Skráning og bótaréttur atvinnulausra

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:43:21 (6446)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um að neinir dómar hafi fallið um þessi mál, enda hefur kannski ekki verið eins rík ástæða til þess að dómstólar fjalli um slík málefni og kann að vera nú þegar atvinnuleysi er orðið allmikið í landi okkar.
    Um það sem hv. þm. spurðist fyrir um, um framkvæmd atvinnuleysisbótagreiðslna til Íslendinga sem færu til annarra landa innan EES-svæðisins, þá liggur auðvitað alveg fyrir hvernig það er gert. Menn verða einfaldlega að lúta þeim reglum um skráningar sem gilda í því landi þar sem þeir eru. Það hvílir á viðkomandi einstaklingi sú kvöð að hann verður að kynna sér hverjar þær reglur eru. Hann fær hins vegar sömu greiðslur vegna atvinnuleysis hans í því landi sem hann er og aðrir borgarar þess lands og það er atvinnuleysistryggingasjóður viðkomandi lands sem sér um greiðslu þeirra eftir þeim reglum sem þar gilda en getur hins vegar innheimt fjárhæðina sem hann þarf að greiða hjá fæðingarlandi mannsins eða hjá Íslandi í þessu tilviki. Þetta liggur alveg fyrir.
    Um að verja vondan eða góðan málstað vil ég ekkert segja. Þetta er sá málstaður sem hefur verið Alþingis og löggjafans vegna þess að Alþingi og löggjafinn hafa ákveðið að þetta skuli vera svo og mér ber að sjálfsögðu skylda til þess sem heilbrrh. að greina frá því í svari við fsp. hvernig lögin hafa verið sett í landinu og hver áhrif þeirra eru. Um að það sé einhver munur á einni viku og sjö dögum sé ég ekki því að hin almenna regla er a.m.k. sú að það eru sjö dagar í hverri viku og ef menn ræða um að það skuli skrá sig eigi síðar en einni viku eftir síðustu skráningu, þá þýðir það einfaldlega á mæltu máli að ef síðasta skráning er á fimmtudegi og næsta skráning á að vera eigi síðar en viku síðar, þá hlýtur hið háa Alþingi að eiga við með slíkum lögum að skráningin skuli fara fram eigi síðar en á fimmtudegi í næstu viku því að þá er ein vika liðin frá því að skráning átti sér stað síðast. Ég tel að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs fari ekki fram hjá vilja Alþingis með að túlka þetta svo.