Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 12:49:10 (6453)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. 28. júní 1992 markaði Alþb. stefnu sína varðandi samskipti Íslands og Evrópubandalagsins. Í þeirri ályktun, sem samþykkt var af miðstjórn, framkvæmdastjórn og þingflokki flokksins, segir eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþb. dregur þá ályktun á grundvelli framangreindra röksemda og efnisatriða að þótt ýmsir efnislegir ávinningar geti tengst samningnum, þá sé EES-samningurinn þegar á heildina er litið í lokagerð sinni tilraun sem mistókst. Þess vegna er óhjákvæmilegt að hafna þeirri niðurstöðu EES-samningsins sem nú liggur fyrir. Alþb. leggur til að sú niðurstaða verði endurskoðuð þegar í haust með það að markmiði að gera sjálfstæðan, tvíhliða viðskiptasamning milli Íslands og EB. Höfuðatriði hans verði:
    1. Sjálfstæður tvíhliða viðskiptasamningur milli Íslands og EB verði m.a. byggður á viðskiptaþáttum EES-samningsins, sérstökum sjávarútvegssamningi og bókun 6 í samningum við EB sem verið hefur í gildi síðan 1976.
    2. Framkvæmd tvíhliða samnings milli Íslands og Evrópubandalagsins verði einfaldari í sniðum en samkvæmt EES-samningnum. Eingöngu verði sett á fót samstarfsnefnd um eftirlit og gerðardómi beitt verði deilumál um framkvæmd samningsins ekki útkljáð. Pólitísk vandamál verði leyst í ráðherraviðræðum.
    3. Í tvíhliða samningi Íslands og EB verði m.a. byggt á hugmyndum um frjálsa vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi, fjármagnsflutninga og almenna samkeppni, auk þess sem hafðar verði til hliðsjónar reglur Norðurlanda um vinnumarkað og búseturétt og afdráttarlaus réttur Íslendinga til að skipa forræði og eignarhaldi á auðlindum til lands og sjávar verði tryggður með sérstökum lögum.
    4. Í samningi um viðskipti yrði einnig fjallað um samvinnu Íslands og EB á öðrum sviðum, svo sem varðandi rannsóknir og þróun, umhverfismál, menntun og menningu.``
    Að lokum segir: ,,Í tvíhliða samningi verði engin atriði sem brjóti í bága við stjórnarskrá eða taki efnislegt og formlegt löggjafarvald á Íslandi úr höndum Alþingis og þjóðarinnar.``
    Það er þess vegna ljóst, virðulegi forseti, að á grundvelli þessarar stefnu sem Alþb. hefur fylgt í tæpt ár þá styðjum við eindregið þá till. til þál. sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson hafa flutt. Orðalag tillögunnar er fyllilega og alfarið í samræmi við þá samþykkt sem Alþb. gerði í júnímánuði í fyrra.
    Í sjálfu sér þarf ég þess vegna ekki að hafa mörg orð um þetta mál, ég hef bæði í sérstöku nál. fyrr á þessu þingi og einnig við fjölmörg tækifæri í umræðum á Alþingi, rökstutt og lýst rækilega afstöðu okkar til tvíhliða samnings milli Íslands og Evrópubandalagsins. Ég fagna því mjög að á síðustu mánuðum hafa æ fleiri lýst yfir stuðningi við þá stefnu sem við settum fram í júní í fyrra. Það sýnir það að mat okkar fyrir rúmu ári síðan á stöðu mála í undirbúningi að ályktun okkar var rétt. Það var raunsætt mat og öll atburðarásin síðan hefur styrkt það. Samningaviðræður Evrópubandalagsins við aðildarríki EFTA eru að komast í fullan gang. Það er mikill skriður á stjórnvöldum í EFTA-ríkjunum sem sótt hafa um aðild að ná því fram og þótt hæstv. utanrrh. og ýmsir fleiri velti því fyrir sér að það kunni að taka langan tíma og ekki víst að það takist, þá breytir það því ekki að stefnan hefur verið mörkuð. Evrópubandalagið hefur mótað þá stefnu, hæstv. utanrrh., að leggja Evrópska efnahagssvæðið niður. Það er staðreynd sem hæstv. utanrrh. hefur aldrei viljað horfast í augu við á Alþingi, að sjálfur viðsemjandi okkar, Evrópubandalagið, hefur með skýrum hætti mótað þá afstöðu að sem fyrst skuli Evrópska efnahagssvæðið vera út úr heiminum.
    Það er satt að segja visst harmsefni að hæstv. utanrrh. hafi til að bera slíkan skort á raunsæi að vilja ekki horfast í augu við þá staðreynd. Það er líka ljóst að öll aðildarríki í EFTA sem hafa samþykkt að óska eftir aðild að Evrópska efnahagssvæðinu hafa ákveðið að yfirgefa það. Þessar staðreyndir blasa við sem formleg utanríkisstefna viðkomandi ríkja. Það er á grundvelli þess að sú stefnumörkun hefur formlega farið fram sem nauðsynlegt er að Íslendingar bregðist einnig við með formlegum hætti. Menn geta svo velt því fyrir sér hvað það taki langan tíma að koma stefnu Evrópubandalagsins og hinna EFTA-ríkjanna í framkvæmd, það er annað mál. Það liggur fyrir að stefnan hefur verið mörkuð.
    Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði áðan, þess vegna er nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga móti stefnu í málinu. Ég botnaði hvorki upp né niður í þeim rökum sem hæstv. utanrrh. var að reyna að flytja áðan fyrir því að ekki mætti samþykkja þessa ályktun.
    Í fyrsta lagi sagði hæstv. ráðherra: Þessar viðræður eru hafnar.
    Síðan sagði hæstv. ráðherra: Það er ótímabært að hefja þessar viðræður fyrr en EES-samningurinn tekur gildi.
    Í báðum tilvikunum notaði hann orðalag eins og hann væri að tala um sama hlutinn. Síðan rakti hann það að hann hefði þegar hafið viðræður við Evrópubandalagið um þetta mál með því að ræða það við nokkra forustumenn bandalagsins og þær fundargerðir lægju fyrir.
    Hvað stendur í þessari tillögu, hæstv. utanrrh.? Það stendur í fyrsta lagi að Alþingi ályktar að stefnt skuli að því að ná tvíhliða samningi við Evrópubandalagið. Í öðru lagi segir að Alþingi felur ríkisstjórninni að hefja undirbúning að slíkri samningagerð. Og í þriðja lagi segir að það eigi að fara þess á leit við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins að viðræður hefjist hið fyrsta. Það stendur ekkert, hæstv. utanrrh., í þessari tillögu að viðræðurnar eigi að hefjast áður en EES tekur gildi, þannig að það er fullkomlega út í hött hjá hæstv. ráðherra að hafna þessari tillögu á þeim forsendum að slíkar viðræður væru hættulegar áður en EES tekur gildi. Í tillögunni er ríkisstjórninni og Evrópubandalaginu gefið fullt svigrúm til þess að tímasetja þessar viðræður eftir því sem báðum aðilum finnst hagkvæmt. Að því leyti ræður mikil skynsemi í orðalaginu á þessari tillögu.
    Þar að auki telja ýmsir að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði muni að öllum líkindum taka gildi eftir örfáa mánuði og sjálfsagt mun undirbúningurinn taka einhvern tíma svo sú mótröksemd sem hæstv. ráðherra reyndi að tína fram áðan í andsvari, hún gengur einfaldlega ekki upp.
    Hæstv. utanrrh. kom líka með þá röksemd að í samningunum um EES hefðu aðrir í EFTA borið kostnaðinn af þeim hagsmunum sem Ísland náði fram og átti þar væntanlega við Norðmenn. Ég vil minna hæstv. utanrrh. á það að hans nánasti samstarfsmaður í EES-ferlinu, samningamaður Íslands, Hannes Hafstein sendiherra, hefur neitað því formlega á vettvangi Alþingis, þar sem hann hefur mætt, að nokkurt aðildarríki EFTA hafi boðið slíkan kostnað. Hæstv. ráðherra er einfaldlega að segja allt annan hlut en sá samningamaður Íslands sem gjörþekkir málið. Það er auðvitað mjög merkilegt að sjálfur samningamaður Íslands hefur formlega á vettvangi þingsins afneitað þeirri kenningu sem utanrrh. er hvað eftir annað og nú síðast hér áðan að halda fram.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur einhverjum embættismanni verið falið að starfa að þessum undirbúningi? Því öðrum þræði var ráðherrann að segja að þessi tillaga væri óþörf vegna þess að þetta væri allt saman í gangi og á hinn bóginn var hann að segja að hún væri hættuleg. Hún getur ekki bæði verið óþörf og hættuleg, hæstv. ráðherra.
    Nei, ætli staðreyndin sé ekki einfaldlega sú að það er bara viðkvæmt, pólitískt og persónulega fyrir hæstv. ráðherra að fá þetta samþykkt. Þá komum við enn og aftur að því að flokkslegir og pólitískir hagsmunir ráðherrans komi í veg fyrir það að hér náist breið samstaða íslensku þjóðarinnar um stefnumörkun í þessum efnum.
    Ég tel það vera eitt af gæfusporum okkar hér á Alþingi á undanförnum árum að það hefur nokkuð oft náðst breið samstaða allra flokka um ályktanir Alþingis í utanríkismálum. Það má nefna ýmis dæmi um það. Afstaða Alþingis til Eystrasaltsríkjanna er eitt slíkra dæma.
    Því má ekki marka þá stefnu hér á Alþingi sem felst í þessari tillögu? Það er spurning sem hæstv. utanrrh. hefur ekki enn þá svarað með sannfærandi hætti.
    Ég vil minna hæstv. ráðherra á það að forsrh. hefur nokkrum sinnum lýst því yfir að slíkar tvíhliða viðræður séu sá raunhæfi kostur sem blasir við Íslendingum og það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði áðan, að í ljósi ummæla einstakra þingmanna um nauðsyn þess að sækja um aðild að Evrópubandalaginu, í ljósi ummæla fjölmargra annarra aðila í þjóðfélaginu sama efnis, þá er nauðsynlegt að Alþingi veiti sitt svar. Það er nauðsynlegt. Það er mikið talað um festu og stöðugleika. Í þessum efnum þarf líka að ríkja festa, hæstv. ráðherra. Þess vegna vona ég nú að ráðherrann hugleiði það að leggjast ekki gegn samþykkt þessarar tillögu og eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson benti á, þá kemur alveg til greina að skoða orðalag hennar. En ef það er eitthvert metnaðarmál fyrir ráðherrann að hann fái að flytja tillöguna sjálfur þá tel ég sjálfsagt að gera það fyrir hann. Aðalatriðið er það að þingið nái saman um það sem augljóslega er vilji meiri hluta Alþingis. Alveg augljóslega. Það er ekki lýðræðislegt að fáeinir menn í minni hlutanum, jafnvel þó að sumir þeirra sitji á ráðherrastóli geti stöðvað það að þessi afdráttarlausi meiri hluti Alþingis fái að koma fram.

    Fyrst ráðherrann er byrjaður að ræða við forustumenn Evrópubandalagsins um málið, er þá ekki styrkur fyrir hann að hafa ályktun þingsins á bak við sig, sérstaklega í ljósi þess að það er einmitt innan hans eigin flokks sem andmælin við hans stefnu hafa verið að koma fram? Ef það er stefna ráðherrans að hér eigi að koma tvíhliða samningur þá er ljóst að Samband ungra jafnaðarmanna er á annarri skoðun. Samband ungra jafnaðarmanna vill aðild að EB. Þá er ljóst að formaður fjárln., Karl Steinar Guðnason, áhrifamesti þingmaður Alþfl. utan ráðherrahópsins, er ósammála ráðherranum. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason vill aðild að Evrópubandalaginu, þannig að þeir sem hafa lýst yfir andstöðu við stefnu ráðherrans eru hans eigin flokksmenn. Þeir sem lesa póstinn hjá Evrópubandalaginu sjá það greinilega að jafnvel innan flokks ráðherrans er baklandið ekki traust. ( RG: Má maður bera af sér sakir?) Ég tel nú enga þörf á því fyrir hv. þm. að bera af sér sakir ef hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er að vísa til þeirra orða minna að hv. þm. Karl Steinar Guðnason sé áhrifaríkasti þingmaður Alþfl. utan ráðherrahópsins og ef þetta er svona viðkvæmt mál í þingflokki Alþfl. þá get ég alveg dregið þann hluta fullyrðingar minnar til baka en óska þá eftir að verða upplýstur um það hver er áhrifamestur. ( Forseti: Forseti þarf aðeins að ónáða hv. þm.) Ég er að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. ( Forseti: Það er einmitt það sem forseti ætlaði að grennslast um. Það var meiningin að gera hlé á fundinum.) Já, já ég geri hlé á ræðu minni, ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við þessa tillögu, ég er reiðubúinn til víðtæks samstarfs á þinginu um breytingar á orðalagi hennar ef menn telja það nauðsynlegt, en aðalatriðið er það að meiri hluti Alþingis fái að koma í ljós.