Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 13:46:09 (6461)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Þegar fundarhlé var gert þá horfðu mál þannig að kannski væri að vænta talsverðra tíðinda af þessu mikilvæga máli sem hér er flutt og er til umræðu því ég held að það hafi ekki verið neinn misskilningur fólginn í því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kvaðst vera sannfærð um að við stöndum uppi með tvíhliða samning --- held ég að orðalagið hafi verið --- ef framvindan býður upp á það. Þóttu mér það góð tíðindi ef svo væri um hennar flokk og kynnu þá miklar væringar að vera að baki og enn einu sinni reyndu Íslendingar nú að nálgast hver annan í mestu hagsmunamálum þjóðarinnar eins og hér er um að ræða nú. Það er svo sannarlega mín ósk að svo geti farið og ekki skal ég spilla fyrir því með einum hætti eða neinum. Því mun ég stytta mitt mál vegna þess að svo var með ræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar að ég gat út af fyrir sig samþykkt hvert og eitt einasta orð af því sem hann sagði. Hygg ég að við höfum ekki verið eins sammála alla tíð eins og um þetta atriði.
    Það var mjög merk ræða sem hann flutti og vel grunduð. Og hv. þm., sem ekki voru hér því hér var þunnskipað, ættu að kynna sér hana og vita hvort þar er ekki kannski að skapast einhver sá grundvöllur sem við gætum sameinast um, ekki um hverja setningu eða hvert orð að sjálfsögðu, heldur ekki endilega um orðalag þáltill. sem til umræðu er og ég er hlynntur efnislega. Þess er ekki að vænta að menn samþykki allt umræðulaust, enda nægur tími til að ræða ítarlega um málin.
    Þess er að gæta að það hefur lengst af verið --- í þessum EES-málum eins og þau nú eru kölluð --- á hinu háa Alþingi verið furðumikið samkomulag og þá minni ég á því að það er fljótt að gleymast að Alþingi hefur gefið út bókina Ísland og Evrópa sem Evrópustefnunefnd sendi frá sér í lok starfa sinna en hún var valin af Alþingi 11. maí 1988. Þá ákvað Alþingi að kjósa nefnd um stefnu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu. Þessi nefnd var gjarnan kölluð Evrópustefnunefnd. En um tilurð hennar stendur hér í formálsorðum sem ég undirrita sem formaður nefndarinnar þann 6. des. 1990:
    ,,Alþingi ályktar að kjósa hlutbundinni kosningu nefnd níu alþingismanna til þess að taka til sérstakrar athugunar þá þróun sem fyrir dyrum stendur í Evrópu, einkanlega með tilliti til ákvörðunar Evrópubandalagsins um sameiginlegan innri markað.
    Nefndin skal kanna áhrif þessara ákvarðana og líklegrar þróunar í Evrópu á íslenskt efnahagslíf og meta þær leiðir sem álitlegastar eru til þess að laga íslenskt efnahags- og atvinnulíf að þeim breytingum sem fram undan eru. Í starfi sínu skal nefndin hafa samráð við samtök atvinnulífsins. Nefndin skal skila skýrslu um athuganir sínar og tillögur fyrir 1. apríl 1989.``
    Þessi skýrsla kom að vísu nokkru seinna en í lok þeirrar skýrslu gera nefndarmenn grein fyrir afstöðu sinni og sinna flokka og merkast er upphafið. Upplagið er til af þessu riti enn þá, eitthvað af því og það væri gott að menn kynntu sér það en í upphafi segir, í tölulið 1. Fyrirsögn:
    ,,Aðild að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá. Enginn íslensku stjórnmálaflokkanna hefur á stefnuskrá sinni aðild að Evrópubandalaginu. Sumir flokkanna orða það svo í stefnuskrám sínum og samþykktum að umsókn um aðild sé ekki a dagskrá. Aðrir kveða svo að orði að aðild komi ekki til greina.``
    Út frá þessu hefur nú verið gengið fram á þennan dag að aðild að Evrópubandalaginu kæmi ekki til greina. Ég veit að þær raddir heyrast að svo kynni að fara að við gerðumst aðilar að Evrópubandalaginu. Ég held þó að það séu fáir sem beinlínis óski eftir því og rökstuðning vantar þá fyrir því hvernig það mætti gerast. Ég vænti þess vegna að svo verði ekki og ég veit að staða okkar er góð ef við leitum eftir tvíhliða samningum við Evrópubandalagið. Það hefur margsinnis á það reynt, t.d. þar sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði um Andriessen og sjálfur heyrði ég Henning Christophersen segja að það hallaði á Evrópubandalagið í viðskiptum við Íslendinga þar sem við hefðum opnað okkar markaði fyrir tollfrjálsum iðnvarningi þeirra en hins vegar hefðu þeir gersamlega svikist um að afnema tolla á saltfiski, t.d. þegar Spánn, Portúgal og Grikkland gerðust aðilar að bandalaginu. Og þar ættum við réttar að gæta og ættum að sækja hann. Hann beinlínis skoraði á okkur sem þar vorum sem vorum allir nefndarmenn í Evrópustefnunefndinni að fylgja því máli fram. Það hefur því miður ekki verið gert. Ég ætla ekki að rifja það upp hvers vegna það hefur verið látið undir höfuð leggjast að framfylgja okkar rétti á þann veg sem okkur ber og þess vegna skal ég leiða það hjá mér og frekari umræðu um málið í heild sinni. Við getum ekki lengur beðið með það að knýja á um tvíhliða viðræðurnar eins og þáltill. bendir á og þess vegna endurtek ég að ég styð tillöguna, efnislega í öllu falli, en legg áherslu á það að einskis verði látið ófreistað að sætta menn hér frekar en vera með einhverjar ýfingar.
    Þar að auki var það svo sem er kannski gaman að benda hér á, ég veit ekki hvort það hefur verið gert áður úr þessum stól, að t.d. á hafréttarráðstefnunni, sem mér var nú mjög annt um og hef oft nefnt að góðu því að þar unnum við okkar stærstu sigra, var talað um ,,rule of silence`` eða þagnarregluna. Það var ætlast til þess ef menn voru sammála síðasta ræðumanni, þá væru þeir ekki að endurtaka hans rök. Það voru fulltrúar 150 ríkja sem þurftu að tala, menn þurftu auðvitað að senda sína ræðustúfa heim og afstöðu heim til sín, embættismennirnir, til þess að fullnægja stjórnmálamönnunum eins og við vitum og allir þurftu þess vegna að tala. Ráðstefnan stóð nú samt í ein 11 ár eða eitthvað svoleiðis, en henni hefði líklega aldrei lokið ef þessi regla hefði ekki einmitt verið. Reglan var ósköp einföld. Hún var að tala ekki nema maður hefði eitthvað að segja og þá aðeins að gefa merki um það að maður væru sammála því sem áður hefði verið sagt í umræðunum.

    Ég held að ég ljúki þessu líka með því að endurtaka það að ég styð allt það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði og ég vona að fleiri geri það og kannski allir geti samþykkt þann merg málsins sem þar var ræddur.