Skráning og bótaréttur atvinnulausra

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:32:07 (6443)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Þessi fsp. mín tengist beint og óbeint þeirri hinni fyrri sem ég hef þegar borið hér fram, en þessi fsp. varðar skráningu og bótarétt atvinnulausra og er svohljóðandi:
    ,,Á hverju byggist sú túlkun 20. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að umsækjandi um atvinnuleysisbætur skuli ævinlega skrá sig hjá atvinnumiðlun eigi síðar en á sama vikudegi og hann síðast skráði sig, að viðlögðum missi bótaréttar?``
    Þetta er mjög hörð regla sem er í gildi hjá vinnumiðlunum þar sem hinn atvinnulausi lætur skrá sig. Reglan er einfaldlega sú að hinn atvinnulausi verður að koma til skráningar eigi síðar en á sama vikudegi og hann fyrst kom til skráningar. Komi maður á fimmtudegi og tilkynni sig atvinnulausan og skrái sig hjá vinnumiðlun, þá á hann að koma aftur í næstu viku á fimmtudegi og síðan alltaf á fimmtudegi og þá fær hann greiddar bætur í heila viku. Hann má koma fyrr en þá fær hann einungis greiddar bætur fyrir þann fjölda virkra daga sem á milli eru. Ef hann kemur hins vegar síðar, eins og kom fram hér áðan, þá fær hann ekkert. Ef hann kemur á föstudegi þá fær hann ekkert.

    Ég veit að orðanna hljóðan í 20. gr. er þannig að maður skuli skrá sig vikulega, en það segir ekki í þessari grein að einstaklingurinn eigi að skrá sig á sjö daga fresti. Það segir ekki að hann eigi að skrá sig á vikufresti heldur vikulega. Þetta er opið fyrir túlkun vegna þess að það er ákveðinn fjöldi vikna í árinu og þær eru númeraðar og núna erum við t.d. í 12. viku. Ef einstaklingurinn kemur 52svar sinnum í ári og alltaf í hverri viku sem telur, þá er það auðvitað vikulega. Hann kemur einu sinni í hverri númeraðri viku. Í túlkun þessara laga eins og hún er og eins og kom fram í minni fyrri fsp. og eins og ég held að komi fram í þessari túlkun líka á 20. gr., finnst mér vera ákveðin meinbægni í því hversu afdráttarlaust þau eru túlkuð hinum atvinnulausa í óhag. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra út í þetta mál líka og bæta því við hvort ráðherra sé kunnugt um að það hafi fallið eitthvert mál hjá dómstólum um þessa túlkun.