Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:01:54 (6492)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er eflaust vonlaust að mér takist að róa hv. þm. þegar ég fullyrði úr ræðustól að það er enginn klofningur í Framsfl. í þessu máli, enginn. Ég vona að hann sofi betur eftir að hann hefur heyrt þá yfirlýsingu frá mér af því að við höfum oft átt samstöðu í svona málum. Ég held líka satt að segja, hv. þm., að þingmaðurinn næði miklu betur til sinna umbjóðenda ef hann hætti þessum málflutningi og tæki að ræða á miklu málefnalegri grundvelli um það sem fram undan er.
    Ég vek líka athygli á því að formaður Alþb. flutti hér ræðu fyrr í dag þar sem hann lýsti eindregnum stuðningi við þessa tillögu og taldi hana ekki óþarfa. Ég hef ekki orðið var við það að hv. þm. hafi látið það standa í vegi fyrir sínum tillöguflutningi þótt hann kunni að búast við að stjórnarflokkarnir standi á móti. Ég tel að bara sú umræða sem þegar er orðin hér hafi réttlætt þessa tillögu, en ég geri mér hins vegar sterklega vonir um að jafnvel hæstv. utanrrh. kunni að styðja þessa tillögu. Eigum við að gefa það upp á bátinn? Eigum við ekki heldur að sameinast um það að fá fram stefnu í þessum málum og eyða þeim misskilningi sem er í þjóðfélaginu yfirleitt um framtíð þessa máls og fá hér markaða ákveðna stefnu sem menn geta sameinast um?