leifar sveppalyfja í ávöxtum en í einungis einu sýni reyndist magnið vera yfir þeim mörkum sem tillaga er um í drögum að reglugerð um aðskotaefni, samanber ársskýrslu Hollustuverndar ríkisins 1991. Niðurstöður síðasta árs hafa ekki birst en munu ekki ósvipaðar þeim frá fyrra ári. Ég vona að þessari fsp. sé svarað.