Skráning og bótaréttur atvinnulausra

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:34:43 (6444)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrstu lögin um atvinnuleysistryggingar, nr. 59/1956, virðast eingöngu hafa gert ráð fyrir því að sótt væri um bætur án þess að þau kveði nánar á um skráningarskylduna. Samkvæmt lögum um vinnumiðlun, nr. 52/1956, sem voru fylgilög með atvinnuleysistryggingalögunum, var það hlutverk vinnumiðlunar að annast atvinnuleysisskráningar 1. febr., 1. maí, 1. ágúst og 1. nóv. ár hvert og láta auk þess fara fram atvinnuleysisskráningar eftir fyrirmælum sveitarstjórnar eða félmrh. Með lögum nr. 70/1969 var gerð umtalsverð breyting á 15. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar um bótarétt. Þar kom inn nýtt ákvæði í 2. mgr. svohljóðandi, og er það bein tilvitnun, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að öðlast bótarétt verður umsækjandi að láta skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun samkvæmt lögum nr. 52 9. apríl 1956, um vinnumiðlun, að viðlögðum missi bótaréttar til næsta skráningardags. Verði meira en 12 dagar milli skráninga reiknast að auki sex daga biðtími. Geti umsækjandi ekki látið skrá sig vegna þess að hann er í vinnu eða veikur skal hann láta skrá sig næsta dag sem hann getur að viðlögum missi bóta samkvæmt framansögðu. Óheimilt er að greiða bætur fyrir atvinnuleysistímabil, sem ekki hefur verið skráð hjá vinnumiðlun lögum samkvæmt.``
    Í greinargerð með frv. segir svo um þessa breytingu orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nýmæli er í seinni málsgrein þessarar greinar. Þar er berum orðum kveðið svo á að skráning sé óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því að bótaréttur vinnist. Enn fremur eru ákvæði í þessari málsgrein um viðurlög sem við liggja ef skráningar eru vanræktar.``
    Í framsöguræðu með frv. sagði félmrh. svo, með leyfi forseta:
    ,,Kveðið er skýrt á um það í 2. mgr. 2. gr. frv. að skilyrði til þess að öðlast bótarétt verði því aðeins uppfyllt að umsækjandi láti skrá sig vikulega samkvæmt lögum um vinnumiðlun. Í þessari málsgrein er gert ráð fyrir viðurlögum um missi bótaréttar sem nánar er greint frá ef út af bregður með skráningu og er því enn fremur slegið föstu að óheimilt sé að greiða bætur fyrir atvinnuleysistímabil sem ekki hefur verið skráð hjá vinnumiðlun lögum samkvæmt. Þó að ákvæði þessu líkt hafi ekki verið í lögum gefur þó auga leið að bætur má ekki greiða nema skilyrði fyrir bótum séu sönnuð með vottorði frá vinnumiðlun.``
    Þessum ákvæðum varð ekki breytt í meðförum Alþingis og um það var engin umræða á hinu háa Alþingi. Lög um atvinnuleysistryggingar voru síðan endurskoðuð í heild sinni í byrjun áttunda áratugarins. Með þeim lögum var engin breyting gerð á framangreindu ákvæði um að skilyrði bótaréttar væri vikuleg skráning. Á hinn bóginn var fellt niður skilyrði um að ef meira en 12 dagar væru á milli skráningar, þá reiknaðist 6 daga biðtími, enda voru öll ákvæði um biðtíma vegna atvinnuleysisbóta felld niður við endurskoðunina.
    Með lögum nr. 29/1974 var gerð sú breyting á framangreindu ákvæði að dagleg skráning hjá vinnumiðlun var gerð að skilyrði bótaréttar í stað vikulegrar áður og veikindi jafnframt gerð að einu lögmætu ástæðunni fyrir því að umsækjandi léti ekki skrá sig. Og ég vil taka það fram til upplýsingar að þessi daglega skráningarskylda er í lögum víða um atvinnuleysisbætur. Í grg. með frv. segir svo um breytinguna, með leyfi forseta:
    ,,Þegar núgildandi lög um atvinnuleysistryggingar voru samin var þess ekki gætt að samræma síðustu mgr. 15. gr. laganna við afnám biðtíma sem voru sex dagar eftir eldri lögum. Í stað vikulegrar skráningar verður því að koma dagleg skráning samkvæmt lögunum um vinnumiðlun. Lagt er til að sú breyting verði lögfest.``
    Engin umræða varð heldur á Alþingi um þessa breytingu.
    Með lögum nr. 64/1981 var enn gerð heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar og eru þau lög að stofni til enn í gildi. Endurskoðun þessi á lögunum var í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga í október 1980 þar sem m.a. var lofað ýmsum breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar, svo sem rýmkun bótaréttar, lengingu bótatíma og breytingum á skráningu.
    Í 20. gr. laganna eru ákvæði um skráningu atvinnulausra eins og hv. fyrirspyrjandi vitnaði í. Greinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að öðlast bótarétt verður umsækjandi að láta skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun að viðlögðum missi bótaréttar. Geti umsækjandi ekki látið skrá sig vegna veikinda, skal hann láta skrá sig næsta dag, sem honum er unnt, að viðlögðum missi bóta samkvæmt framansögðu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að ákveða að á afmörkuðum svæðum og í tiltekinn tíma skuli skráning fara fram oftar en vikulega, enda verði slíkt talið eðlilegt með hliðsjón af atvinnuástandi.``
    Í greinargerð með frv. segir svo í athugasemdum við umrædda grein, með leyfi forseta:
    ,,Greinin fjallar um skráningu umsækjanda hjá vinnumiðlun. Hliðstæð ákvæði eru nú í 3. mgr. e-liðar 15. gr. gildandi laga. Í frv. eru ákvæði um að umsækjandi um bætur skuli skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun en í gildandi lögum er mælt fyrir um daglega skráningu.
    Í greininni er einnig nýmæli þess efnis að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs geti við tilteknar kringumstæður ákveðið að skráning fari fram oftar en vikulega.``
    Virðulegi forseti. Í lokin aðeins þetta. Skráningin er gerð til þess að sýna fram á að viðkomandi sé raunverulega í atvinnuleit og sé reiðubúinn til að taka því atvinnutilboði sem honum er gert. Löggjafinn taldi rétt að hann sýndi fram á þetta með skráningu eigi síðar en einu sinni í viku. Í mörgum löndum tíðkast það að viðkomandi þurfi að skrá sig daglega til þess að halda þessum réttindum. Eins og ég hef áður sagt hefur því miður borið á því að jafnvel hafi verið samþykkt atvinnuleysisskráning hjá fólki sem hefur verið erlendis í orlofi allt að þrjár vikur. Þá framkvæmd er nú verið að reyna að stöðva og samræma bæði skráningu og úthlutunarreglur úthlutunarnefnda og vænti ég þess að sú samræming verði tilkynnt innan skamms.