Innflutningur á björgunarbát

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 13:34:00 (6460)

     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er flutt af samgn. og fjallar það um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa Slysavarnafélagi Íslands að flytja inn björgunarbát.
    Frv. er flutt vegna þess að sá björgunarbátur sem um er að ræða er eldri en svo að innflutningur sé heimill án sérstakra laga frá Alþingi. Ætlun Slysavarnafélags Íslands er að flytja bátinn inn frá Þýskalandi á næstu dögum. Báturinn fæst við mjög lágu verði og er talinn geta þjónað sínu hlutverki hér mjög vel.
    Ég vil geta þess að Siglingamálastofnun ríkisins hefur skoðað skipið og segir í bréfi, dags. í dag, að stofnunin geti fyrir sitt leyti fallist á innflutning þessa báts enda liggi fyrir samþykki Alþingis á innflutningi. Einnig að bætt verði úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun og báturinn sé með vottorð flokkunarfélags, það er GL sem mun þýða Germanische Lloyd's. Það liggja líka fyrir upplýsingar um það, að vísu munnlegar, að úr þessum athugasemdum muni þegar verða bætt.
    Eins og áður sagði er frv. flutt af samgn. Nefndin stendur öll einhuga að flutningi frv. Það er flutt í samráði við hæstv. samgrh. og með tilliti til þess að frv. er flutt af nefndinni mun ekki verða óskað eftir að því verði vísað til nefndar. Áætlanir Slysavarnafélags Íslands um innflutning á þessu skipi eru með þeim hætti að mjög æskilegt væri að afgreiða þetta frv. sem lög frá Alþingi í þessari viku. Ég leyfi mér fyrir hönd nefndarinnar að óska eftir því við hæstv. forseta að hlutast verði til að málið nái afgreiðslu hv. Alþingis nú þegar í dag.