Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 12:04:23 (6448)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Við flytjum hér tveir þingmenn till. til þál. um tvíhliða samning við Evrópubandalagið. Meðflm. minn er hv. þm. Halldór Ásgrímsson. Við flytjum þessa tillögu af því að okkur sýnist orðið afar brýnt að marka framtíðarstefnu fyrir okkur Íslendinga í þessu mikilvæga máli. Ég ætla alls ekki að gera að umræðuefni samningana sem hafa verið gerðir. Við höfum rætt þá ítarlega og lengi. Þeir eru staðreynd. En hins vegar þýðir það ekki að óvissu fram undan sé eytt. Þvert á móti hygg ég að óvissan um stöðu okkar Íslendinga í Evrópska efnahagssvæðinu og því sem við kann að taka sé meiri nú en nokkru sinni fyrir.
    Í fyrsta lagi vitum við ekki hvenær hið Evrópska efnahagssvæði tekur endanlega gildir. Það breytir kannski ekki öllu í þessu sambandi en það sem er þó öllu mikilvægara er að sú breyting hefur orðið frá því að við ákváðum að kanna samninga við Evrópubandalagið að flest ríki EFTA hafa ákveðið að sækja um fulla aðild og hafa aðildarumsóknir þeirra nú verið samþykktar af Evrópubandalaginu. Þessi ríki eru Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Noregur og þær viðræður eru hafnar.
    Mér er tjáð að á þessum fyrstu fundum hafi í fyrsta lagi verið lagt til hliðar það sem samkomulag er um en viðræður séu nú að hefjast um þau atriðin sem erfiðari eru. Af því fara að vísu tvennar sögur hve hratt þetta muni þróast. Þjóðirnar gera sér vonir um að fá fulla aðild að Evrópubandalaginu árið 1995 en aðrir telja að svo muni vart verða, heldur muni það dragast kannski ár til viðbótar.
    En þetta breytir engu. Þrjú til fjögur ár eru afar skammur tími í sögu þjóðar og það er áreiðanlega mjög mikilvægt fyrir okkur að ákveða nú hvernig við ætlum að halda á okkar málum þegar þessar þjóðir hafa gerst aðilar og eftir sitjum við kannski með Liechtenstein í EES og í EFTA með Sviss og Liechtenstein. Ég er síður en svo að gera lítið úr þeim ágætu ríkjum en ég held að allir sjái að staðan verður þá afar erfið og má reyndar heita útilokað mál að halda úti þeim stofnunum sem gert er ráð fyrir að EFTA geri sín megin í sambandi við hið Evrópska efnahagssvæði.
    Það hefur jafnvel verið um það rætt að hið Evrópska efnahagssvæði gæti orðið eins konar biðsalur fyrir löndin í Austur-Evrópu. Lönd eins og Pólland, Tékkóslóvakía og Ungverjaland hafa verið nefnd í því sambandi. Ég held að slíkt mundi hafa í för með sér svo róttækar breytingar á EES að það hljóti að vera stór spurning fyrir okkur Íslendinga hvort við eigum heima í því ágæta samfélagi eftir slíkar breytingar. Aftur vil ég taka það skýrt fram að ég er síður en svo að gera lítið úr þessum ríkjum en staðreyndin er sú að þau eiga langa leið fram undan í að ná því sem t.d. við Íslendingar höfum náð og EFTA-ríkin almennt hafa náð. Ég hygg að samstarf við þessi ríki gæti orðið afar erfitt. Af þessari ástæðu líka er afar mikilvægt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því hvert við ætlum að halda.
    En það er fleira sem styður það að tekið sé af skarið í þessum málum. Hér heima eru vangaveltur. Hér er atvinnulífið afar veikt um þessar mundir og því miður virðist fátt benda til þess að það styrkist í náinni framtíð og a.m.k. ekkert gert til þess af stjórnvalda hálfu. Við þessar aðstæður er e.t.v. skiljanlegt að menn velti upp hinum ýmsu möguleikum til þess að bjargast úr þeim vandræðum sem nú eru. Hér hafa menn jafnvel nefnt að til greina kæmi fyrir okkur Íslendinga að sækja um aðild. Ég vek athygli á grein sem birtist í DV í gær eftir hv. þm. Vilhjálm Egilsson þar sem hann, að vísu með spurningarmerki, slær því fram hvort ekki sé nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að sækja um aðild til þess að hafa áhrif á gerðir Evrópubandalagsins. Hvílíkur barnaskapur, leyfi ég mér að segja. Ég kem að því síðar.
    Hér hafa aðrir þingmenn, eins og hv. þm. Björn Bjarnason, verið með svipaðar vangaveltur svo það dylst engum hvað býr þarna undir. Og ég vek athygli á því að einn þingmaður hv. þm. Karl Steinar, hefur gengið lengra, svo maður nefni ekki aðila utan þings eins og Samband ungra jafnaðarmanna eða Félag ungra jafnaðarmanna. Ég vek einnig athygli á nýlegum fundi í Verslunarráði þar sem meiri hlutinn felldi að vísu tillögu um að sækja um að gerast aðilar en meiri hlutinn samþykkti hins vegar að sækja um aðild.
    Það er dálítið athyglisvert að menn hafa gjarnan þann rökstuðning fyrir slíku að þá fáum við að vita um hvað við getum samið. Ég veit að hæstv. utanrrh. hlýtur að vera mér sammála um að það þarf ekki að sækja um aðild til að vita það. Við höfum átt viðræður saman m.a. við forustumenn um hvað slíku mundi fylgja og kem ég að því nánar síðar.
    Ég vil orða það svo að með því að sækja um aðild og hefja þær viðræður allar sem því mundu fylgja þá eru menn í raun að dáleiða sig inn í Evrópubandalagið. Staðreyndin er nefnilega sú að á meðan það er gert yrði annað látið sitja á hakanum. Þá yrði þetta eins konar nýr bjarghringur fyrir íslenskt atvinnulíf í aðgerðarleysi hæstv. ríkisstjórnar. Slíkt má að sjálfsögðu alls ekki eiga sér stað.
    Af þessari ástæðu einnig er afar mikilvægt að hið háa Alþingi marki þá stefnu nú að sækja skuli um tvíhliða samning og stefnt verði að því að slíkur tvíhliða samningur geti tekið gildi um leið og þau EFTA-ríki sem hafa sótt um aðild fá hana.
    Ég sagði áðan að mér finnst það mikill barnaskapur að leika sér þannig að eldinum, eins og ég má kalla það, að ætla sér að sækja um aðild, taka þátt í því í tvö, þrjú, fjögur ár og hvað gerist svo? Við ákváðum að sækja um aðild að EES. Við urðum í lokin að sætta okkur við alls konar hluti sem við ætluðum okkur ekki að sætta okkur við í upphafi eins og hér hefur verið rakið í ítarlegum umræðum. Menn hafa ýmsar skýringar á því og telja það mismunandi hættulegt og ætla ég ekki að fara út í það en þetta er staðreynd. Við náðum að sjálfsögðu hvergi nærri því fram sem við ætluðum okkur í upphafi, því miður.
    Staðreyndin er sú að um Evrópubandalagið og stofnanir þess liggja fyrir gífurlega miklar upplýsingar. Ég vek t.d. athygli á þessari ágætu bók sem þingmenn hafa fengið eftir Stefán Má Stefánsson, Evrópuréttur. Þar er hægt að lesa sér til, m.a. er Rómarsáttmálinn þar birtur sem er stjórnarskrá Evrópubandalagsins. Þar eru líka miklar skýringar og nokkur atriði sem gjarnan hafa verið nefnd í þessu sambandi. Í fyrsta lagi hefur það hvað eftir annað verið nefnt með réttu að Rómarsáttmálinn gerir ráð fyrir því að stefnan í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum verði sameiginleg fyrir öll ríki EB og sem betur fer hafa flestir áttað sig á því að sú stefna hentar ekki okkur Íslendingum. Í þessu riti er töluvert fjallað um þessa sameiginlegu stefnu í sjávarútvegsmálum. Eins og þar kemur fram er hún enn þá þannig að innan við 12 sjómílur ráða ríkin sjálf er slíkt er þó til endurskoðunar, minnir mig, árið 1993.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa aðeins kafla um það. Þar segir:
    ,,Sjávarútvegur var upphaflega álitinn hliðargrein landbúnaðarmála. Þörfin fyrir sérstaka stefnu EB í sjávarútvegsmálum kom ekki fram fyrr en eftir 1970. Fram að þeim tíma nægðu aðildarríkjum þau fiskimið sem til ráðstöfunar voru og mönnum var ekki almennt orðið ljós sú hætta sem stafaði af ofveiði.
    Það var ekki síst fyrirhuguð aðild Bretlands, Noregs, Írlands og Danmerkur sem ýtti á mótun stefnu í sjávarútvegi. Árið 1970 samþykkti ráðið tvær reglugerðir um skipulag fiskveiðistefnu og um stefnu í fiskmarkaðsmálum. Fyrrgreinda tilskipunin varðar jafnan aðgang aðildarríkjanna að fiskimiðum bandalagsins og heimild ráðsins til að setja reglur um verndun fiskstofna. Þar sem áðurnefnd ríki voru andvíg reglunni um jafnan aðgang varð niðurstaðan sú að í samningum fyrrgreindra ríkja um aðild að EB voru ákvæði um tíu ára aðlögunartíma en á þeim tíma skyldu þau hafa einkarétt til fiskveiða innan 12 mílna fiskveiðilögsögu sinnar.
    Eftir miklar umræður og ágreining tókst loks snemma á árinu 1983 að koma á heildarstefnu EB í sjávarútvegsmálum. Áður hafði náðst samkomulag um að aðildarríkin færðu fiskveiðilögsögu sína í 200 mílur og að stofnanir EB hefðu umboð til að semja við ríki utan EB og við alþjóðastofnanir um fiskveiðar.
    Grundvöll að núgildandi sjávarútvegsstefnu leggur reglugerð nr. 170/83. Samkvæmt ákvæðum hennar skal koma á sameiginlegri skipun mála um vernd og stjórn fiskiauðlinda. Einnig var lögfest reglugerð um tæknilegar ráðstafanir til verndar fiskstofnum.
    Hin sameiginlega stefna EB er í höndum framkvæmdastjórnarinnar. Tvær nefndir embættismanna

frá aðildarríkjunum eru framkvæmdastjórninni til ráðuneytis um framkvæmd fiskveiðistefnunnar. Fjallar önnur um fiskafurðir en hin um fiskstofna.``
    Hér er síðan greint nákvæmlega frá því hvernig þessi stefna er en ég vil ekki lengja þessa umræðu með því að lesa það allt saman, það er nokkuð langt mál. En það sem ég vildi leggja áherslu á með þessum lestri er að það var ekki átakalaust fyrir ráð Evrópubandalagsins að ná fram sameiginlegri fiskveiðistefnu vegna þess að sum ríki sem sérstaklega byggðu á fiskveiðum, sem sum eru nú orðin aðilar, eins og Bretland, Írland og Danmörk, voru þessu mótfallin. Engu að síður tókst að pressa í gegn sameiginlega stefnu og nýting fiskimiðanna er í höndum ráðsins í Brussel. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga því þeir eru til sem telja jafnvel að við Íslendingar gætum fengið sérstaka meðferð í sambandi við fiskveiðimálin.
    Það er að mínu mati mjög mikill barnaskapur. Sjálfur hef ég haft tækifæri til þess að nefna slík mál við forustumenn í EB. Ég nefni m.a. að við hæstv. utanrrh. áttum mjög fróðlegan fund með forseta Frakklands í ráðherrabústaðnum haustið 1989, ef ég man rétt, og ræddum slíka hluti. Þar kom mjög greinilega fram að varanleg frávik frá Rómarsáttmálanum kæmu ekki til greina. Þetta kom mjög greinilega fram.
    Hitt er svo annað mál að menn hafa fengið aðlögunartíma og ég spyr: Er einhver sem sættir sig við það að við Íslendingar fáum að ráða okkar fiskimiðum, við skulum segja, í 10 eða 12 ár? Ekki geri ég það. Ég segi aftur að 10 eða 12 ár er afar stuttur tími í sögu þjóðar. Ég tel því að með hvers konar samningum um sameiginlega fiskveiðistefnu þá værum við Íslendingar að fórna sjálfstæði okkar, ekki bara efnahagslegu, hygg ég, heldur einnig þjóðlegu sjálfstæði.
    Mér gafst einnig tækifæri til að minnast á þessa hluti almennt í heimsókn til Þýskalands 1988 með forseta Íslands. Þá var ég utanrrh. Þá hittum við Kohl kanslara og það kom mjög greinilega fram nákvæmlega þetta sama hjá honum, að varanleg frávik frá Rómarsáttmálanum kæmu alls ekki til greina. Ég gæti nefnt fleiri slík dæmi eins og fund sem ég átti með Margréti Thatcher þar sem slíka hluti bar á góma.
    Ég tel að allar hugmyndir um það að við fengjum einhvers konar varanlega undanþágu frá sameiginlegri fiskveiðistefnu, eftir allt það sem á undan er gengið til að ná í gegn sameiginlegri fiskveiðistefnu, sé satt að segja ótrúlegur barnaskapur og sýni ekki raunhæft mat á því sem hér er um að ræða.
    Annað atriði sem vert er að hafa í huga eru hinir ytri tollar EB. Samkvæmt Rómarsáttmálanum ákveður ráðið í Brussel og framkvæmdastjórnin hina ytri tolla og menn eru skuldbundnir til þess að gangast undir þá tolla. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum, eins og hæstv. utanrrh. hefur lýst hvað best, að í raun er EB einhver harðasta verndunarsamstæða þjóða sem til er í heiminum í dag. Hefur hann kallað það ýmsum nöfnum í því sambandi. Ég held að þetta sé alveg hárrétt hjá hæstv. utanrrh. Við Íslendingar eru í þeirri ánægjulegu stöðu að við eigum ágæt viðskipti við Bandaríkin og Japan og reyndar fleiri þjóðir og ég vona að menn geti tekið undir að það væri ekki góð þróun að færast inn fyrir tollmúra Evrópubandalagsins gagnvart slíkum ágætum viðskiptaþjóðum.
    Það er ýmislegt fleira sem mætti nefna og ég kem að síðar en ég ætla aðeins að drepa niður á örfáum stöðum í þessari ágætu bók. Hér er m.a. fjallað um hvað felst í fullri aðild. Þar segir með, leyfi forseta:
    ,,Gera skal sérstakan samning við hið nýja aðildarríki um þau réttindi sem þau hljóta og þær skyldur og skilyrði sem þau taka á sig og ganga að við inngönguna. Aðilar að því samkomulagi eru aðildarríki EB annars vegar og það ríki sem óskar inngöngu hins vegar. Slíkir samningar fela að jafnaði í sér að allur fyrirliggjandi EB-réttur (þar á meðal taldir þjóðréttarsamningar sem EB kann að hafa gert við ríki utan EB og dómafordæmi dómstóls EB) skuli einnig gilda fyrir hin nýju ríki. Af þessu leiðir að hin nýju ríki verða að jafnaði bundin við allar gildandi réttarheimildir EB.``
    Mönnum hefur satt að segja þótt nokkuð mikið sem við bindumst með aðild að EES en hér er um miklu meira að ræða. Hér er hið rétta skýrt tekið fram af þessum fræðimanni, að menn eru bundnir af öllum samþykktum Evrópubandalagsins til þess tíma og kem ég síðar að þeirri draumsýn að við kynnum að hafa þar einhver mikil áhrif á það sem síðar gerist. --- Það segir meira, með leyfi forseta:
    ,,Í þessu felst að sjálfsögðu einnig að ný aðildarríki verða að tryggja í stjórnskipunarlögum sínum að aðildarsamningurinn og aðrar réttarheimildir EB fái öll sömu réttaráhrif og lög EB hafa innan bandalagsins.``
    Okkur þykir æðinóg að þurfa að lögbinda siglingaleiðir á skipaskurðum og járnbrautateinum og fleira þess háttar sem hér hefur verið talað um, en þá tæki fyrst steininn úr ef allt annað þyrfti að lögfesta hér. Síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Samningar um fulla aðild teljast gerðir til ótiltekins tíma, sbr. 240. gr. Rómarsáttmálans. Þetta þýðir að samningi um aðild verður ekki sagt upp nema samkvæmt ákvæðum 54. og 62. gr. Vínarsamningsins um alþjóðlegan samningarétt. Sem dæmi um heimildir til uppsagnar mætti nefna að samþykki allra annarra aðildarríkjanna lægi fyrir eða grundvallarbreytingar hefðu orðið á þeim forsendum sem lágu fyrir við inngöngu ríkis og að þær breytingar hefðu ekki verið fyrirsjáanlegar.``
    Það getur vel verið að hin aðildarríki EB vildu fljótlega losna við okkur Íslendinga og það gæti opnað fyrir okkur leið út en þó efa ég það ef þau eru búin að ná hér undirtökum t.d. í sjávarútveginum. Með öðrum orðum er ekki gert ráð fyrir að ríki geti gengið úr Evrópubandalaginu nema, má segja, við algjörlega breyttar forsendur og ég hygg að það væri erfitt að færa sönnur á að menn hefðu ekki séð fyrir þá þróun sem að er stefnt í Evrópubandalaginu eftir yfirlýsingar forustumanna þar og t.d. eftir

Maastricht-samkomulagið.
    Hér er einnig fjallað ítarlega um ýmislegt sem kallast afleiddur réttur og reglugerðir og þess háttar. Hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Reglugerðir eru víðtækastar bæði að því er varðar efni og áhrif svo og til hverra þær ná. Reglugerðir hafa almennt gildi, þ.e. þær gilda á tilteknu sviði og taka bæði til EB sjálfs, aðildarríkjanna, einstaklinga og lögaðila í aðildarríkjunum og geta veitt þessum aðilum réttindi eða lagt á þá skyldur. Þær eru bindandi í sérhverju tilliti og fá lagagildi í öllum aðildarríkjunum samtímis án nokkurs tilverknaðar af hálfu aðildarríkjanna.``
    Svo eru nefnd hér dæmi sem varða einstaklinga o.s.frv.
    Dettur einhverjum í hug að við fengjum undanþágu t.d. frá þessu og að reglugerðir sem framkvæmdstjórnin setur hafi tvímælalaust fullgildi í öllum aðildarríkjum nema á Íslandi? Hvílík börn, segi ég aftur, sem láta sér detta slíkt í hug. Halda menn virkilega að Evrópubandalagið mundi kaupa aðild Íslands með slíkri undanþágu? Ég vona að menn sjái undir hvað menn væru að gangast með hugsanlegri aðild að EB.
    Hér er líka fleira sem er fróðlegt að líta í þó ég reyni að stytta þetta aðeins. Um aðalreglur Rómarsáttmálans segir t.d., með leyfi forseta:
    ,,EB hefur þau sérkenni miðað við flestar aðrar alþjóðlegar stofnanir að það byggir á hreinni lögmætisreglu. Þessi regla er lögfest í 4. gr. Rómarsáttmálans þar sem segir að hver stofnun skuli starfa innan þess ramma sem settur er með Rómarsáttmálanum. Hnykkt er á þessari reglu með 164. gr. Rómarsáttmálans en þar segir að dómstóll EB skuli tryggja það að laga sé gætt við beitingu og túlkun Rómarsáttmálans. Helstu ástæður fyrir því að lögmætisreglu er fylgt í EB-rétti eru þær að stofnunum EB er fengið víðtækt ákvörðunarvald, m.a. til þess að setja reglur sem jafna má til venjulegra laga í landsrétti og veita einstaklingum og lögaðilum í aðildarríkjunum réttindi og leggja á þær skyldur.``
    Með öðrum orðum segir þetta að það er ekki bara ráðið eða framkvæmdastjórnin sem geta sett reglugerðir sem gilda sem lög. Hinar ýmsu stofnanir EB hafa líka slíkt vald og væri fróðlegt að vita hvort einhver hefur áhuga á því að gangast undir slíkt reglugerðarfargan.
    Út af fyrir sig gildir sú almenna regla að hvers konar mismunun á grundvelli þjóðernis sé bönnuð á gildissviði samnings þessa og þarf ég ekki að fara fleiri orðum um það. Það er í raun og veru það grundvallaratriði sem oft er vísað til.
    En sumir hafa sagt að það væri kannski gott fyrir okkur Íslendinga að vera aðilar af því að við gætum haft áhrif á ákvarðanir og gerðir Evrópubandalagsins. Það tel ég mikla einföldun. Í þessu ágæta riti segir um ákvarðanatöku:
    ,,Almenna reglan er sú að ráðið tekur ákvarðanir með einföldum meiri hluta þar sem hvert aðildarríki hefur aðeins eitt atkvæði. Undantekningar frá þeirri reglu eru þó svo margar og veigamiklar að algengast er að aukins meiri hluta sé krafist á þann hátt sem 2. mgr. 148. gr. kveður nánar á um. Við slíka atkvæðagreiðslu er heildarfjöldi atkvæða 76 en vægi einstakra ríkja sem hér segir:``
    Ég ætla ekki að lesa það en þar eru Þýskaland, England, Frakkland og Ítalía með tíu atkvæði hvert og síðan fer þetta smáminnkandi niður í tvö hjá Lúxemborg. Reiknað hefur verið út að með aðild EFTA-ríkjanna væri atkvæðafjöldinn líklega orðinn samtals um 90 og við Íslendingar hefðum að öllum líkindum tvö atkvæði. Þá erum við að reikna okkur það sama og Lúxemborg. Það væru í tölum talið þau miklu áhrif sem við Íslendingar hefðum á ýmsa ákvarðanatöku, jafnvel þótt sú ákvarðanataka sé tekin með auknum meiri hluta. Jafnvel þó að Norðurlöndin stæðu saman í slíkri ákvarðanatöku, sem ég tel ekki nokkrar líkur til því Norðurlöndin, sérstaklega t.d. lönd eins og Svíþjóð, Finnland, Danmörk, hafa allt annarra hagsmuna að gæta í bandalaginu en við Íslendingar. Í sjávarútvegi væri kannski eina von okkar Noregur. Að við getum ráðið einhverju þarna er því að mínu mati hreinasta fásinna.
    Rætt hefur verið nokkuð um það að t.d. í breytingum á Rómarsáttmálanum þá gildir neitunarvald og á nokkrum öðrum sviðum þar sem er um mjög róttækar breytingar að ræða. Þá hefur verið sagt og menn hafa barið sér á brjóst og sagt: Við, hinir miklu Íslendingar, höfum neitunarvald innan EB. Þetta er á mjög takmörkuðum sviðum og auk þess hefur afar greinilega komið fram hjá forustumönnum EB að þegar fjölgar svo í Evrópubandalaginu eins og nú er stefnt að þá verður ekki hjá því komist að breyta þessum reglum um neitunarvaldið. Þetta hefur framkvæmdastjórinn, Delors, sagt þó hann hafi reynt að draga úr þeim ummælum og þetta hafa forustumenn eins og Kohl sagt. Þetta afar skiljanlegt því að hvernig í ósköpunum ætlar þetta bandalag að starfa með 18 ríki sem hvert um sig hefur neitunarvald? Það er vitanlega hin mesta fásinna. Þarna er því ekki á neitt öruggt að róa í þessu sambandi.
    Það væri kannski hollt að hugsa aðeins um hvert er meginmarkmið Rómarsáttmálans sem er rakið hér. Ég ætla bara að nefna nokkur atriði sem okkur varðar og kannski nefnt sum áður. Það er í fyrsta lagi að taka upp sameiginlega tollskrá og viðskiptastefnu gagnvart löndum utan EB. Ég hef nefnt það. Taka upp sameiginlega landbúnaðar- og þar með sjávarútvegsstefnu, að samræma efnahagsstefnu aðildarríkjanna og að gera ráðstafanir til að bæta úr röskun á greiðslujöfnuði þeirra. Hér búum við við allt annað efnahagsumhverfi sem yrði áreiðanlega ekki tekið með í reikninginn við mótun þessarar sameiginlegu stefnu. Að samræma löggjöf aðildarríkjanna og fleira mætti nefna.
    Eitt er það atriði sem sannarlega er vert umhugsunar og það er heimild til að gera þjóðréttarsamninga. Hér segir í þessu ágæta riti, með leyfi forseta:
    ,,Það er ljóst að í Rómarsáttmálanum sjálfum er að finna ótvíræðar heimildir fyrir stofnanir EB til að gera þjóðréttarsamninga.`` Hér segir jafnframt: ,,Dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að þegar um þjóðréttarsamninga í viðskiptum er að ræða sem falla undir vald stofnana EB útiloki það aðildarríkin frá því að gera þjóðréttarsamninga að sama skapi.``
    Menn hafa sumir verið að hugleiða hér hvort rétt væri að leita eftir fríverslunarsamningi við Bandaríkin t.d. eða Japan og það yrði að sjálfsögðu útilokað. Slíkt yrði okkur ekki heimilt og mundi stangast á við þetta vald Evrópubandalagsins til að gera alþjóðlega samninga, enda kemst Stefán Már að þessari sömu niðurstöðu. Hann segir undir þessum sama kafla, með leyfi forseta:
    ,,Af sömu ástæðu er talið að vald stofnana EB til að gera þjóðréttarsamning í slíkum tilvikum og hér um ræðir útiloki að jafnaði vald aðildarríkjanna til að gera þjóðréttarsamning um sama efni.``
    Þá er það eitt, sem hefur töluvert verið rætt. Það eru forúrskurðir sem menn eru reyndar sammála um að íslenska stjórnarskráin leyfir ekki. Ég ætla aðeins að nefna það síðar en það vona ég að allir verði sammála um að það gengur gegn íslensku stjórnarskránni. Í þessu sambandi öllu eru forúrskurðir afar mikilvægir. Forúrskurðir dómstólsins eru ekki bara leiðbeinandi. Þeir eru ráðandi í meðferð dómstóla aðildarríkjanna á ýmsum málum. Og forúrskurðir eru eitt mikilvægasta tæki Evrópubandalagsins til þess að samræma starfsemi hinna ýmsu dómstóla í aðildarríkjunum.
    Ég skal ekki lesa meira úr þessari bók en ég ráðlegg þeim, sem mér virðist af mikili vankunnáttu ræða um að það væri skynsamlegt að sækja um aðild að Evrópubandalaginu, að kynna sér vandlega þessa bók og reyndar mætti benda á ýmislegt fleira í því sambandi.
    Þá er það spurningin: Hvernig ætti tvíhliða samningur okkar við Evrópubandalagið að vera? Við flm. þessarar tillögu erum þeirrar skoðunar að tvíhliða samningur ætti að byggja á viðskiptaþætti samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að til að fá fullkomið jafnræði á milli Evrópubandalagsins og okkar Íslendinga, þá þyrfti ýmsu þar að breyta. Þó að jafnræði sé að nafninu til til á prenti þá er það að sjálfsögðu alls ekki vegna hins gífurlega stærðarmunar á Íslandi og íslenskum fyrirtækjum og þeim sem þar eru og við þyrftum að hafa þar einhverja varnagla. Við þyrftum að sjálfsögðu að gæta þess mjög vandlega, eins og nú er gert ráð fyrir, að við höldum yfirráðum yfir okkar auðlindum. Þess er gætt í sjávarútvegi en því miður ekki eins og þyrfti enn þá a.m.k. yfir landi og orkulindum. Við þyrftum að hafa það hvort tveggja vel tryggt. Við þyrftum því að ganga til þeirra viðræðna með vissum fyrirvara um slík nauðsynleg yfirráð okkar yfir grundvallaratriðum hins efnahagslega sjálfstæðis okkar Íslendinga.
    Hins vegar er öllum ljóst að stofnanaþáttur þessa samnings þyrfti að gerbreytast. Við höldum ekki uppi þeim dómstóli og eftirlitsstofnun sem gert er ráð fyrir og það þyrfti að fara meira hefðbundnar leiðir með hugsanlegan gerðardóm eða eitthvað þess háttar sem báðir þessir aðilar gætu sætt sig við.
    Ég vil ekki fara í smáatriðum í það sem þyrfti að vera í slíkum samningi og læt nægja að vísa í það sem ég hef sagt því að vitanlega er það ætlunin með þessari þáltill. og mörkun þessarar stefnu að þegar verði sest niður og í samráði við t.d. utanrmn. verði undirbúin umsókn þar sem gerð er grein fyrir þeim atriðum sem við Íslendingar viljum hafa sem okkar fyrirvara.
    Virðulegi forseti. Mér hefur þótt ánægjulegt að heyra það í ýmsum yfirlýsingum ráðherra, sérstaklega forsrh., að það beri að stefna að tvíhliða samningi. Mér þótti gott að heyra að hann telur að við eigum bandamenn á Norðurlöndunum fyrir slíku og ekki síst ef og þegar þessi ríki eru orðin aðilar að Evrópubandalaginu. Ég vona að það sé rétt. Ég hef líka orðið var við það að ýmsir forustumenn Evrópubandalagsins hafa talið tvíhliða samning mjög eðlilega endastöð fyrir okkur Íslendinga í þessu sambandi. Ég man ekki betur en þegar við utanrrh. áttum viðræður við Delors hafi jafnvel slíkt komið fram en þó öllu og miklu greinilegar í viðtali sem Ríkissjónvarpið átti við Andriessen, sem fór með utanríkismál innan framkvæmdastjórnarinnar og var varamaður Delors, vorið 1991, ef ég man rétt. Þar spurði fréttamaður að því hvort hann teldi tvíhliða samninga koma til greina og Andriessen svaraði því mjög skilmerkilega. Hann sagði: ,,Ef Íslendingar óska eftir því, þá koma þeir til greina`` og hann taldi jafnvel að við þyrftum ekki að óttast að tapa neinu af þeim réttindum sem við hefðum unnið okkur. Reyndar ræddi ég þetta nokkuð í þingræðu og beindi því til utanrrh. hvort ekki væri rétt að kanna slíkt formlega. Mig minnir að fram hafi komið að hann hafi minnst á þetta við Andriessen en ekki hef ég heyrt ítarlega greint frá því eða hvort að nokkurri niðurstöðu var þá komist.
    Mér sýnist allt benda til þess að það sé bæði vilji til þess hér hjá flestum forustumönnum og vilji til þess hjá Evrópubandalaginu að við stefnum að tvíhliða samningi. Þess vegna er að þessu leyti, vona ég, ekkert því til fyrirstöðu að þessi tillaga verði samþykkt og Alþingi marki þannig stefnu og eyði þeirri óvissu sem ég ræddi í upphafi míns máls og sem mér virðist, því miður, aukast töluvert hjá ýmsum stofnunum hér á landi.
    Ég vona því að þetta mál geti fengið skjótan og farsælan framgang hér á Alþingi og sameinað okkur alþingismenn um framhaldsskrefin í þessu mikilvæga máli, það verði eins konar þjóðarsátt um framhaldið og svo sannarlega veitir ekki af í þessari stöðu.
    Ég læt þá framsögu minni lokið, virðulegi forseti, og legg til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn. að lokinni fyrri umr. um málið.