Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:42:08 (6484)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur gert grein fyrir sínum sjónarmiðum og beint nokkrum orðum til mín. Það er alveg ljóst að það sem okkur greinir á í þessu máli er það að ég tel og Alþb., að það sé ófarsælt fyrir Ísland og íslenska hagsmuni að gerast aðili að Evrópsku efnahagssvæði. Hv. þm. hefur hins vegar stuðlað að því að sá samningur gengi fram á Alþingi og lýst efnislegu fylgi við samninginn þótt hann kysi að sitja hjá í atkvæðagreiðslu. Hann hefur ítrekað þennan stuðning í ræðu sinni. Og það tekur enginn af honum. Það liggur jafnframt fyrir að þingflokkur Framsfl. talaði ekki einum rómi í þessu máli heldur var þverklofinn. Klofinn í herðar niður en formaðurinn marði þó meiri hluta í þingflokknum þrátt fyrir afstöðu hv. 6. þm. Norðurl. e.
    Ég tel að á því sé reginmunur hvort menn gera tvíhliða samning eða hvort menn ganga inn í ferli eins og hér er um að ræða þar sem er samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði. Það er reginmunur. Og

ég tel að það sé engin furða þó íslenskri þjóð sé sundrað í stórmáli að hún tali ekki einum rómi og taki ekki undir einum rómi þegar ráðandi öfl í landinu ganga fram með þessum hætti. Og hv. þm. þarf ekkert að vera hissa á því. Samþykkt Alþb., sem hann vék að, er um það að Alþb. gengur gegn þessum samningi, samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Síðan er greinargerð fyrir þeirri afstöðu. En samþykktin er um það og hún hefur gengið fram hér á Alþingi. Alþb. stendur einhuga í þessari andstöðu og mun gera það á meðan úrslit eru ekki ráðin varðandi Evrópska efnahagssvæðið. Það er satt að segja mjög merkilegt að þingmaður úr Norðurl. e. með þau viðhorf að baki sem þar eru hjá því fólki sem hefur stutt Framsfl. á liðnum árum skuli ekki vera í betri tengslum við það bakland en afstaða hans ber vott um.