Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 14:20:43 (6465)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru nú ekki stór ágreiningsmálin milli okkar ef þau eru þá nokkur. Spurningin er: Hvenær væri tímabært að fara þess á leit við Evrópubandalagið að taka upp formlegar samningaviðræður um viðskiptaþátt EES-samningsins og form hans eftir að hin EFTA-ríkin væru öll komin inn í EB? Hvenær væri það tímabært? Mitt svar við því er þetta: Það er ekki tímabært meðan óvissa er enn ríkjandi um hvort EES-samningurinn nær gildistöku. Meðan sú óvissa er fyrir hendi, er ekki um neitt að semja á grundvelli viðskiptaþáttar EES. Það er nú það fyrsta.
    Annað. Það er rétt sem hv. þm. sagði. Hann misskildi að þetta gerðist með sjálfkrafa hætti eða að ég teldi að þetta gerðist sjálfkrafa. Það gerir það ekki. Það sem gerist er hins vegar að einn þátt hinna fjölþjóðlegu EES-samninga, þ.e. stofnanaþáttinn, eftirlit og lausn deilumála, þarf að taka upp aftur. Og af því að tillagan hérna er um það að taka þetta upp til viðræðna, þá hef ég sagt:
    Í fyrsta lagi. Undirbúningur þessa máls er ekki aðeins hafinn, honum er lokið. Honum lauk þegar EES-samningnum var lokið. En að taka upp viðræður um það, það höfum við gert. Það er um það bil ár frá því að við tókum upp viðræður um það hvað tæki við eftir að hin EFTA-ríkin væru hugsanlega komin inn í EB. Um það liggja fyrir fundargerðir. Sameiginleg niðurstaða er sú að báðir aðilar telja að það sem við taki væri að Ísland mundi væntanlega halda réttindum sínum og skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum, en þarf náttúrlega að fá það staðfest.
    Í annan stað. Það þarf að semja upp á nýtt um stofnanaþáttinn. Hvenær er tímabært að taka þetta upp? Því hef ég þegar svarað. Alla vega ekki fyrr en EES-samningurinn hefur tekið gildi.