Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 14:22:57 (6466)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er greinilega ágreiningur milli mín og utanrrh. um það hvenær þetta er tímabært. Ég tel að það sé tímabært nú þegar. Það eru hafnar aðildarviðræður annarra EFTA-þjóða við EB þrátt fyrir óvissuna um Evrópska efnahagssvæðið og það er alveg ljóst að hverju þau lönd stefna og þessar viðræður eru að hefjast. Ef það er ljóst, hæstv. utanrrh., að það stendur ekki til af hálfu Íslands að sækja um aðild að Efnahagsbandalaginu og það er ásetningur Íslands að ná tvíhliða samningi við Evrópubandalagið, þá er það alveg jafntímabært fyrir okkur að taka upp slíkar viðræður og það er tímabært fyrir hina að biðja um viðræður um aðild að Efnahagsbandalaginu.
    Ég tel að sá samningur sem við höfum náð sé okkur hagstæður í mörgu en í öðrum atriðum okkur óhagstæður og það hlýtur að þurfa að undirbúa breytingar okkur í hag mjög vel. Hæstv. utanrrh. hefur hér upplýst að þessum undirbúningi sé nú þegar lokið og það sé allt klárt í sambandi við málið. Ég leyfi mér þá að spyrja í hverju sá undirbúningur felst og hver eru þau atriði sem ríkisstjórn Íslands ætlar að setja fram ef til þess kemur og hvort hægt sé að fá upplýsingar um þann undirbúning og greinargerðir um hann. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að hæstv. utanrrh. hafi staðið fyrir slíkum undirbúningi og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að fá aðgang að þeim skjölum.