Starfsskilyrði ferðaþjónustunnar

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:11:12 (6436)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. 13. ágúst sl. var samþykkt svohljóðandi ályktun og send samgrh.:
    ,,Fjölmennur fundur hagsmunaaðila íslenskrar ferðaþjónustu leyfir sér að beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. samgrh. að hann beiti sér fyrir að hafnar verði viðræður milli samgrn. og fjmrn. sem hafi það að markmiði að lækka álögur og skatt á atvinnugreininni frá því sem nú er. Jafnframt munu hagsmunaaðilarnir leita allra leiða til að lækka eigin kostnað.
    Það er skoðun fundarmanna að breytingar á núverandi skattlagningu muni hafa í för með sér auknar tekjur ríkissjóðs af ferðaþjónustu.``
    Hjálögð greinargerð frá fundum aðilanna gerir nokkra grein fyrir þeim mikla vanda sem ferðaþjónustan á við að etja hvað snertir hátt verðlag einstakra þátta. Takist ekki að stöðva þróun undanfarinna ára sjá aðilarnir fram á að alvarlegur samdráttur gæti orðið í þessari þýðingarmiklu atvinnugrein, bæði hvað viðkemur ferðum Íslendinga um landið og ferðum erlendra manna til Íslands. Í framhaldi af þessu varð að samkomulagi milli mín og hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. að skipuð yrði nefnd og var það gert með erindisbréfi 3. sept. sl. svohljóðandi, svo að ég lesi upp bréf til eins nefndarmanns sem skýrir markmið og tilgang þessara nefndarstarfa sem af tilviljun í þessu tilfelli er til Kjartans Gunnarssonar, deildarstjóra í viðskrn., og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hér með eruð þér skipaðir í viðræðunefnd samgrn., fjmrn. og viðskrn. um skattamál fyrirtækja í ferðaþjónustu.
    Nefndin skal í starfi sínu taka mið af hjálagðri ályktun hagsmunaaðila í ferðaþjónustu sem afhent var samgrh. í ágústmánuði sl. Með yður eru í nefndinni Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjmrh., og Pétur J. Eiríksson framkvæmdastjóri, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.``
    Þessi nefnd hefur síðan verið að störfum. Ég hafði ekki tök á að tala við formann nefndarinnar nú fyrir þennan fund þar sem hann er erlendis, en ég hef á hinn bóginn rekið á eftir því að nefndin skili niðurstöðum. Á þessari stundu bendir ekkert til að nefndin komist að sameiginlegri niðurstöðu.
    Spurt er: Var erindisbréfi nefndarinnar breytt í framhaldi af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja virðisaukaskatt á ýmsar greinar ferðaþjónustu sem áður voru undanþegnir? Svarið er nei.