Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:10:00 (6477)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Hv. þm. heldur sig við Albaníu-aðferðina, sem svo er kölluð, að tala til eigin flokks og flokkssystra á Alþingi með því að ræða við mig um þessi efni. Ég kvarta út af fyrir sig ekkert undan því. Ég er alveg reiðubúinn til þess. En það var fróðlegt að heyra rökin hjá hv. þm. Það er skortur á valkosti og það eru markaðsöflin sem hafa yfirhöndina. Þá er ráðið það að mati þessa þingmanns að slást í hóp með þeim markaðsöflum sem vilja ná mun meiri fótfestu en verið hefur á Norðurlöndum með því að keyra þjóðirnar saman í þessu samrunaferli. Í þetta sinn undir þaki EES og með síðan Evrópubandalagið fyrir stafni. Munurinn á efnahagslegu sviði er auðvitað enginn því að það er hinn efnahagslegi þáttur Rómarsamningsins og þeirra reglna sem hafa verið settar á grundvelli hans sem við erum að yfirtaka með EES-samningi. Þingmaðurinn og aðrir sem stuðla að því að Íslandi gangi í Evrópskt efnahagssvæði eru einmitt að opna götuna fyrir óheftan markað, fyrir kerfi þar sem varan og markaðurinn hefur forgang umfram önnur gildi, þar á meðal á sviði umhverfismála sem og varðandi það velferðarkerfi sem við höfum náð að byggja upp á Norðurlöndum og hér á Íslandi með sæmilegum hætti þó það sé nú sannarlega í hættu.