Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:18:58 (6495)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fagna því að hæstv. utanrrh. fékk málið. Ég hafði dálitlar áhyggjur af því að hann skyldi ekki taka til máls. Ég er óvanur því af hans hálfu. Hins vegar viðurkenni ég að það kom bókstaflega ekki nokkur skapaður hlutur nýr fram í hans ræðu. Hann endurtók það að þetta væri varasamt, ótímabært o.s.frv. Ég hef svarað því öllu og ég hef lýst því að við erum reiðubúnir að ræða um fyrirvara, tímasetningar og allt saman og höfum reyndar eingöngu lagt á það áherslu að marka ákveðna stefnu svo að eytt sé þeirri óvissu sem hér ríkir. Ég er búinn að endurtaka það oft og ég trúi ekki öðru en hæstv. utanrrh. sé sammála því að það þurfi að gera.
    Hins vegar hlakkaði mjög í honum þegar hann fullyrti hér í upphafi síns máls að það væri ágreiningur á milli stjórnarandstöðunnar um þetta mál. Ekki veit ég á hverju hann byggir það. Það kann að vera að það sé í andsvörum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, en grunur minn er sá að það sé ekki fugl í hendi þegar upp verður staðið. Ég er sannfærður um að Hjörleifur Guttormsson stendur með okkur í þessu máli þegar þar að kemur. En það er auðvitað hans að svara því. En ég vil bara vara hæstv. utanrrh. að treysta á það.