Endurskoðun laga um ferðamál

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:04:26 (6433)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Þetta verð ég nú að kalla ákaflega óburðug svör hjá hæstv. ráðherra svo ekki sé meira sagt. En ég þakka honum fyrir engu að síður, samkvæmt venju, að hann skuli leggja á sig að koma hér upp í ræðustól. Þetta er auðvitað alveg hörmuleg niðurstaða hjá hæstv. ráðherra að koma hér upp eftir hartnær tvö ár og þurfa að lýsa því yfir að í því sem hann titlaði sem eitt af sínum forgangsverkefnum í embætti, að endurskoða lög málefni ferðaþjónustunnar, skuli honum ekkert hafa orðið ágengt. Ég skildi hæstv. ráðherra helst þannig að fjmrh. hefði eitthvert neitunarvald í þessum efnum. Af því að hann hefði ekki náð samkomulagi við fjmrh. um fjárhagsleg atriði þessa máls þá gæti hann sig hvergi hreyft og við það sæti. Þetta er auðvitað alveg gjörsamlega óþolandi ástand. Svona getur þetta ekki gengið. Hæstv. ráðherra hlýtur að átta sig á því að eitt er fjárveiting til ferðamála og ráðstöfun þeirra hluta, starfsskilyrða greinarinnar og annað er sá lagarammi og lagagrundvöllur sem ferðaþjónustan starfar samkvæmt. Það er mjög brýn þörf á endurskoðun ýmissa ákvæða þar alveg burt séð frá því hvaða fjármunum hæstv. ráðherra hefur úr að spila í gegnum Ferðamálaráð og hvernig skattlagningu ferðamála er háttað o.s.frv. Það er algerlega óviðunandi að menn komist ekki til þess sem löngu er orðið tímabært að endurskoða svo sem lagaákvæðin um rekstur ferðaskrifstofa og ferðaþjónustuaðila. Þau eru úrelt og standa rekstri smærri aðila á þessu sviði fyrir þrifum, til að mynda þær háu tryggingar sem settar eru fyrir rekstri án nokkurrar skilgreiningar á því hversu umfangsmikil veltan er. Þetta liggur alveg fyrir og ég fullyrði að þau ákvæði sem voru í frumvarpi til laga um ferðaþjónustu, fluttu á þinginu 1990--1991, væru til stórra bóta t.d. hvað þennan þátt snertir.
    Hæstv. ráðherra svaraði því afdráttarlaust að hann hefði ekki áhuga á því að endurflytja eða nýta þau þingmál sem ég spurði um. Þá liggur það fyrir og ég hlýt að taka það til athugunar og við fleiri hv. þm. að koma þessum málum á dagskrá þingsins með því að endurflytja þau mál eða eitthvað í líkingu þeirra úr því hæstv. samgrh. hefur hér gefið svör um það að hann komist hvorki lönd né strönd í þessum efnum.