Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 14:15:11 (6463)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Löngum hefur það orðið mönnum að ágreiningsefni á Alþingi hvort gæfulegra væri að reyna að haga samskiptum við Evrópubandalagið með tvíhliða samningum eða ekki. Á 9. áratugnum reyndu allar ríkisstjórnir á Íslandi að bæta markaðshlutdeild Íslendinga í tvíhliða samningum, bókun 6, en það bar engan árangur. Við rákum okkur á vegg. Veggurinn var fiskveiðistefna Evrópubandalagsins sem sagði: Þið fáið ekki bættan markaðsaðgang, lækkun tolla, nema með því að gefa veiðiheimildir jafngildar í móti. Menn höfnuðu því. Minnugir þessarar reynslu þá er það svo, að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem mótaði EES-samningana í upphafi, hafnaði tvíhliða leiðinni og greip tækifærið þegar þess gafst kostur að fara í fjölþjóðlega samninga með hinum EFTA-ríkjunum. Nú liggur niðurstaðan fyrir. Niðurstaðan skilaði góðum árangri, við náðum góðri samningsniðurstöðu, miklu betri tel ég en nokkur von var til að fá í tvíhliða samningum og miklum betri en við náðum nokkurn tíma í tvíhliða samningum.

    Nú er spurningin um það hvaða óvissa sé fram undan í samskiptum okkar við EB. Hún er þessi: Verða EES-samningarnir framkvæmdir, ná þeir gildistöku? Ef þeir ná gildistöku, þá hefur þessari óvissu verið eytt svona til næstu ára. En þeir eru ekki varanlegir. Og þá segja menn: Er ekki rétt að fara að huga að því hvað tæki við ef EFTA-ríkin hin gerast aðilar að EB? Hver verður þá hlutur okkar með þennan EES-samning? Ég er búinn að segja það svo oft í þessum umræðum að gefnu tilefni að við höfum auðvitað þegar rætt það við forsvarsmenn Evrópubandalagsins með formlegum hætti, ekki í samningaviðræðum heldur í viðræðum fjórum sinnum. Við utanríkisráðherra EB, við þá utanríkisráðherra sem gegnt hafa formennsku og við hinn nýja utanríkisráðherra EB og niðurstaðan er alltaf hin sama. ( Forseti: Tíminn er búinn.) Menn segja: Það er ekki tímabært að taka upp samningaviðræður um það núna fyrr en EES-samningurinn liggur fyrir og það liggur fyrir hvort hann gengur í gildi.
    Annað. Við lítum hins vegar svo á að þessi fjölþjóðasamningur breytist af sjálfu er í tvíhliða samning, ef hin EFTA-ríkin ganga í Evrópubandalagið. ( Forseti: Tíminn er búinn.) Þá er eftir bara eitt verkefni: Það er að semja af okkar hálfu um eftirlitsþáttinn vegna þess að ef EFTA leggst af, þá leggst af dómstóll og eftirlitsstofnun. Um þetta eru allir menn sammála. Það eina sem er um þetta að segja er það að enn er nokkur óvissa hvort EES gengur í gildi og hvað tekur við, hversu lengi verður það. ( Forseti: Tíminn er búinn.) Og út af fyrir sig er enginn ósammála því, en niðurstaðan verður þá væntanlega að samningurinn breytist yfir í tvíhliða form. Hvenær það gerist, það vitum við ekki.