Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:03:37 (6493)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Flm. þessarar tillögu og aðrir sem talað hafa fyrir henni hafa haft á orði að nú sé tími til kominn í framhaldi af hörðum deilum um EES-samninginn að leita sátta og freista þess að sameina þjóðina um framhald málsins. Í ljósi þessa er ekki einleikið að við umræður um þessa sáttatillögu svokallaða er allt logandi í ágreiningi m.a. um framhald málsins milli stjórnarandstöðuflokkanna þriggja. Og staða málsins er þá sú að það er ekki bara að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa klofnað í afstöðu sinni til EES heldur virðast þeir vera mjög ósammála um hvert eigi að vera framhald málsins.
    Annað, af því að þetta er nú tiltölulega lítið mál og auðskilið, þá má það undarlegt heita hversu mjög það vefst fyrir mönnum að skýra hvert þeir eru að fara og hvað þeir meina með orðum sínum. Af því tilefni vil ég taka það fram að ég tek ekki undir með formanni Framsfl. þegar hann ber hv. 4. þm. Austurl. það á brýn að hann meini ekki einlæglega það sem hann segir í þessu máli. Ég held þvert á móti að hv. 4. þm. Austurl. segi það sem hann meinar og meini það sem hann segi í þessum málum og rengi ekki að afstaða hans er að því leyti ekta og málefnaleg. Það eru hins vegar aðrir sem stunda látalæti og leikaraskap í málinu eins og t.d. formaður Alþb. sem meinar ekkert af því sem hann segir.
    Um hvað er þessi tillaga? Hún er einfaldlega um það að Alþingi feli ríkisstjórninni að hefja undirbúning að samningum við Evrópubandalagið á grundvelli viðskiptaþáttar EES og þess er óskað að viðræður um þetta hefjist hið fyrsta. Hv. formaður Framsfl. taldi það bera vott um ósamkvæmni hjá mér þegar ég segi: Það þarf ekkert að álykta um að hefja undirbúning að því að semja við Evrópubandalagið um viðskiptaþátt EES. Sá undirbúningur hófst undir forustu hv. formanns Framsfl. fyrir fjórum árum og þeim undirbúningi er í sjálfu sér lokið með þeirri niðurstöðu sem felst í viðskiptaþætti EES-samningsins. Ef hv. þm. meinar að við eigum þrátt fyrir það í þeirri óvissu sem mál standa í núna að óska eftir því að taka upp formlegar samningaviðræður við EB aftur um viðskiptaþáttinn, þá get ég sagt honum það sem mína skoðun að því verður ekki svarað af Evrópubandalaginu. Auðvitað verður því ekki svarað þegar eitt ríki kemur sem er að bíða eftir því hvort samningur sem búið er að eyða fjórum árum í fái staðfestingu eða ekki og biður um samningaviðræður um sama efni. Menn hrista bara höfuðið. Það segir sig sjálft að þetta mál verður a.m.k. að bíða eftir því að samningurinn nái gildistöku. Það segir sig sjálft og þarfnast ekki

frekari rökstuðnings.
    Hitt er annað mál hvort við eigum að ræða við Evrópubandalagið um hvað taki við í framtíðinni ef EFTA-löndin yfirgefa EFTA og ganga í Evrópubandalagið. Og þetta ,,ef`` snýst bæði um hvort og hvenær. Þá er því til að svara að viðræður við Evrópubandalagið þar sem við lýsum skoðunum okkar á því hvað muni taka við og hvers við óskum í því efni hafa farið fram og það er ár síðan þær viðræður voru hafnar. Það hefur verið rætt við utanrrh. framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, bæði þann fyrrverandi og núverandi, og það hefur verið rætt við þá sem gegna formennsku í Evrópubandalaginu, bæði á seinni hluta síðasta árs, Douglas Hurd, utanríkisráðherra Breta, og þann sem nú gegnir því starfi, Niels Helveg Petersen, utanríkisráðherra Dana, og öllum ber þessum aðilum saman. Þeir segja: Fari svo að EFTA-ríkin yfirgefi EFTA og gangi inn í EB og Ísland verði eitt eftir af samningsaðilum sjáum við enga meinbugi á því að Ísland haldi þessum samningi að því er varðar inntak hans, réttindi og skuldbindingar. En hitt segir sig nánast sjálft að þá þyrftum við að efna til samninga um breytingar á formi stofnananna. Ef EFTA yrði ekki lengur til, þá verða ekki til eftirlitsstofnun og dómstóll EFTA. Það segir sig sjálft. En engu að síður er það rétt að um það þyrfti að semja.
    Er hægt að taka upp þá samninga strax? Nei, það er ekki hægt. Hvers vegna ekki? Vegna þess að við yrðum að bíða eftir því hvort EES-samningurinn nái gildistöku. Og vegna þess að við erum í fullkominni óvissu um það hver verður gildistími EES-samningsins. Það hafa verið leidd að því rök, bæði af hv. 4. þm. Austurl. og eins af hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að vel megi vera að EES-samningurinn gildi lengri tíma en margir hafa ætlað hingað til. Við hvaða rök styðst það? Jú, það styðst við þau rök að þjóðirnar sem eru að sækja um eru ekki búnar að ljúka sínum samningum. Þeir samningar eru nýbyrjaðir. Þeir samningar hafa satt að segja í upphafi snúist um það sem auðveldast er og því hefur verið lýst yfir af hálfu Evrópubandalagsins að þeir samningar verði ekkert auðveldir. Það eru mörg ágreiningsefni sem gætu orðið að ásteytingarsteini. Það getur varðað hluti eins og byggðapólitík þessara landa, landbúnaðarpólitík þessara landa, sjávarútvegsstefnu þessara landa, viðskiptastefnu nokkurra þessara landa gagnvart öðrum ríkjum, ég tala sérstaklega um Finnland og Rússland, og það getur varðað sameiginlega utanríkis- og varnarpólitík, aðild að varnarbandalagi Vestur-Evrópu. Þessir samningar eru ekkert í höfn. Það er flestra manna mat að það sé barnaskapur sem fram hefur komið af hálfu forustumanna Svía þegar þeir enn lýsa því yfir að þeir telji góðar horfur á að Svíþjóð verði orðin fullgildur meðlimur í ársbyrjun 1995. Ef EES tekur gildi á seinni hluta þessa árs mun það alla vega gilda út þetta ár og þar næsta ár og gæti satt að segja gilt mun lengur, m.a. vegna þess að jafnvel þótt þessi ríki geti náð samningum um aðild við Evrópubandalagið þá eiga þau líka eftir að fá meirihlutasamþykki þjóða sinna við þessum samningum. Eins og nú horfir, stefnir ekki í þann meiri hluta og eins og nú horfir er það svo að það getur mjög margt gerst á þessari leið sem gæti eflt andstöðuna t.d. innan Norðurlanda við inngönguna í EB.
    Um þetta þarf væntanlega ekkert að hafa mörg orð umfram það sem þegar er sagt. Það er þess vegna ótímabært að óska núna eftir formlegum samningaviðræðum við EB um viðskiptaþátt EES. Það hlýtur að bíða eftir að EES-sanningurinn taki gildi og eftir því að við sjáum hvort EFTA heldur velli vegna þess að Norðmenn og hugsanlega fleiri þjóðir eigi ekki svo auðvelt inngöngu í Evrópubandalagið og haldi þess vegna þessu EFTA-samstarfi áfram. Hitt er það sem á skandinavísku heitir ,,selvfølgelighed`` eða sjálfsagður hlutur að ræða við samningsaðilann, Evrópubandalagið, um hvað við taki og um það er enginn ágreiningur. Menn eru sammála um það í hvaða átt það eigi að stefna og sammála um það að það sé ekki tímabært að taka þær viðræður upp formlega fyrr en óvissu hefur verið eytt um gildistöku EES.
    Ég tel að með því að benda á þetta sé ég ekki að lýsa neinni andstöðu við þessa tillögu því að tillagan er út af fyrir sig ekki um svo skýrt skilgreinda hluti. Ég er t.d. sammála því að ég tel á því miklar líkur þótt það kunni að líða langur tími þangað til að því kemur að EES-samningurinn, að því er Ísland varðar, breytist í tvíhliða samning. Það er alla vega kjarni þessa máls. En það er allt annar hlutur en hefur vakað í máli manna hér því að í þessu er dálítill feluleikur. Þeir sem eru andstæðingar EES hafa gjarnan sagt: Jaá, en það er allt í lagi að semja við EB ef það er bara í tvíhliða formi. Þetta var afstaða Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu á fyrra kjörtímabili. Þá var það afstaða Framsfl. og Alþb. að segja: Nei, við teljum líkurnar á því að við náum góðum samningum eftir tvíhliða formi mun minni en ef við gerum þetta í samfloti með hinum EFTA-þjóðunum. Nú erum við reynslunni ríkari, nú liggja samningsniðurstöðurnar fyrir. Og enginn sem hugleiðir þetta mál í alvöru og hefur kynnt sér það neitar því að samningsniðurstaðan var mun betri eftir þeirri leið í fjölþjóðlegum samningum en nokkrar líkur eru á að geti orðið í tvíhliða samningum. Það er í ljósi þessa sem ég hef sagt að það væri varasamt, beinlínis varasamt að óska eftir formlegum tvíhliða viðræðum núna, burt séð frá örlögum EES. Og hvers vegna er það varasamt? Það er vegna þess, ef á það yrði hlustað sem að vísu eru engar líkur á, að við værum þá auðvitað fyrst og fremst að biðja um endursamning á bókun 6, rýmri markaðsaðgang, kannski jafnvel fríverslun með fisk. Og við værum þá fyrst og fremst að óska eftir viðræðum við DD-14, þ.e. landbúnaðar- og sjávarvörudeildina, sem yrði eðli málsins samkvæmt aðalsamningsaðilinn í tvíhliða samningum um slíka hluti. Og þeir mundu einfaldlega klappa sama steininn og þeir hafa gert alla tíð frá því að bókun 6 var samin. Já, þetta getur komið til greina ef þið látið okkur fá veiðiheimildir í staðinn. Ég mundi ekki mæla með því að við færum út á svo varasama braut með því að óska nú eftir tvíhliða samningaviðræðum við þessar kringumstæður um hluti sem við erum búnir að semja um og fá miklu hagstæðari niðurstöður en nokkrar líkur eru

á að fáist eftir þessum leiðum. Sannleikurinn er sá að ég held að þetta sé svolítill feluleikur. Ég held að það sé ekki mjög djúp alvara eða sannfæring á bak við inntak tillögunnar. Menn eru að reyna að segja hins vegar eitthvað til þess að koma sér frá því að flokkarnir hafa skipt um skoðun gagnvart EES frá því að þeir voru í stjórn og eru nú í stjórnarandstöðu. Og það er bara einn stjórnmálaflokkur hér á Alþingi Íslendinga sem hefur haft sömu afstöðuna í málinu frá upphafi til enda. Það vill svo til að sá sem hér stendur er formaður þess flokks og þarf þess vegna ekki að stunda neinn feluleik í málinu.
    Mín niðurstaða er þess vegna sú að í sjálfu sér er ástæðulaust með öllu að fara út í aðra þætti Evrópumála í tilefni af þessari tillögu. Spurningin um aðild að Evrópubandalaginu? Það er engin óvissa ríkjandi um það mál að því er varðar afstöðu íslenskra stjórnvalda og stjórnmálaflokka. Og meira til. Það er meira að segja engin ástæða til þess að ætla að þótt hér væru stjórnmálaflokkar sem fylgdu því máli, þá væri sú gata greið. Vegna þess að við vitum að Evrópubandalagið hefur ekki nokkurn minnsta áhuga á að fá Ísland sem aðila að Evrópubandalaginu. Og mjög valdamikil öfl innan Evrópubandalagsins mundu eindregið leggjast gegn því að það gerðist. Hvers vegna? Það er vegna þess að við óbreytta skipan og starfshætti Evrópubandalagsins er það ríkjandi skoðun, það eru að vísu til frávik en það er ríkjandi skoðun, að Evrópubandalagið geti ekki tekið inn svokallaðar örþjóðir, þ.e. þjóðir eins og Kýpurbúa, Möltubúa og Íslendinga, og gefið þeim þau réttindi sem fylgja fullgildum meðlimum. Þar á meðal réttindin til þess að fá þýdda alla gjörninga og allt pappírsflóð bandalagsins yfir á tungumál viðkomandi þjóðar og þann rétt að mega tala það tungumál á fundum þess og ráðstefnum, þó ekkert kæmi annað til. Ég nefni bara hér eitt atriði. Kostnaðurinn við þetta yrði ótrúlegur. Og þeir hafa ekkert legið á þeirri skoðun sinni að þeir megi ekki til þess hugsa að fá fleiri slík ríki inn í Evrópubandalagið. Ef menn hafa voðalegar áhyggjur af því, þá er það á miklum misskilningi byggt. Og þeir sem eru mestir andstæðingar Evrópubandalagsins þurfa ekkert að hafa fyrir því að boða þá skoðun sína því að þeir eiga mjög trausta bandamenn í forustusveit Evrópubandalagsins sjálfs.
    Meira held ég að ég sjái ekki ástæðu til þess að segja að svo stöddu.