Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:29:30 (6501)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni er mér alveg ljúft að votta það að ég hef hinar mestu mætur á þingmönnum í eigin flokki, þingmönnum yfirleitt og alveg sér í lagi þeim hv. þm. sem er formaður í efh.- og viðskn.
    Að því er varðar það sem stóð í skýrslu utanrrh. þar sem hvatt var til þess að íslensk stjórnvöld færu að kanna af alvöru kost og galla aðildar, þá vil ég benda hv. 4. þm. Austurl. á að setja það í tímanlega rétt samhengi. Það er eitt að segja: Auðvitað eigum við að skoða þennan kost vandlega út frá íslensku hagsmunamati, og annað að segja: Nú hef ég komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að sækja um aðild. Að þeirri niðurstöðu komst ég aldrei, en ég taldi þá og tel enn að það hefði verið sjálfsagður hlutur og hygginna manna háttur að skoða vandlega kosti og galla. ( Gripið fram í: Þar með talið að leggja niður íslensku . . .  ) Nei, nei. Þetta var sagt líka þegar óvissan um EES var nánast í hápunkti og ég vek athygli á því að ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að staðfesting EES-samningsins dragi úr þrýstingi m.a. á forráðamenn íslensks atvinnulífs á það að Ísland sæki um aðild að EB, þ.e. EES-samningurinn tryggir viðskiptahagsmuni okkar á nokkurn veginn viðunandi máta og full aðild veitir ákaflega litla viðbót á viðskiptasviðinu. Ef við hefðum ekki EES-samninginn sem helmingurinn af þingflokki Framsfl., meiri hlutinn í þingflokki Kvennalistans og þingflokkur Alþb. í heild sinni beittu sér gegn, þá hefði að sjálfsögðu aukist mjög þrýstingurinn á það að við gengjum í EB. Vegna þess að fjöldi fólks, sem hefur nokkurn veginn óskjálga sýn á veruleikann, ekki síst þeir sem eru í einhverjum tengslum við atvinnulífið, sæi auðvitað að þá væri hlutum okkar komið í illt efni og við yrðum hugsanlega neyddir til þess um síðir að ganga í EB. Sem betur fór tókst bæði mér og öðrum góðum mönnum að afstýra þessu og þar á meðal þeim mönnum í Framsfl. sem sátu hjá og greiddu þannig götu málsins. Eftir stendur svo hitt sem Íslendingar verða að fara að átta sig á að af hálfu EB er enginn áhugi á því, ekki nokkur, að fá Íslendinga inn í EB.