Rannsóknir á innfluttum matvælum

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 10:53:51 (6429)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin. En satt að segja finnst mér nú langt frá því að hann hafi svarað fsp. minni. Ég er að spyrja að því hvort hann telji nægilega langt gengið í rannsóknum á innfluttum matvælum. Hann gat þess hér að það væru gerðar rannsóknir og taldi að það hefðu fundist m.a. sveppalyf í innfluttum ávöxtum. Þá langar mig til að spyrja: Hvað er gert í slíkum tilvikum? Mér sýnist að þessar sýnatökur séu ekki mjög margar. T.d. árið 1992 eru tekin 216 sýni. Af þessum 216 sýnum er 61 sýni af innlendum matjurtum. Þetta tel ég ekki vera nægjanlegt. Ég tel að eftirlit sé ekki nægilega markvisst. Mig langar líka að spyrja og mér fannst það ekki koma fram í svari hans hvort við værum nægilega tæknivædd til að rannsaka þau efni sem þarf að rannsaka, bæði í innfluttum og innlendum matjurtum. Svo ræddi hann um innflutning á pottaplöntum og gerði það að aðalatriði sem er auðvitað stórt mál. En mig langaði að spyrja hann að því hvaða kröfur við höfum gert í sambandi við EES-samninginn um frelsi í plöntuinnflutningi. Mér skilst að plöntur flæði alveg óheft inn á Evrópumarkaðinn án þess að við getum gert miklar kröfur. Það sé frjálst flæði á þessum plöntum og kartöflum. Sem sagt, ég tel að það sé ekki nægilega rannsakað og það kom ekki fram í svari hans hér. Ég spurði hvernig háttað væri t.d. rannsóknum á ávaxtamauki og pakkasúpum o.s.frv. Það kom ekki fram í hans svari. Og ég saknaði þess.