Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:51:17 (6488)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Í örfáum orðum vil ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið sem mér hefur þótt

að langmestu leyti mjög fróðleg og gagnleg. Ég ætla að vísu engan þátt að taka í þessari --- hvað á ég að kalla það --- þráhyggju hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem mér finnst heldur leiðigjörn í umræðu um þetta mál. Það vakti nokkra undrun mína að hæstv. utanrrh. skyldi ekki kjósa að taka ítarlega til máls um þetta stóra mál. Hann hefur að vísu komið inn í málið með andsvörum og það er hans að velja leið til að láta sínar skoðanir í ljósi.
    Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem kom fram hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni og hjá formanni Alþb. mjög ákveðið í hans ræðu og sömuleiðis talsmanni Kvennalistans.
    Ýmislegt hefur verið nokkuð fróðlegt. T.d. er það í fyrsta sinn sem ég heyri svo miklar efasemdir hjá hæstv. utanrrh. um gildistöku EES-samningsins. Þvert á móti hef ég tekið eftir því hingað til að hann hefur lýst eiginlega meiri bjartsýni en aðrir sem þessum málum eru kunnugir. Ég er nokkuð sannfærður um það að þessi samningur tekur gildi ef ekki 1. okt. þá um næstu áramót. Ef svo færi að hann tæki ekki gildi, þá liggur það náttúrlega í hlutarins eðli að við þyrftum að skoða þessi mál öll gersamlega upp á nýtt og öll þau lönd sem að þessu hafa staðið.
    Hér hefur hæstv. utanrrh. lýst því að hann teldi í fyrsta lagi hættulegt að samþykkja svona tillögu eða varasamt, en hefur svo lýst hinu að hann hafi þegar átt í viðræðum við forustumenn Evrópubandalagsins um hugsanlegan tvíhliða samning. Ég vænti þess að við fáum að sjá þær fundargerðir og það sem út úr þeim viðræðum hefur komið á fundi utanrmn. Ef það breytir minni afstöðu til málsins, að þegar er búið að ná eins og skilja mætti af hæstv. utanrrh. samkomulagi um tvíhliða samning, þá fagna ég því, en þá tel ég afar mikilvægt að það liggi fyrir. Og ég sagði það hér áðan í andsvari ef hæstv. utanrrh. kýs að marka þá stefnu sjálfur á Alþingi, þá er ekkert því til fyrirstöðu af hálfu okkar sem flytjum þessa tillögu.
    Hæstv. utanrrh. sagði að það væri ekki tímabært að hefja undirbúning að þessum málum, þótt hann hins vegar upplýsi hér að hann hafi þegar hafið viðræður, fyrr en séð er hvort ekki aðeins verður úr EES heldur hvort viðræður EFTA-ríkjanna um fulla aðild takast, hvort sú aðild tekst. Að sjálfsögðu er alveg ljóst að ef ekki verður úr aðild þeirra ríkja sem nú sækja frá EFTA-hlutanum, þá hlytu slíkar viðræður okkar um tvíhliða samning einnig að endurskoðast og ég sé ekki að nokkurt tjón sé þá orðið. Er það skaðlegt fyrir EFTA-ríkin sem nú sækja um aðild að ganga til þeirra viðræðna ef úr þeim verður ekki? Það held ég ekki út af fyrir sig. Það er svo með alla samninga að enginn veit fyrr en upp er staðið hvort þeir takast að sjálfsögðu. Ef hæstv. utanrrh. telur að það eigi að bíða, þá erum við tilbúnir að setja fyrirvara í okkar tillögu að sjálfsögðu og við erum satt að segja tilbúnir að ræða við hæstv. utanrrh. um orðalag eins og sem breiðast samkomulag getur orðið um. En ég held hins vegar að það sé afar mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem er hér og ég rakti í minni framsöguræðu og hefur komið víða fram. Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá ýmsum ræðumönnum að það er einlæg von mín að það geti náðst breið samstaða um að eyða þessari óvissu, marka stefnuna þannig að ef EFTA-ríki, sem nú sækja um aðild, gerast aðilar, þá liggi þegar fyrir á þeirri stundu samningur sem við treystum okkur til að ganga að við EB. Ég lýsti því í framsöguræðu minni að ég tel að það þurfi að skoða ýmis atriði viðskiptahliðar samningsins en ekki að hann eigi að vera óbreyttur. Það er svo margt í honum sem tengist aðild annarra ríkja EFTA að EES.
    Sem sagt, ég vil undirstrika það að ég þakka þær umræður sem hafa verið málefnalegar og lýsi eindregið þeirri von minni að það megi takast samkomulag við hæstv. utanrrh. og aðra um mörkun stefnu sem eyðir þeirri óvissu sem ríkir í þjóðfélaginu um framtíð okkar í evrópsku samstarfi.